Bækur og tímarit

Ritröðin Í stuttu máli

Ritröðin er vettvangur til miðlunar rannsókna félagsvísindafólks á Íslandi, hugsuð til að koma vísindalegri þekkingu á framfæri á aðgengilegan og hnitmiðaðan hátt. Hver bók tekur fyrir afmarkað málefni sem skírskotar til brýnna samfélagslegra úrlausnarefna samtímans. Lögð er áhersla á að bækurnar séu læsilegar en uppfylli um leið ýtrustu kröfur vandaðrar fræðimennsku. Markmiðið er að þær þjóni jafnt almenningi, fjölmiðlafólki, stjórnmálamönnum, námsmönnum og fræðasamfélaginu og séu framlag til upplýstrar samfélagsumræðu um aðskiljanlegustu málefni íslensks samfélags. Bækurnar eru ritrýndar og gefnar út af Háskólaútgáfunni í samstarfi við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.

Áfangastaðir – í stuttu máli (2021)

Gunnar Þór Jóhannesson og Katrín Anna Lund

Ísland hefur á skömmum tíma orðið geysivinsæll áfangastaður ferðamanna í takt við hnattrænan vöxt ferðamennsku. Þótt heimsfaraldurinn hafi um stund hægt á straumnum bendir allt til þess að gestkvæmt verði á landinu um ókomna tíð. Umræða um stjórnun og skipulag ferðaþjónustu er áberandi enda hefur uppbygging innviða til að þjónusta ferðamenn margs konar áhrif á landslag og samfélög og hefur víða reynst umdeild. Í grundvallaratriðum snýst þessi umræða um mótun áfangastaða.
Markmið bókarinnar Áfangastaðir – í stuttu máli er að draga upp nýja mynd af því hvernig áfangastaðir verða til og þróast. Með hliðsjón af uppbyggingu ferðamennsku á Ströndum er rýnt í samband ferðaþjónustu og samfélaga og sýnt hvernig náttúra og menning eru samofin svið en ekki aðgreind eins og oft er látið í veðri vaka. Með þessu er spjótum beint að hefðbundnum rannsóknaraðferðum ferðamálafræðinnar og bent á nýjar leiðir til að nálgast og veita innsýn í margbreytileika ferðamennskunnar og áfangastaða ferðamanna.
Gunnar Þór Jóhannesson og Katrín Anna Lund eru prófessorar í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

​​​​​​​

Kynþáttafordómar – í stuttu máli (2020)

Kristín Loftsdóttir

Ekki er langt síðan margir héldu því fram víða í Evrópu og Bandaríkjunum að kynþáttafordómar heyrðu nú sögunni til. Pólitískar sviptingar og uppgangur popúlistaflokka á síðastliðnum árum hafa aftur á móti dregið slíka fordóma aftur fram í dagsljósið sem eitt af stóru viðfangsefnum samtímans. Á Íslandi vaknar reglulega umræða um fordóma af þessu tagi, þeir eru jafnan fordæmdir en einnig velta menn vöngum yfir því hvað þeir séu og hvort og hvernig þeir séu hluti af íslenskum veruleika.

Í bókinni Kynþáttafordómar – í stuttu máli eru kynþáttahugmyndir teknar til skoðunar. Markmið bókarinnar er tvíþætt. Annars vegar að gefa greinargóða skýringu á kynþáttafordómum í ljósi nýlegrar fræðilegrar umræðu og hins vegar að sýna hvernig kynþáttahugmyndir hafa birst í íslenskri umræðu í ýmsum myndum, bæði í fortíð og samtíma.

Kristín Loftsdóttir er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.

Tvær-bækur
Thjodarspegill_stubbur 2 2021