Leiðir þekkingarstjórnun til aukinnar verðmætasköpunar?

Málstofustjóri: Ásta Dís Óladóttir
Áhrif þekkingarstjórnunar  á fjölskyldufyrirtæki í sjávarútvegi

Ísland hefur fest sig í sessi meðal fremstu fiskveiðiþjóða heims. Atvinnugreinin skilar miklum verðmætum inn í íslenska þjóðar­búið og þau verðmæti eru stöðugt að aukast með meiri þekk­ingu og aukinni nýsköpun. Markmið þessarar rannsóknar er að sýna fram á hlutverk þekkingarstjórnunar í fjölskyldu­fyrirtækjum í íslenskum sjávarútvegi. Af fimmtíu stærstu sjávar­útvegs­fyrirtækjum á Íslandi í dag eru 39 fjölskyldufyrirtæki en það er talið algengasta félagaformið á heimsvísu og allt að 90% fyrir­tækja eru í eigu fjölskyldna eða er stjórnað af fjölskyldum. Rann­sóknin byggir á eigindlegri aðferðafræði, tilviksathugun á sjávar­útvegsfyrirtækinu Vísi hf. Í Grindavík, sem hlaut þekkingar­verð­laun Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) árið 2018, fyrst íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í tæplega 20 ára sögu verð­launanna. Tekin voru viðtöl við fimm starfsmenn og stjórn­endur og eru niðurstöður þeirra viðtala borin saman við kenningar­grunn rannsóknarinnar. Við val FVH á þekk­ing­ar­fyr­ir­tæki árs­ins 2018 var horft til þeirra fyr­ir­tækja sem eru leiðandi í sta­f­­­ræn­um lausn­um og hafa með ný­sköp­un í tækni bætt rekstr­ar­um­hverfi sitt. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að Vísir beiti mark­visst aðferðum þekkingarstjórnunar og að önnur fjöl­skyldu­­­fyrirtæki geti nýtt svipaðar aðferðir til aukinnar verð­mæta­sköpunar. Þá sýna niðurstöður að beiting þekkingar­stjórnunar innan Vísis hefur leitt til meiri nýsköpunar í tækni, aukið sjálfvirkni, bætt afköst og framleiðni og aukið verðmæti afurða.

Ásta Dís Óladóttir

Þekkingarstjórnun fyrir fyrirtæki með einkaleyfishæfa þekkingu

Alþjóðleg samkeppni er sífellt að aukast og tækniþróun fleygir fram, því þurfa skipulagsheildir í meiri mæli en áður að nýta þekkingarverðmæti, líkt og hugverk, til að skapa sér samkeppnislega yfirburði til framtíðar. Meginmarkmið rannsóknar­innar er að skoða hvernig fyrirtæki vinna með einkaleyfishæfa þekkingu og hvernig sú framkvæmd fellur að fræðilegri umfjöllun um þekkingarstjórnun. Rannsóknin byggir á eigindlegri aðferðafræði. Tekin voru viðtöl við fimm starfs­menn sem hafa umsjón með einkaleyfum hjá völdum fyrir­tækjum. Niðurstöður viðtalanna voru bornar saman við fræði­lega umfjöllun um þekkingu og þekkingarstjórnunarlíkön Henao-Calad, Montoya og Ochoa og Kucza.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiða í ljós að fyrirtækin virðast almennt ekki starfa markvisst að þekkingarstjórnun þegar skoðaðir eru samhæfingarferlar framangreindra líkana, þótt fyrirtækin vinna að mörgu leyti í samræmi við rekstrarferla líkananna. Verklag hvað varðar hugverkastjórnun (einkaleyfa­stjórnun) er nokkuð skýrt hjá flestum fyrirtækjunum, þó svo að það sé ekki alltaf skjalfest. Þá eru fyrirtækin almennt ekki að horfa á verndun hugverka sem þátt í eiginlegu þekkingar­stjórnunar­ferli. Höfundur telur, með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknarinnar, að það megi einfalda og skýra framangreint líkan Henao-Calad, Montoya og Ochoa.

Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir

Útvistun í litum og meðalstórum þekkingarfyrirtækjum

Markmið erindisins er að kynna niðurstöður kannana á því hvort þekkingarfyrirtæki í þjónustu útvisti með öðrum hætti en önnur fyrirtæki. Niðurstöður byggja á þremur könnunum sem fram­kvæmdar voru á tímabilinu 2009-2018. Kannanirnar voru blanda af spurningalista- og netkönnunum. Alls fengust svör frá 802 stjórnendum. Um 79% þátttökufyrirtækja voru með færri en 10 starfsmenn á launaskrá og teljast því til smáfyrirtækja. Helstu niðurstöður eru þær að útvistun er mjög algeng í íslenskum fyrirtækjum, þar sem 80% fyrirtækja hafa útvistað verkefnum á síðustu þremur árum. Aðeins um 23,5% fyrirtækja hafði mótað sér stefnu um útvistun. Þekkingarfyrirtæki útvista lítillega meira en önnur fyrirtæki og þau eru líklegri til að hafa mótað stefnu um útvistun. Þau eru þó ekki líklegri til að útvista einhæfum verkefnum. Almennt útvista fyrirtæki sem kannanirnar ná til stoðþjónustu svo sem, símsvörun, ræstingum, bókhaldi og upplýsingatækni. Ástæður útvistunar eru samkvæmt svörum í könnunum stefnumiðaðar í eðli sínu, eins og að fá aðgang að sérfræðiþekkingu, einblína á kjarnafærni og að auka þjónusta við viðskiptavini. Þannig nefndu 77% svarenda slíka möguleika. Kostnaðarlækkun nefndu 48% svarenda. Útvistun hafði mjög takmörkuð áhrif á starfsmannamál í fyrirtækjunum. Um helmingur fyrirtækjanna í könnununum hafði náð fram kostnaðar­lækkun með útvistun.

Ingi Rúnar Eðvarðsson

Hlutverk kerfisbundinnar skráningar upplýsinga í verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi

Þekking er einn af hornsteinum skipulagsheilda og sú auðlind sem ræður hvað mestu um velgengni og samkeppnishæfi þeirra. Skipulagsheildir hafa því innleitt þekkingarstjórnunarkerfi eða gagnasöfn fyrir þekkingarskráningu. Til að skráning þekkingar skili árangri er nauðsynlegt að flokka, skipuleggja og setja fram upplýsingar með kerfisbundnum hætti. Tilgangur þessarar kynningar að skoða mikilvægi þekkingarstjórnunar í aukinni verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi. Horft er til Vísis hf. sem valið var þekkingarfyrirtæki ársins 2018.

Rannsóknin er tilviksrannsókn. Tekin voru viðtöl við stjórnendur og starfsfólk Vísis, auk þess sem unnið var úr fyrirliggjandi gögnum frá fyrirtækinu auk annarra gagna. Mikilvægi rannsóknarinnar felst ekki síst í því að sýna fram á hvernig Vísir beitir kerfisbundnum skráningum upplýsinga til þess að auka þekkingu og ýta þannig undir verðmætasköpun í sjávarútvegi, sem nýst geta öðrum sambærilegum fyrirtækjum til að ná árangri á því sviði.

Ragna Kemp Haraldsdóttir

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 09:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 10:45
Höfundar erinda
Lektor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Verkefnisstjóri / Project manager
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 09:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 10:45