Tónlistarþátttaka sem leið til að efla ungar barnafjölskyldur á Íslandi

Málstofustjóri: Helga Rut Guðmundsdóttir

Málstofa um aðferðir tónlistarþátttöku með barnafjölskyldum. Fjallað verður um gildi þess að stuðla að iðkun tónlistar innan fjölskyldna og notkun tónlistar til þess að efla tengls foreldra og barna. Rætt verður um gildi tónlistar í uppeldi barna frá degi til dags en einnig um hlutverk tónlistariðkunar til að efla samkennd, málvitund og menningu jaðarhópa.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Upplifun og mat foreldra á þátttöku í tónlistarnámskeiði fyrir ungbörn

Í þessum fyrirlestri verða kynntar niðurstöður rannsóknar sem gerð var meðal foreldra ungbarna að lokinni þátttöku í tónlistarnámskeiði sem sniðið var að þörfum 8-9-mánaða gamalla barna. Markmiðið var að komast að því hver væri upplifun foreldra af þátttöku í tónlistarnámskeiði með svo ung börn og hvernig foreldrarnir mætu gildi þess og áhrif á börnin. Rannsóknin fór fram þegar tónlistarnámskeiðið hafði staðið í 5 vikur og foreldrar mætt með börn sín tvisvar í viku, alls í tíu skipti. Foreldrarnir (N = 32) skráðu sig til þátttöku í rannsóknarverkefni þar sem fylgst var með hegðan ungbarnanna í tímum sem voru teknir upp á myndskeið með leyfi þátttakenda. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að áhrif þátttöku í tónlistarnámskeiðinu hafi haft meiri áhrif á börnin en foreldrarnir höfðu búist við. Áhrifanna gætti í viðbrögðum barnanna við tónlist í tónlistartímunum en þó enn frekar utan tónlistar­tímanna. Margar vísbendingar voru í svörum foreldra um að námskeiðið auðveldaði þeim að nýta tónlist á jákvæðan hátt í daglegu uppeldi barna sinna og að það hafi ekki síður verið foreldrarnir sem lærðu á námskeiðunum en börnin. Í fyrirlestrinum verða sýnd brot úr myndskeiðum sem sýna þátttöku ungbarnanna og samspil foreldra og barna á slíkum námskeiðum. Rætt verður um fjölþætt gildi þess að vinna með tónlist á þennan hátt með foreldrum og börnum.

Helga Rut Guðmundsdóttir

Lykilorð: fjölskyldur, menning, tónlist

Tónlistarstundir fyrir fjölskyldur af pólskum uppruna

Greint verður frá nýju rannsóknarverkefni þar sem rýnt er í áhrif þess á pólskar barnafjölskyldur á Íslandi að taka þátt í tónlistarstundum á pólsku og samanburð við svipað verkefni í Bandaríkjunum þar sem vinsælar fjölskyldu-tónlistarstundir voru þýddar yfir á spænsku fyrir tvítyngdar fjölskyldur í New York. Í báðum löndum hafa tónlistarstundir fyrir fjölskyldur með börn á forskólaaldri verið vinsælar en nýlunda að boðið sé upp á slíkt á tungumáli minnihlutahóps. Markmið verkefnisins er að skoða hvernig tónlistarstundir með barnafjölskyldum getur stutt við sjálfsmynd og velferð þeirra sem tala annað tungumál heima en úti í samfélaginu. Sérstaklega verður litið til gildi þess að nýta tónlistarlegan menningararf pólska minnihlutahópsins á námskeiðunum á Íslandi. Sagt verður frá stöðu þekkingar á rannsóknum á notkun tónlistar sem samfélagslegs afls og tengsl við enska hugtakið ´Community music´. Aðferðir við að beita tónlist í þeim tilgangi að efla fjölskyldutengsl og menningarlega sjálfsmynd innflytjenda verða kynntar. Gagna var safnað með myndupptökum úr tónlistartímum og með djúpviðtölum við foreldra sem hafa tekið þátt með sínum börnum. Frum­niðurstöður verkefnisins eru þær að mikil þörf sé fyrir tónlistarstundir á pólsku fyrir pólskumælandi barnafjölskyldur á Íslandi. Til marks um það, hefur eftirspurn og þátttaka í verkefninu verið langt umfram væntingar og ekki unnt að anna eftirspurn. Í fyrirlestrinum verður vísað í viðtöl við pólska þátttakendur og nokkur myndskeið sýnd.

Adam Switala

Lykilorð: fjölskyldur, menning, tónlist

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 15:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 16:45
  • Zoom meeting id: 625 0054 7336
Höfundar erinda
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 15:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 16:45
  • Zoom meeting id: 625 0054 7336