Stjórnarhættir fyrirtækja – straumar og stefnur

Málstofustjóri: Þröstur Olaf Sigurjónsson

Málstofan lítur til fjögurra strauma innan stjórnarhátta fyrirtækja. Fyrsta erindið byggir á rannsókn sem miðar að því að varpa ljósi á ábyrgt eignarhald (e. responsible ownership) með notkun eigendastefnu (e. ownership strategy). Annað erindið þrengir viðfangsefnið þar sem rannsakað er hlutverk og virkni tilnefningarnefnda (e. nomination committees) sem hafa það hlutverk að tilnefna stjórn fyrirtækis. Þriðja erindið horfir út á við þar sem lýst er fræðilegri umræðu um áhrif stjórnarhátta á samruna og yfirtökur fyrirtækja. Fjórða og síðasta erindið mun varpa ljósi á samspil stjórnarhátta fyrirtækja og lögfræði.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Stjórnarhættir og eigendastefna

Nýir fræðilegir straumar innan stjórnarhátta fyrirtækja hafa þróast síðasta áratuginn í það sem kalla mætti næstu kynslóð hugmynda um virkt eignarhald; þ.e. ábyrgt eignarhald (e. responsible ownership). Þessi rannsókn miðar að því að auka við fræðilega umræðu með því að fjalla um þátt ábyrgs eignarhalds, sem enn er ekki að fullu mótað, en það er samstilling eigenda (e. collective action). Fáar rannsóknir á sviði ábyrgs eignarhalds og eigendastefnu hafa verið framkvæmdar alþjóðlega og engin á Íslandi svo vitað sé. Eigendastefna, sem hluthafar sameinast um, er kynnt sem stjórnháttartæki til samstillingar eigenda og ábyrgs eignarhalds. Enn fremur eru kynntar niðurstöður rannsóknar á eigendastefnu. Viðtöl voru tekin við hluthafa fyrirtækis, stjórnarmenn þess og stjórnendur með það að markmiði að skýra og skilgreina hugtakið eigendastefna og staðsetja innan fyrrgreindra fræða. Þá voru fundargerðir greindar og önnur gögn sem hafa með eigendastefnu fyrirtækisins að gera. Niðurstöður eru þær að eigendastefna virkar sem samtarfssáttmáli hluthafa, stuðlar að langtímaáherslu þeirra og samstillingar. Í hnotskurn má segja að eigendastefna sé grunnur fyrir það sem kallað hefur verið ábyrgt eignarhald. Sem slíkt, bendir það til nýrra strauma í rannsóknum á stjórnarháttum fyrirtækja.

Guðrún Erla Jónsdóttir og Þröstur Olaf Sigurjónsson

Lykilorð: stjórnarhættir fyrirtækja, eigendastefna, ábyrgt eignarhald

Stjórnarhættir og tilnefningarnefndir

Tilnefningarnefndir hafa á síðustu árum rutt sér til rúms innan stjórnarhátta á Íslandi. Hefur meirihluti skráðra félaga stofnað slíka nefnd. Skiptar skoðanir eru þó á ágæti nefndanna og þáttum er snúa að skipulagi þeirra. Nefndirnar starfa með mismunandi hætti á Norðurlöndunum, eru ýmist undirnefndir stjórnar eða heyra beint undir hluthafa. Erlendar rannsóknir sýna að tilnefningarnefndir geta haft jákvæð áhrif á stjórnarhætti og starf þeirra getur bætt ferlið við skipun stjórnarmanna. Tilnefningarnefndir hafa ekki verið rannsakaðar á Íslandi og markmið rannsóknarinnar er að fá innsýn í skipulag þeirra og starf. Þrettán viðtöl voru tekin við hluthafa, stjórnarmenn og tilnefningarnefndarmenn. Einnig var stuðst við niðurstöður spurningakönnunar sem framkvæmd var í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands. Alls svöruðu 138. Niðurstöður gefa til kynna að ferli við skipun stjórnarmanna á Íslandi sé faglegra ef tilnefningarnefndir eru starfandi. Þrátt fyrir það eru hluthafar ekki eins ánægðir með starf nefndanna og aðrir þátttakendur. Þá er talið farsælla að tilnefningarnefnd heyri undi hluthafa og sé kosin af þeim. Það getur verið gagnlegt að fráfarandi stjórnarmenn sitji í nefndinni en annars er ekki talið ákjósanlegt að einstaklingar sitji í stjórn og tilnefningarnefnd sama félags. Rannsóknin styður við helstu niðurstöður alþjóðlegrar rannsókna.

