Á jaðrinum í sögnum og arkífum

Málstofustjóri: Eva Þórdís Ebenezersdóttir

Hvað gerist þegar nýjum sjónarhornum og aðferðum er beitt á efni eins og þjóðsagnasöfnin? Í málstofunni verður sjónum beint að minnihluta- og jaðarhópum í sagnaefni frá fyrri tíð, áhrifum þeirra á efnið og birtingarmynd þeirra í því. Hér mætast kröfur okkar samtíma um margbreytileika mannlífs í rannsóknum og efni frá tíma þar sem hugakið margbreytileiki var ekki til. Gerð verður grein fyrir því hvernig sjónarhorn og aðferðir minnihlutahópafræða geta varpað nýju ljósi á gamalt þjóðfræðiefni og dregið fram vitneskju um samfélag fyrri alda á Íslandi. Þátttakendur í málstofunni eru MA og PhD nemar í þjóðfræði sem munu kynna rannsóknir sínar. Litið verður til aðferða, innihalds þjóðfræðiefnis og dæmi gefin um áhugaverðar niðurstöður rannsókna þar sem hópar fólks sem öðrum þóttu framandi og eru jaðarsettir í sagnaefninu hafa verið skoðaðir.

Glímt við mann og björn: Birtingarmyndir jaðar­settra menningarhópa í tveimur frásögnum

Lestur og túlkun sagna getur verið góð leið til að öðlast dýpri skilning á hugmyndir samfélaga um það hvað sé eðlilegt og hvað sé óeðlilegt, enda er eitt hlutverk sagna oft það að staðfesta ríkjandi samfélagsviðhorf. Í þessu rannsóknarverkefni voru tvær sögur frá ólíkum tímabilum teknar til gagnrýninnar túlkunar í því skyni að draga fram hugmyndir um jaðarsetningu sem finna má í þeim. Til grundvallar lágu Íslendingasagan Finn­boga saga ramma og 19. aldar þjóðsagan um Magnús sterka. Sögurnar innihalda svipaðar frásagnir um íslenska hetju sem keppir á móti bæði bjarndýri og „blámanni“. Í báðum sögum birtast maðurinn og björninn í hlutverki furðuvera og hetjan notar sömu aðferð til að aflífa þá báða. Í rannsókninni voru þættar saman frásagnargreiningaraðferðir í þjóðfræði og mið­alda­bókmenntum til að öðlast dýpri skilning á sögunum og merkingu þeirra. Við greiningu var einnig höfð hliðsjón af kenningum í félagsvísindum um sjálfsmynd, skynjun og framand­leika. Í erindinu verður fjallað um sögurnar í menningar­sögulegu samhengi og greint frá helstu niðurstöðum rannsóknarinnar. Sjónum verður einkum beint að þróun hugmynda um „framandi“ hópa í tímans rás og verður tekið tillit til sambærilegra þjóðfræðilegra og bókmenntafræðilegra heim­ilda. Að lokum verður varpað fram þeirri spurningu hvað „blá­mennirnir” í þessum tveimur sögum geti sagt okkur um sjálfs­mynd Íslendinga fyrr á öldum auk hugmynda þeirra um hvað felist í því að vera mennskur.

Aðalheiður Alice Eyvör Pálsdóttir og Kristinn Schram

„…hafa þær þó alla stund fóstrað á skauti sér sagnafræði vora og þjóðsögur. “

Í erindinu verður fjallað um það hvaða möguleika mismunandi þjóðfræðisöfn, sem geyma sagnir gamla torfbæjarsamfélagsins, gefa til rannsókna á sagnamenningu kvenna. Gagnasöfnin sem hér liggja til grundvallar eru annarsvegar prentuð þjóðsagna­söfn frá ca. 1860-1960 og hinsvegar segul­bandsupptökur Hallfreðar Arnar Eiríkssonar og fleiri þjóðfræði­safnara frá seinna skeiði 20. aldar. Þó að þessum heimildum sé safnað á mismunandi tíma og söfnun þeirra byggi að mörgu leyti á ólíkri hugmyndafræði, aðferðum og tækni kemur í ljós við greiningu á þeim að mun færri konur eru á meðal þekkjanlegra heimildar­manna. Þrátt fyrir þessar karllægu áherslur bjóða gögnin upp á mikla möguleika fyrir endurbyggingu á mörgum þáttum sagnamenningar kvenna í fortíðinni. Í þessu samhengi skiptir ekki síst máli að áherslan á að hljóðrita efni gamals fólks eftir miðja 20. öldina gerir það að verkum að heimildasöfnin tvö skarast í tíma. Í hljóðritunum er því að finna þætti sagna­menningar sem prentuðu heimildirnar eru þöglar um, ekki síst þegar unnið er með konur og sagnir þeirra. Gildi þjóðfræði­safnanna fyrir þjóðfræðirannsóknir samtímans felst þó ekki aðeins í möguleikum á endurbyggingu á sagnamenningu kvenna og annarra hópa sem fyrri rannsóknir og framsetning á hefðinni voru þöglar um. Þau gefa einnig kost á rannsóknum á ýmsum þáttum sagnamenningar sem erfitt gæti reynst að takast á við með sjálfsöfnuðu efni í samtímasamfélaginu.

