Rannsóknir á stefnu og samkeppnishæfni

Málstofustjóri: Runólfur Smári Steinþórsson

Málstofan um Stefnu og samkeppnishæfni myndar ramma um erindi sem lýsa rannsóknum á sviði stefnumiðaðrar stjórnunar og samkeppnishæfni á Íslandi. Í þessari málstofu er áhersla lögð á að greina frá rannsóknum á stefnumiðuðu starfi innan fyrirtækja, stefnumótun hjá hinu opinbera og hvernig stefnumiðað starf tengist samkeppnishæfni á Íslandi. Málstofan er skipulögð í samstarfi við Rannsóknarmiðstöð stefnu og samkeppnishæfni við Háskóla Íslands.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

„Við viljum leysa allt með tækni“: Mótun og innleiðing stefnu hjá upplýsingatækni stjórnendum

Rannsóknin varpar ljósi á innsýn og reynslu stjórnenda á sviði upplýsingatækni af mótun og innleiðingu stefnu. Einnig var gerð rannsókn á stjórnunarstíl viðmælenda. Rann­sóknin var eigindleg með djúpviðtölum. Aðaláhersla rannsóknarinnar var á hvernig upplýsingatæknistjórnendur nálgast og sinna stefnumótun og hvernig niðurstöðurnar kallast á við fræðin um stefnumiðað starf. Stuðst var m.a. við kenningar Mintzbergs og Waters um átta nálganir í stefnu­mótun. Lýsing flestra viðmælenda kallaðist á við „regnhlífa­stefnu“ en einnig „ferlisstefnu“ og mátti finna dæmi um óskrifaða en „sameiginlega stefnu“. Þá var skoðað hvort nálgun stjórnendanna var í anda forskriftaraðferðar eða meira sjálfsprottin og þá í anda birtingaraðferðar. Nálgunin virtist frekar falla undir forskriftaraðferðina en þó mátti finna einkenni birtingaraðferðar. Innleiðing stefnu var skoðuð með hliðsjón af átta skrefum Kotters og virtist hún áskorun. Þó viðmælendurnir gerðu sér grein fyrir mikilvægi mannauðsins virtust þeir horfa frekar til tæknilegra breytinga en menningarbreytinga. Rann­sóknin á stjórnunarstíl byggði á sjálfsmati viðmælenda út frá sjálfsmatsaðferð Mintzbergs. Einnig voru lýsingar við­mælenda settar í samhengi við fræði um leiðtogahlutverkið í nýlegum kenningum um þjónandi leiðtoga, teymisleiðtoga og aðlögunarforystu. Niðurstöður sýndu að stjórnunarstíllinn er mismunandi og ekki hægt að alhæfa út frá svo fáum dæmum.

Ragnheiður Birna Björnsdóttir og Runólfur Smári Steinþórsson

Sjávarútvegsklasi Vestfjarða: Tækifæri til nýsköpunar í fámennum og dreifðum byggðum

Nýsköpun gegnir veigamiklu hlutverki í baráttunni við áskoranir framtíðarinnar og er lykilinn að samkeppnishæfni fyrirtækja og þjóða. Nýsköpun vísar ekki einungis til tækniþróunar og uppbyggingar nýrra atvinnugreina heldur er hún líka er for­senda samkeppnishæfni rótgróinna atvinnugreina. Klasa­samstarf er talið einkar árangursrík leið til að fóstra nýsköpun og stuðla að efnahagslegri velgengi svæða. Aðalmarkmið rann­sóknarinnar sem hér er greint frá var að skoða Sjávarútvegsklasa Vestfjarða út frá kenningum um samkeppnishæfni og klasa með það fyrir augum að rannsaka hvernig þær hafa verið að nýtast á jafn fámennu og dreifðu svæði eins og Vestfirðir eru. Við rannsóknina var beitt raundæmisrannsókn þar sem tekin voru  viðtöl við forsvarsmenn Sjávarútvegsklasans og var fyrirliggjandi gögnum safnað sem lýsa samfélagi og atvinnulífi á Vestfjörðum. Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að aðferðir klasafræða hafa reynst gagnlegar á svæði eins og Vestfjörðum. Það fylgja því ákveðnar áskoranir að starfrækja klasaframtak á svo fá­mennu svæði. Niðurstöðurnar leiddu líka í ljós áhugaverð dæmi um ávinning af klasasamstarfi á Vest¬fjörðum. Klasasamstarfið hefur styrkt samstarf og tengslanet fyrirtækjanna á svæðinu. Fyrirtækin hafa ráðist í ýmis samstarfsverkefni og þannig ýtt undir nýsköpun á svæðinu. Sjávarútvegsklasinn hefur alla burði til að vera blómlegur vettvangur nýsköpunar á Vestfjörðum, og klasinn hefur marga grunnþætti í sinni starfsemi sem styður við nýsköpun eins og traust, flæði upplýsinga, samstarf og tengsla­net ásamt þekkingu og reynslu af sjávarútvegi.

