Menntun er skemmtun

Málstofustjóri: Jakob Frímann Þorsteinsson

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Hvernig skemmtilegt og hrifnæmt nám leggur grunn að alvöru menntun- Ígrundun um þróun  útimenntunar á háskólastigi

Nám í háskóla hefur verið gagnrýnt fyrir að mennta hugann en gefa minni gaum að tilfinningum og að virkja nemendur í námi. Útimenntun hefur verið liður í námi í tómstunda- og félagsmálfræði frá upphafi og hún nýtt til að styðja nemendur í að læra um sjálfan sig, tengsl sín við aðra og náttúruna. Rannsóknir á náminu benda til þess að það efli vitund um samfélagslega ábyrgð og sjálfsbærni mun meira en almennt gerist innan Háskóla Íslands. Í erindinu verður stuðst við myndbanda-dagbækur sem höfundur hefur haldið síðustu ár, sem varpa ljósi á hvernig útimenntun birtist í nokkrum námskeiðum. Fjallað verður um þætti sem reynst hafa mikilvægir við framkvæmd útimenntunar eins og að skapa tóm til að vera, rækta leikgleði, nýta þær upplifanir og aðstæður sem skapast, vinna reynslumiðað og skapa andrúmsloft sem styður nemendur við að stíga fram. Gott skipulag náms er mikilvægt en gæta þarf að því að gefa rými fyrir kaos og taka fagnandi ýmsu því veseni sem fylgir því að vera úti. Námsbrautin stefnir á að þróa útimenntun frekar innan Háskóla Íslands og erindið er liður í þeirri viðleitni.

Jakob Frímann Þorsteinsson

Sýn reyndra starfsmanna í opnu æskulýðsstarfi á fræðilegan bakgrunn starfseminnar

Í þessu erindi leitar höfundur svara við þeirri spurningu hver sé sýn reyndra starfsmanna í opnu æskulýðsstarfi (félagsmiðstöðva) á fræðilegum bakgrunni starfseminnar. Rannsóknin er hluti af doktorsrannsókn höfundar og byggir á eigindlegu rannsóknarsniði. Um er að ræða tilviksrannsókn þar sem fræðilegur bakgrunnur starfseminnar og þær hugmyndir sem þar liggja að baki eru kannaðar. Rannsóknin byggir tólf djúpviðtölum við reynda starfsmenn (minnst tíu ára starfsreynsla) sem auk þess gegna áhrifastöðum á vettvangi.

Viðmælendur eru allir með háskólamenntun á sviði tómstunda- og félagsmálafræða, leikskólafræða eða kennaramenntunar.

Niðurstöður  eru þær að viðkomandi deila að mestu leyti sameiginlegri sýn á starfsemina hvað markmið, innihald og starfsaðferðir varðar. Sýn þessara starfsmanna á fræðilegum bakgrunni starfseminnar er hins vegar ólík. Tómstunda- og félagsmálfræðingar nefna gjarnan kenningar G.H. Mead um hið félagslega sjálf og táknbundin samskipti auk kenninga um hópa og þróun þeirra. Leikskólakennarar nefna þroskakenningar Piaget. Kennarar nefna kenningar  Dewey um reynslunám.   Þær kenningar bar á góma í öllum viðtölum óháð menntun en  af mismunandi þunga. Helstu niðurstöður eru að þeir viðmælendur sem ekki hafa menntun á sviði tómstunda- og félagsmálafræða tileinka sér kjarna viðkomandi menntunar, yfirfæra þá þekkingu og nýta í æskulýðsstarfinu. Sýnin mótast af mismunandi menntun, þó með þeim fyrirvara að kenningar Deweys eru ákveðin samnefnari.

Árni Guðmundsson

Nemendur í tómstunda- og félagsmálafræði: Vettvangsnám á tímum heimsfaraldurs

Í þessu erindi verður gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar sem gerð var meðal nemenda í tómstunda-og félagsmálafræði.  Í erindinu er gerð grein fyrir upplifun nemenda í tómstunda- og félagsmálafræði af vettvangsnámi á tímum heimsfaraldurs. Við skipulagningu á vettvangsnámi nemenda vorið 2021 þurfti að bjóða upp á mismunandi lengd vettvangsnámstímabils, val á vettvangsstað og síðan önnur verkefni sem komu í staðinn fyrir vettvangsnám þar sem því var ekki við komið vegna aðstæðna nemenda.
Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á upplifun nemenda á þeim breyttu aðstæðum sem þeir stóðu frammi fyrir í vettvangsnámi sínu vegna heimsfaraldurs.
Nemendum sem stunduðu nám á öðru ári í tómstunda- og félagsmálafræði vorið 2021 var send rafræn könnun (Survey Monkey),  sem hægt var að svara á netinu. Úrtakið var 20 nemendur. Í könnuninni var, m.a.  spurt hvort viðkomandi hefði þurft að breyta áætlunum sínum og hversu mikil áhrif þessar breytingar hefðu haft á skipulag námsins og upplifun nemenda af vettvangsnáminu.

Niðurstöðurnar benda, m.a. til að nemendur, kennarar, verkefnisstjóri og leiðbeinendur á vettvangi hafi þurft að sýna mikinn sveigjanleika þegar kom að skipulagningu vettvangsnámsins og að ófyrirséðar breytingar með skömmum fyrirvara hafi valdið nemendum nokkru óöryggi.
Niðurstöðurnar verða nýttar til þróunar á vettvangsnámi nema í tómstunda- og félagsmálafræði.

Steingerður Kristjánsdóttir

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    29/10, 2021 09:00
  • Málstofu lýkur
    29/10, 2021 10:45
Höfundar erinda
Aðjúnkt / Adjunct lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Aðjúnkt / Adjunct lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    29/10, 2021 09:00
  • Málstofu lýkur
    29/10, 2021 10:45