Stéttarvitund, elitumyndun og menningarlegt forræði

Málstofustjórar: Annadís Rúdólfsdóttir og Lars Gunnar Lundsten

Viðfangsefni málstofunnar er valdagreining á íslensku samfélagi fyrr og nú. Sjónum verður einkum beint að valdameiri stéttum og menningarlegu forræði (cultural hegemony). Meðal annars verður fjallað um tengsl fagstétta við valdaelítur og myndun íslenska ríkisvaldsins; hlutverk menntunar í samkeppni um félags- og efnahagslega stöðu; hugmyndir um Íslendinga sem stéttlausa þjóð; og hvernig ósýnilegt gildismat, óskilgreindar venjur og ósegjanlegar reglur ráða ferðinni í íslenskri pólitík og stjórnsýslu.

Sjónarhornið er þverfaglegt og þátttakendur koma úr ólíkum áttum, þ.e. félagsfræði, sagnfræði, mannfræði og menntunarfræði.

Auk hefðbundinna erinda er málstofan einnig með pallborðsumræður, í lok málstofunnar, um gildi hugtaksins „menningarlegt forræði“ í greiningu á íslensku samfélagi. Þátttakendur á pallborði eru Arndís Bergsdóttir safnafræðingur, Guðmundur Heiðar Frímansson heimspekingur, Guðmundur Ævar Oddson félagsfræðingur og stjórnandi Lars Gunnar Lundsten fjölmiðlafræðingur.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Fyrri hluti málstofu

kl. 13:00 til 14:45

Stéttarmyndun, ríkisvald og íslenskir lögfræðingar, 1890-1940

Í stjórnmálaumræðu í upphafi tuttugustu aldar var sú gagnrýni áberandi að Íslandi væri stjórnað af samheldinni lögfræðielítu sem sæti að hálaunuðum embættum á sviðum stjórnmála, stjórnsýslu og dómstóla. Í þessu erindi verður fjallað um þróun lögfræðistéttarinnar á Íslandi með áherslu á tengsl stéttar­þróunarinnar við myndun íslenska ríkisvaldsins á áratugunum í kjölfar heimastjórnar árið 1904. Spurt verður hvort skoða megi lögfræðistéttina á tímabilinu sem aðgreinda valdaelítu og rýnt í helstu einkenni hennar. Aðferðin er blönduð og samanstendur af lýsandi tölfræði, tengslagreiningu og orðræðugreiningu. Gerð verður grein fyrir fjölda útskrifaðra lögfræðinga á tímabilinu, félagslegum bakgrunni þeirra og störfum að útskrift lokinni. Einnig verður rýnt í fjölda lögfræðinga sem tóku sæti á Alþingi og störfuðu innan stjórnsýslunnar og hann borinn saman við sambærilegar fagstéttir. Jafnframt verður framkvæmd greining á ættar- og stjórnmálatengslum þeirra. Orðræðugreiningu verður svo beitt á umfjöllun um lögfræðistéttina eins og hún birtist í alþingistíðindum, blöðum og tímaritum, og málgögnum fagstéttarinnar. Helstu niðurstöður eru þær að lögfræðistéttin uppfyllti að miklu leyti viðmið um elítuhópa. Lögfræðingar voru flestir synir embættismanna og tóku sjálfir við embættum að námi loknu. Stéttin fór ört vaxandi og samkeppni við aðrar fagstéttir um veraldleg embætti var lítil sem engin. Jafnframt tóku þeir fljótlega við af guðfræðingum sem fjölmennasta fagstéttin á Alþingi. Innbyrðis tengsl lögfræðinga voru töluverð, þeir höfðu mótandi áhrif á hægri væng stjórnmálanna, og áhrif þeirra á ríkisvaldið voru svo mikil að mörgum fannst nóg um

Sveinn Máni Jóhannesson og Hildur Fjóla Antonsdóttir

Gildi, val og foreldrastarf erlendra þverþjóðlegra efristéttarmæðra (expadriates) í íslensku menntakerfi

Þetta erindi er byggt á rannsóknargögnum úr rannsókninni Virkni, val og skyldur foreldra á menntavettvangi. Meginniðurstöður þessa erindis byggja á eigindlegum viðtölum við hvítar mæður af erlendum uppruna sem búa við ríkulegan efnahagsauð og þverþjóðlegan hreyfanleika. Þetta er eigindleg viðtalsrannsókn sem nær yfir þrjú svið foreldravirkni, þ.e. skólaval, samskipti við skóla/kennara og vinna við heimanám. Greina mátti þrjár mismunandi drifkrafta í menntagildum mæðranna; að velja menntakerfi a) sem skapaði barninu sterka stöðu í samanburði við önnur börn, b) sem lagaði sig að sérþörfum barns sem teldist með frávik, c) sem skapaði börnum upplifanir og menningarleg verðmæti. Allar mæðurnar völdu skóla í því hverfi sem þær bjuggu, þar af ein í einkareknum skóla. Þær voru ánægðar með hversu inngildandi íslenskir skólar væru og ekki eins staðlaðir og prófmiðaðir eins og víðast annars staðar. Það sem þeim fannst skorta í íslenskri námskrá og kennslu bættu þær upp með efni frá heimalandi sínu eða með því að kaupa einkakennslu fyrir börnin sín. Þær eyddu mjög miklum tíma í skólun barna sinna og hefðu flestar viljað fá að taka meiri þátt í skólastarfi barnanna, en þær skynjuðu að foreldramenningin í skólanum gerði ekki ráð fyrir því. Niðurstöður eru settar í víðara fræðilegt samhengi og velt er fyrir sér hvernig þessi hópur nær að tengjast og nýta stéttarstöðu sína inn í íslensku skólakerfi.