Arna Lára Jónsdóttir og Runólfur Smári Steinþórsson

Samkeppnishæfni hestaferðaþjónustu á Íslandi

Vöxtur ferðaþjónustu hérlendis á undanförnum árum hefur leitt til mikillar eftirspurnar eftir af­þreyingu úti í náttúrunni. Stuttar og langar hestaferðir byggja á sam­spili gesta, gestgjafa, hesta og náttúru. Samkeppni er vaxandi bæði í hestaferðaþjónustu  og við annarskonar afþreyingu. Því er mikil­vægt að huga að samkeppnishæfni greinarinnar, ekki síst í ljósi nú­ver­andi aðstæðna í ferðaþjónustu vegna COVID-19 far­ald­ursins. Í rannsókn á samkeppnishæfni hesta­ferða­­þjónustu á Íslandi var beitt blönd­uðum rann­sóknaraðferðum. Tekin voru viðtöl við rekstraraðila, vefsíður rýndar með megindlegri innihalds­greiningu ofl. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að ákveðnir lykilþættir í innra og ytra umhverfi hestaferðaþjónustu hafi afgerandi áhrif á samkeppnishæfni hennar. Tengdar at­vinnu­greinar s.s. hestamennska og ferðaþjónusta gegna veiga­miklu hlutverki. Ytra umhverfi greinarinnar felur í sér mikilvæga þætti sem lúta að opinberu umhverfi s.s. varð­andi laga- og skattalega umgjörð, menntun og rannsóknir. Auðlindir sem greinin nýtir eru einnig forsenda starf­seminnar og frekari framþróunar. Eru það t.d. íslenski hesturinn, náttúra, menning og saga, aðgengi að gras­lendi, reið­leiðum og hæfu starfsfólki. Síðast en ekki síst byggir sam­keppnishæfni greinarinnar á innri þáttum þar sem greinin og fyrirtækin innan hennar þurfa að huga að stefnumótun, sam­starfi, nýsköpun, sérhæfingu, markaðsmálum, þróun þjón­ustu og eflingu öryggismála.

Ingibjörg Sigurðardóttir

Lykilorð: stefna, nýsköpun, fagmennska

Klasar – bók um klasa

Fyrirtæki hafa mikilvægu hlutverki að gegna varðandi verð­mæta­sköpun og hagsæld í sam­fél­aginu. Til að ná árangri verða fyrirtæki að nýta sem best þær auðlindir sem eru til ráðstöfunar hverju sinni og standast sam­keppni við önnur fyrirtæki um að veita þjónustu og skila ávinn­ingi til við­skiptavina. Fyrirtækið er hins vegar ekki eyland, það er samhengi í sjálfu sér sem aftur er hluti af stærra og enn flóknara samhengi. Fyrirtæki teljast til atvinnugreina, klasa, svæðis og til ákveðinnar þjóðar. Klasar og klasatengt starf er lykilatriði því virkir klasar ýta mjög undir samkeppnishæfni svæða og þjóða.  Í þessu erindi er fókus á klasa og málefni tengd þeim.Tilefnið er ný bók með efni frá höfundi; Klasar – bók um klasa sem gefin var út af Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við Klasasetur Íslands á árinu 2020. Bókin hefur að geyma sjö greinar sem hafa birst í Ársriti um klasa á tímabilinu 2015-2019. Auk yfir­litsgreinar sem ber titilinn: Klasar og samkeppnishæfni,  er að finna sjö greinar í ritinu. Þær eru: 1) Samkeppnishæfni þjóða og milliaðilar; 2) Klasakort – verk­færi við kortlagningu klasa; 3) Klasa­fram­tök og klasamiðstöðvar sem aflvakar innan klasa; 4) Klasar, klasaframtök og klasastjórnun; 5) Stefna og samkeppnishæfni með hliðsjón af kenningum M.E. Porters; 6) Stefna – for­skrifuð, sjálfsprottin eða samtvinnuð nálgun; og 7) Spurningar um stefnu og stefnumótun fyrirtækja. Bókin, Klasar – bók um klasa, kom út í mars á árinu 2020 og hún hefur ekki verið kynnt opinberlega fyrr en nú. Í erindinu er einkum byggt á yfirlitsgrein bókarinnar.

Runólfur Smári Steinþórsson

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 13:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 14:45
  • Zoom meeting id: 661 3376 1094
Höfundar erinda
MA/MS nemi / MA/MSc student
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi / MA/MSc student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskólinn á Hólum / Hólar University College
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 13:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 14:45
  • Zoom meeting id: 661 3376 1094