Júlíana Þóra Magnúsdóttir

„Nokkuð skapþung, en trú og dygg“  Birtingarmynd kvenna í íslenskum þjóðsögum

Þjóðsagnir geta sagt okkur margt um samfélögin sem þær tilheyra, þær endurspegla á vissan hátt þann hugmyndaheim og jarðveg sem fóstraði þær. Í þeim má fræðast um viðhorf fólks, greina ádeilu á yfirvöld, og í þeim birtast gjörólíkar hugmyndir eins og samkennd með minnimáttar og fordómar, hræðsla og stolt. Sagnirnar segja hvað er æskileg og óæskileg hegðun og þeim er oft beinlínis ætlað að hafa mótandi áhrif á hugmynda­heim fólks og halda jaðarhópum niðri. Því er rík ástæða til að rannsaka og endurskoða sagnaarfinn út frá nýjum og gagn­rýnum hugmyndum, skoða gamalt efni frá nýjum sjónarhornum.

Í erindinu verður fjallað um birtingarmynd kvenna í íslenskum sögnum og unnið með þjóðsagnasöfn frá 19. og 20. öld. Þær sögur eru flestar sagðar, skrifaðar og safnað af körlum. Þær endurspegla því ekki endilega hugmyndirnar sem konur höfðu sjálfar um hlutverk sitt og líf, heldur frekar þann ramma sem samfélagið setti þeim. Fjallað verður um boðskapinn sem sagn­irnar innihalda varðandi hlutverk og hegðun kvenna út frá þjóð­fræðilegu og kynjafræðilegu sjónarhorni og félagslega taum­haldið sem beinist að konum. Eins verður skoðað hvort hug­myndirnar sem sagnirnar endurspegla séu hugsanlega enn til staðar í íslensku samfélagi.

Dagrún Ósk Jónsdóttir

Þjóðtrúarleg mörkun annarskonar líkama

Í erindinu mun ég leggja fram valin dæmi úr doktors rannsókninni sem varpa ljósi á þjóðtrúarlega mörkun fólks með annarskonar líkama. Í rannsókninni styðst ég við tvö gagnasöfn þjóðfræðiefnis, annarsvegar heildarsafn Jóns Árnasonar, Íslenskar þjóðsögur og ævintýri og hins vegar spurningalista þjóðháttasafns Þjóðminjasafnsins númer 10, Barnið, fæðing og fyrsta ár. Í báðum þjóðfræðisöfnunum má finna dæmi um að litið sé á fólk með annarskonar líkama eða hegðun sem markað hinu yfirnáttúrulega. Slík mörkun getur haft þau áhrif að skilningur á líkömum eða hegðun þessara einstaklinga sé sá að þau séu öðruvísi mannfólk eða jafnvel yfirnáttúrulegar verur. Með því að sameina sjónarhorn þjóð- og fötlunarfræða og beita á þjóðfræðiefnið sögulegri orðræðugreiningu má koma auga á undirliggjandi valdatengsl á milli þeirra venjulegu og óvenju­legu. Slíkar hugmyndir, oft markandi og runnar undan rifjum trúarinnar á yfirnáttúrulegar vættir og verur, nutu að auki skjóls í hefðbundnu og ríkjandi þjóðfræðiefni og mótuðu í gegnum það viðhorf, viðbrögð og skilning fólks á líkömum, ekki síst þeirra sem skáru sig úr fjöldanum. Þau sem hafa mögulega orðið fyrir slíkri mörkun og jaðarsetningu vegna áhrifa þjóðfræði­efnisins var fólk sem í dag myndi ef til vill skilgreina sig sem fatlað fólk. Rannsókn sem þessi varpar ljósi á rótgrónar hugmyndir og staðalmyndir sem jafnvel eimir enn af og að líta til fortíðar er því mikilvægur þáttur í mótun jafnréttis til framtíðar.

Eva Þórdís Ebenezersdóttir

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 13:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 14:45
Höfundar erinda
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 13:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 14:45