Berglind Rós Magnúsdóttir og Angela Marie Shapow

Að ómerkja stéttaskiptingu á Íslandi

Íslensku þjóðfélagi hefur lengi verið lýst sem stéttlausu í almennri umræðu og á vettvangi stjórnmálanna. Þessi umræða endurspeglar og mótar sjálfsögð sannindi um tiltölulegt stéttleysi Íslands. Sem kapítalískt þjóðfélag með ójafna eigna­skiptingu og annars konar stéttbundinn ójöfnuð er Ísland hinsvegar alls ekki stéttlaust. Erindið varpar ljósi á þessa mótsögn og byggir á eigindlegri greiningu stéttaorðræðu í Morgunblaðinu (N=500) og umræðum á Alþingi (N=135) á árunum 1986 til 2012. Við túlkun niðurstaðna er stuðst við kenningu félagsfræðingsins Wayne Brekhus um félagslega merkingu (e. social markedness) sem vísar til þess hvernig fólk leggur áherslu á aðra hlið andstæðna en hunsar hina sem þekkingarfræðilega ómerkilega. Niðurstöðurnar sýna að Íslendingar eru gjarnir að merkja (e. mark) aðrar samfélagsgerðir sem stéttskiptar en líta framhjá stéttaskiptingu eigin samtíma­þjóðfélags sem ómarkverðri (e. unremarkable). Samfélags­gerðirnar sem um ræðir eru önnur samtímaþjóðfélög, Ísland fortíðar og framtíðar og ímyndaðar samfélagsgerðir. Þetta félagslega ferli ómerkir (e. unmarks) stéttaskiptingu á Íslandi og viðheldur þar með hugmyndum um stéttleysi Íslands. Niður­stöðurnar sýna hvernig stéttavitund er að hluta félagsleg sköpun sem byggir á samanburði.

Guðmundur Oddsson

Seinni hluti málstofu

kl. 15:00 til 16:45

Forræði þess að vera hvítur – Upplifun íslenskra kvenna sem eiga ættir að rekja til Mið-Austurlanda

Á síðustu árum hefur fræðafólk rannsakað hugmyndir um sakleysi Norðurlandanna á heimsvalda- og nýlendutímanum en almennt er oft lítið gert úr þátttöku þeirra eða þeim gróða sem þau hlutu beint eða óbeint af nýlendukapphlaupinu. Þessar hugmyndir um sakleysi eiga þátt í að móta kynþáttahugmyndir á Norðurlöndunum og ýta undir að lítið sé gert úr kynþáttafordómum sem þar finnast í dag. Að sama skapi hefur verið bent á hvernig hvítleiki hefur orðið fyrirframgefinn sem tákn og einkenni þessara landa. Þannig er íslenskt þjóðerni oft beintengt hvítleika og ákveðnum uppruna í hugum Íslendinga. Í okkar fyrirlestri fjöllum við um forræði hvítleikans á Íslandi út frá reynslu íslenskra kvenna sem eiga annað foreldri eða bæði frá Mið-Austurlöndum. Fyrirlesturinn byggjum við á rannsókn sem sýnir fram á margþætta fordóma sem þessir einstaklingar verða fyrir. Þar fléttast saman kynja- og kynþáttafordómar, sem og svokallaðir nýir kynþáttafordómar (e. neo-racism) þar sem trúarbrögð hafa orðið tákn fyrir óæðri stöðu í stað kynþáttar. Erlend nöfn kvennanna og útlit vekja hugmyndir um framandleika í hugum samlanda þeirra og engu breytir þó íslenska sé þeirra fyrsta mál og þær skilgreini sig sjálfar sem Íslendinga. Þar af leiðir að reynsla kvennanna skarast á ákveðinn hátt, þær eru einhvers staðar á milli þess að tilheyra hér og tilheyra ekki – og spurningin vaknar, hver getur talist Íslendingur í augum samfélagsins?

Miriam Petra Ómarsdóttir Awad og Kristín Loftsdóttir

Lykilorð: fordómar, erlendur uppruni, þjóðerni

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 13:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 16:45
  • Zoom meeting id: 635 6593 2134
Höfundar erinda
Nýdoktor / Post doc
Annað / Other
MA/MS nemi / MA/MSc student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Nýdoktor / Post doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 13:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 16:45
  • Zoom meeting id: 635 6593 2134