Íslensk dægurtónlist – Vaxandi rannsóknarvettvangur

Málstofustjóri: Arnar Eggert Thoroddsen

Tilgangur málstofunnar er að leiða saman fólk sem hefur framkvæmt rannsóknir á íslensku dægurtónlistarlífi á síðustu misserum. Fyrirlesarar koma af ólíkum sviðum félagsvísindanna; félagsfræði, fjölmiðlafræði, viðskiptafræði og stjórnmálafræði en eiga sameiginlegt að hafa skoðað íslenskan dægurtónlistarheim með ólíkum rannsóknartólum. Dr. Arnar Eggert Thoroddsen skoðaði íslenskan dægurtónlistarheim á félagsfræðilegan hátt og skrifaði doktorsritgerð upp úr þeirri rannsókn við Edinborgarháskóla á meðan Erla Rún Guðmundsdóttir MA er lögð af stað með doktorsritgerð, þar sem hérlendur dægurtónlistariðnaður er skoðaður viðskiptafræðilega. Byggist hún m.a. á rannsókn sem hún og Dr. Margrét Sigrún Sigurðardóttir unnu fyrir rannsóknarmiðstöð skapandi greina í HÍ (í samstarfi við ÚTÓN, Samtón og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið). Phil Uwe Widiger lauk með láði á dögunum MA meistararitgerð í blaða- og fréttamennsku þar sem hann skoðaði grasrótarsenu íslenskrar dægurtónlistar og Kristján Már Gunnarsson MA mun gera grein fyrir meistararitgerð sinni í viðskiptafræði þar sem umfjöllun um íslenska tónlistarmenn í breskum fjölmiðlum var skoðuð. Ritrýnd grein úr efninu bíður nú birtingar, en meðhöfundar þar eru Dr. Margrét Sigrún Sigurðardóttir og Dr. Arnar Eggert Thoroddsen. Fimmti fyrirlesarinn er svo Dr. Þorbjörg Daphne Hall, en hún hefur nýlokið doktorsritgerð um tengsl íslenskrar dægurtónlistar og þjóðarímyndar við háskólann í Liverpool.

Vonin er svo sú, að það skapist opnar og lifandi umræður í kringum erindin og þetta nýja rannsóknarsvið. Íslensk dægurtónlist er nú nokkuð þekkt á erlendri grundu og þó að landið sé smátt, er öll virkni og utanumhald af stærri gerðinni. Markmið rannsóknanna og ætluð langtímaáhrif („impact“) eru þau, að styðja við vöxt þessa geira og velsældar innan hans, auk þess sem ríkari skilningur á vélavirki hans gefur stjórnvöldum sem og réttlætisbaráttu innan hans byr undir báða vængi. Samfélagslegt mikilvægi rannsókna sem þessa er því óskorað.

„Er þetta ekki bara einhver sýniþörf í manni? Ha?“: Dægurtónlistarfólk á Íslandi

Erindið byggir á doktorsritgerð höfundar og leitast við að útskýra þá samfélagslegu krafta sem knýja heim íslenskra dægur­tónlistarmanna. Kenningar Pierre Bourdieu um veruhátt og menningarframleiðslusviðið, rit Howard Becker um eðli list­heima (Art Worlds) og rannsókn mannfræðingsins Ruth Finnegan á tónlistarlífinu í enska bænum Milton Keynes liggja til grundvallar rannsókninni.

Aðferðafræði byggðist á hálfopnum viðtölum við 30 íslenska tónlistarmenn, etnógrafískri þátttökurannsókn, sögulegum heimildum auk reynslu höfundar og innsæis eftir um tuttugu ára starf sem tónlistarblaðamaður. Lagt var upp með grundaða (e. „grounded“) kenningu en rannsóknarspurning var þríþætt: a) af hverju þarftu að búa til tónlist?, b) koma henni á framfæri? og c) á hvaða hátt spilar íslenskt samfélag inn í starfsemina?

Niðurstöður ríma við þá staðreynd að Ísland er örsamfélag. Fimm grunnþemu komu í ljós, sum þeirra tengd almennu­/alþjóðlegu hegðunarmynstri dægurtónlistarmanna á meðan önnur tengdust íslenskum raunveruleika einvörðungu. Í þessu tiltekna erindi verður sjónum beint sérstaklega að upplifun dægur­tónlistarmannanna af starfi sínu, hvernig þeir lýsa vonum, þrám, sigrum og sorgum. Athugað verður hvernig kenning Bourdieu um veruhátt passar hinu séríslenska ástandi sem niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós.

Arnar Eggert Thoroddsen

Íslensk tónlist í tölum: Hvað vitum við?

Árið 2017 voru áætlaðar heildartekjur íslenska tónlistar­iðnaðar­ins um 3,5 milljarðar króna og rúmlega helmingur þeirra kom til vegna lifandi flutnings á tónlist. Til viðbótar voru 2,8 milljarðar áætlaðir í afleiddar tekjur til samfélagsins vegna komu tónlistar­ferðamanna til Íslands.

