Opinber stefnumótun í efnahagsmálum

Málstofustjóri: Ágúst Arnórsson

Fjallað verður um hvernig greiningartæki hagfræðinnar geta nýst við opinbera stefnumótun.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Viðhorf til virkjana – mat á umhverfisgæðum við Urriðafoss

Urriðafossvirkjun er neðsti virkjanakosturinn í Þjórsá og var til umfjöllunar í fjórða áfanga rammaáætlunar. Frá sjónarhorni rekstraraðila er orkuvinnsla í Urriðafossi hagkvæm, samanborið við aðrar vatnsaflsvirkjanir; en þá er ekki tekið tillit til umhverfisáhrifa. Þau eru yfirleitt ekki sett fram í sömu einingum og aðrir arðsemisþættir.

Urriðafoss er vatnsmesti foss landsins og skert rennsli í kjölfar virkjunar myndi breyta ásýnd hans svo um munar. Virkjunin hefur einnig áhrif á flóru og fánu auk göngu laxa í Þjórsá. Laxastofn árinnar er einn sá stærsti á landinu og erfðafræðilega frábrugðinn öðrum stofnum á Íslandi.

Til að þessir þættir njóti sammælis í arðsemismati er nauðsynlegt að meta umhverfisáhrifin til fjár. Þar sem undirliggjandi gæði ganga ekki kaupum og sölu á markaði, og bera þar af leiðandi ekki markaðsverð, er notast við aðferðir yfirlýsts vals (e. stated preferences). Þessar aðferðir líkja eftir aðstæðum á markaði; hér með spurningakönnun. Þátttakendum voru kynntar helstu niðurstöður faghópa rammaáætlunar varðandi áhrif virkjunarinnar en einnig hvaða rekstrarforsendur geta talist virkjuninni til tekna. Að því yfirstöðnu voru þeir beðnir um að taka afstöðu til mögulegra virkjanaframkvæmda og koma á framfæri hvaða fyrirkomulag þeim hugnast best við orkuframleiðslu. Niðurstöðurnar gefa til kynna að kostnaður við virkjunina aukist um rúm 60% ef virði umhverfisáhrifa eru tekin með í reikninginn.

Ágúst Arnórsson og Kristín Eiríksdóttir

Lykilorð: virkjanir, umhverfisgæði, hagrænt umhverfismat

Má koma á virkri samkeppni á rafmagnsmarkaði?

Ekki eru margir áratugir síðan opnað var fyrir samkeppni í nokkrum atvinnugreinum, þar sem opinber fyrirtæki voru áður einkasalar. Þar á meðal eru sími, útvarp og sjónvarp og rafmagnsframleiðsla. Samkeppni er mislífleg á þessum mörkuðum. Sennilega er hún minnst á markaði með rafmagn. Nokkrir rafmagnssalar keppa um hylli neytenda í smásölu, en minna fer fyrir samkeppni á heildsölumarkaði með rafmagn, enda er þar aðeins einn seljandi, sem eitthvað kveður að. Fyrir nokkrum árum, þegar hætta var talin á skorti á almennum rafmagnsmarkaði hér á landi vegna ásóknar bitcoin-grafara, hreyfðist rafmagnsverð lítið. Verðið breyttist ekki heldur mikið árið 2020 þegar einn stærsti rafmagnskaupandinn dró úr kaupum sínum og íhugaði að hætta alveg starfsemi. Verðbreytingar á íslenskum rafmagnsmarkaði verða bornar saman við sveiflur í grannlöndum. Rætt verður um ástæður þess að verð hreyfist lítið á íslenskum rafmagnsmarkaði og skoðað hvaða afleiðingar það getur haft að verð bregðist ekki við sveiflum í eftirspurn. Sú hugmynd verður síðan reifuð að skipta stærsta rafmagnsframleiðandanum í nokkur fyrirtæki, til þess að freista þess að koma á virkri samkeppni á heildsölumarkaði. Farið verður yfir hvaða áhrif þetta gæti haft á markaðinn og hvernig útfæra má hugmyndina þannig að samningsstaða landsmanna gagnvart stórkaupendum veikist ekki.

Sigurður Jóhannesson

Lykilorð: ríkisrekstur, samkeppni, velferð

Hagnýting Markov líkana

Markov líkön eru hornsteinn margra líkindafræðilegra líkana. Í sinni einföldustu mynd lýsa þau hreyfimynstri stærða í tíma þannig að framtíðin er einungis fall af takmarkaðri fortíð. Rakin eru grunnhugtök Markov-keðja í strjálum og samfelldum tíma. Einfalt dæmi um myndun tekjudreifinga er rakið og sýnt hvernig einfalt líkan þar sem eina óvissa stærðin er ævilengd og allar tekjur eru fjármagnstekjur með föstum vöxtum leiðir til þess að jafnvægis tekjudreifing er Pareto dreifing. Einnig hvernig með svipuðu rökrænu ferli má meta væntanlega lengd farsóttar í sóttkví. Í samfelldum tíma byggir stærðfræðilega nálgunin á fræðinni um virkja (operator-theory). Minnst verður lauslega á notkun virkjafræði í hagrannsóknum. Byggt er á kennslubók í líkindafræði eftir Whittle (1992).

Helgi Tómasson

Lykilorð: Markov líkan, samfelldur tími, jafnvægisdreifing

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    29/10, 2021 15:00
  • Málstofu lýkur
    29/10, 2021 16:45
Höfundar erinda
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur / Specialist
Háskóli Íslands / University of Iceland
Verkefnisstjóri / Project manager
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    29/10, 2021 15:00
  • Málstofu lýkur
    29/10, 2021 16:45