Hildur Magnúsdóttir og Þröstur Olaf Sigurjónsson

Lykilorð: stjórnarhættir fyrirtækja, tilnefningarnefndir, stjórnir

Stjórnarhættir og samrunar og yfirtökur fyrirtækja

Markmið þessa erindis er að greina frá samrunum og yfirtökum (S&Y) út frá áhrifum á stjórnarhætti fyrirtækja. Rannsóknum ber saman um að oft njóta hluthafar fyrirtækis góðs af S&Y í formi aukins hagnaðar. Enn fremur virðast aðgerðir í kjölfar S&Y, eins og breytingar á stofnskrá, ekki draga úr hagsmunum hluthafa. Þó er þekkt að stjórnendur geta haft persónulegan óhag af S&Y og reynt að koma í veg fyrir slíkt með mögulegum skaða fyrir hluthafa. Möguleiki til „óvinveittra S&Y“ virðist þá vera eitt sterkasta stjórntækið til aðhalds stjórnendum.  Rannsóknir sýna að lög gegn yfirtökum hafa ekki bein áhrif á nýsköpun. Óvinveittar yfirtökur geta jafnvel verið hagstæðar nýsköpun. Enn fremur geta stjórnarhættir virkað sem staðgengill, það er ef engin hætta stafar af óvinveittum yfirtökum. Stjórnarhættir virðast hafa áhrif á líkur á S&Y. Þegar stjórnarskipulag er umfangslítið og veikt geta óvinveittar yfirtökur verið notaðar til að skipta stjórnendum út. Samkvæmt rannsóknum framkvæmdum í Bandaríkjunum virðast varnir gegn yfirtöku hafa neikvæð áhrif á rekstrarafkomu fyrirtækja. Aftur á móti virðist það ekki eiga við um Evrópu og Norðurlöndin, þar sem talað er um að áhrifin þar séu annað hvort jákvæð eða engin.

Arnrún Sæby Þórarinsdóttir og Þröstur Olaf Sigurjónsson

Lykilorð: stjórnarhættir fyrirtækja, samrunar, yfirtökur

Stjórnarhættir og lögfræðilegt sjónarhorn

Í þessu erindi er markmið að greina hugtakið stjórnarhættir fyrirtækja frá lögfræðilegu sjónarhorni. Til þess er stuðst við lög og reglur ásamt greiningu á fræðilegum heimildum. Almennt er hugtakið ekki skilgreint í lögum og geta útfærslur því verið margar og misjafnar. Fræðimenn á sviði lögfræði sem skrifað hafa um stjórnarhætti fyrirtækja hafa því reynt að skilgreina hugtakið út frá landssvæðum fremur en að reyna að setja fram eina skilgreiningu. Þessi rannsókn greinir einkenni landssvæða út frá norrænum stjórnarháttum og helstu álitaefni frá lögfræðilegu sjónarhorni. Önnur ríki og svæði eru skoðuð til samanburðar, helst þau ríki sem aðhyllast fordæmisrétt og þau sem aðhyllast meginlandsrétt. Með aukinni áherslu á alþjóðaviðskipti komu fram hugmyndir og kenningarnar um samræmingu regluverks varðandi stjórnarhætti fyrirtækja milli landa. Þessar hugmyndir komu fyrst fram á níunda áratugnum og því er rétt að skilja hvaða stöðu lög og reglur hafa í þessu samhengi og hvernig samræmingu reglna hefur undið fram. Niðurstöður gefa til kynna að þrátt fyrir að ólík lög og reglur gildi varðandi stjórnarhætti fyrirtækja milli svæða er þróunin sú að samruni þeirra er yfirvofandi.

Sigmundur Ingi Sigurðsson og Þröstur Olaf Sigurjónsson

Lykilorð: stjórnarhættir fyrirtækja, lögfræði

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 11:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 12:45
  • Zoom meeting id: 689 2534 6950
Höfundar erinda
MA/MS nemi / MA/MSc student
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi / MA/MSc student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi / MA/MSc student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 11:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 12:45
  • Zoom meeting id: 689 2534 6950