Þetta kom fram í skýrslunni Íslensk tónlist í tölum, sem unnin var af Erlu Rún Guðmundsdóttur og dr. Margréti Sigrúnu Sigurðar­dóttur á árunum 2017-2018. Þar kom einnig fram að samkvæmt tónlistarmönnunum sjálfum er lifandi flutningur tónlistar orðin þeirra mikilvægasta tekjulind. Mikilvægi annarra tekjulinda var ekki eins afgerandi og misjafnt eftir hópum hvað kom á eftir lifandi flutningi. Skýrslan Íslensk tónlist í tölum var unnin úr gögn­um frá ýmsum aðilum í tónlistarbransanum, til að mynda STEFi, SFH og ÚTÓN, sem og úr niðurstöðum úr könnun sem lögð var fyrir starfandi tónlistarfólk. Auk þess að leiða í ljós ákveðna þróun innan íslenska tónlistariðnaðarins, skýra upp­byggingu hans og starfsumhverfi tónlistarmanna, gaf greiningar­­vinnan höfundum góðar hugmyndir um hverju væri ábótavant og hvað erfitt væri að segja til um út frá fyrirliggjandi gögnum. Erindið byggir á niðurstöðum þessarar skýrslu, van­köntum hennar og tækifærum til áframhaldandi megindlegra rann­sókna á íslenska tónlistariðnaðinum. Einnig verða niður­stöður og aðferðir bornar saman við sambærilegar skýrslur frá öðrum Norðurlöndum.

Erla Rún Guðmundsdóttir

Umfjöllun um íslenska tónlist í breskum fjölmiðlum og áhrif Bjarkar

Rannsóknin snýst um hvernig ímynd íslenskrar tónlistar hagar sér á erlendri grundu, og þá sérstaklega með tilliti til ríkra áhrifa Bjarkar og Sigur Rósar að því leytinu til. Með því að greina 195 greinar um íslenska tónlistarmenn í þremur stærstu fjölmiðlum Bretlands árin 2001 – 2015 komust höfundar að því að í skrifum erlendra blaðamanna hefur íslensk tónlist sterka tengingu við náttúru Íslands og það sem kalla mætti „annars­heims­lega“ eiginleika. Ungir íslenskir tónlistarmenn hafa getað nýtt sér þessa ímynd í gegnum tíðina, sem er að mestu tilkomin vegna Bjarkar og Sigur Rósar, tónlist sinni til framdráttar. Helstu niðurstöður voru þær, að þessi sterka ímynd er einslags vöru­merki („brand“) sem hefur mótað skrif og skynjun erlendra blaða­manna gagnvart íslenskri tónlist um leið. Áhrifin á íslenska tónlistariðnaðinn sem slíkan eru líka tilfinnanleg. Á hinn bóginn hafa nýtilkomnar sveitir, eins og Of Monsters and Men og Kaleo, sveigt frá þessari ímynd og teljast því vera „tónlistarmenn frá Íslandi“, fremur en „íslenskir tónlistarmenn“ („music from Iceland“ vs. „Icelandic music“. Munurinn liggur í því að uppruni þessara tónlistarmanna virðist ekki skipta máli í umfjöllununum, en hingað til hefur íslenski uppruninn verið meginbroddurinn í erlendum blaðaumfjöllunum.

Kristján Már Gunnarsson

From “Do It Yourself” to “Do It Together”: The new-school underground music scene in Reykjavik

The author’s MA thesis in media and journalism studies examined the present “Do It Yourself” (DIY) music scene in Reykjavik. The author conducted open interviews with nine active members of the scene to explore the reason for its unusual growth in activity and success over the past few years. Along with the thesis, four podcast episodes were produced. The analytical framework made use of e.g. the work of popular musicologist Dr Robert Strachan (The University of Liverpool), who has done a lot of essential research on the interplay between society and cultural production (see his work on UK micro-labels for instance). After analysing the interviews, it became clear that the most essential factor in the Icelandic underground music scene’s success is the transformation from the idealism of “Do It Yourself” (DIY) to the more recent and amended approach “Do It Together” (DIT). The DIT ideology assumes that anything is possible if people work together, with the sole purpose of giving the cultural its right space in society. Any kind of profit making is excluded from that philosophy. Other recurring factors, relating to the unique features of the scene, were the value of its relative isolation and the creative freedom it evokes.

Phil Uwe Widiger

Þjóðarsjálfsmyndir og togstreitan um „hið íslenska“ í dægurtónlist

Fyrirlesturinn byggir á doktorsritgerð sem fjallar um togstreitu milli hinna ólíku frásagna um „hið íslenska“ í dægurtónlist á Íslandi nútímans. Þessar frásagnir hafa þróast með tímanum, í takt við breytingar á íslensku samfélagi, alþjóðlegar hugmyndir um „Norðrið“ og staðalímyndir Íslendinga. Ég lagði áherslu á að afbyggja einfaldaðar frásagnir um tengsl íslenskrar dægur­tónlistar við náttúru og landslag sem oft hafa einkennt erlenda umfjöllun og sækja í íslenska þekkingu sem á rætur sínar að rekja til fyrri tíma. Aðferða­fræðin kemur úr ranni dægur­tónlistar­fræða með áherslu á kenningar um tónlist og staði. Rannsóknar­aðferðin var eigindleg, þar sem ég nýtti bæði textagreiningu og etnógrafíu til þess að fá sem fjölbreyttust gögn og sjónarhorn á viðfangsefnið. Niðurstöður sýna að tónlistarmenn eiga oft í innri baráttu með samband sitt og tónlistarinnar við náttúru og lands­lag. Þeir styrkja stundum þessi tengsl með listsköpun sinni en á sama tíma reyna þeir á markvissan hátt að vinna gegn þeim. Ímynd íslenskrar náttúru og landslags er sterk og virkar vel í markaðssetningu. Tónlistarmenn upplifa þó þessa ímynd sem takmarkandi og jafnvel smættandi og hefur hún áhrif á viðtökur tónlistarinnar og tónsköpunina sjálfa. Þannig tekur tónlistarfólk þátt í orðræðu norðurhyggju (e. borealism) og öðrun Íslendinga í listsköpun sinni.

Þorbjörg Daphne Hall

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 15:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 16:45
Höfundar erinda
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Vísindamaður / Researcher
Háskóli Íslands / University of Iceland
Aðjúnkt
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 15:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 16:45