Byggðafræði II: Menntun og rannsóknir í landsbyggðunum

Málstofustjóri: Þóroddur Bjarnason

Menntastofnanir gegna mikilvægu hlutverki uppbyggingu fjölbreytts nútímasamfélags um land allt. Auk þess að veita heimafólki tækifæri til menntunar og skapa störf fyrir menntað fólk í heimabyggð gegna menntstofnanir mikilvægu hlutverki í þekkingarsköpun og yfirfærslu þekkingar fyrir staðbundin viðfangsefni. Í þessari málstofu verður fjallað um margvísleg tengsl menntastofnana og nærsamfélaga landsbyggðanna með áherslu á hlutverk þeirra í byggðafestu og byggðaþróun.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Skólaþjónusta og stuðningur við skólastarf á landsbyggðunum – áskoranir í dreifbýli

Í erindinu verður fjallað um nýlega rannsókn um umgjörð og starfshætti skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla en þar var dregin upp heildarmynd af því hvernig sveitarfélög standa að lögbundinni skólaþjónustu. Slík rannsókn hefur ekki áður verið gerð á Íslandi. Gögnum var safnað með 1) spurningakönnun sem send var til skólastjóra leik- og grunnskóla og forsvarsaðila skólaþjónustunnar í 72 sveitarfélögum á Íslandi, 2) viðtölum við forsvarsaðila skólaþjónustunnar í fimm völdum tilvikum og 3) greiningu á helstu stefnuskjölum um skólaþjónustuna sem birt eru á vef sveitarfélaga. Í málstofunni verða kynntar niðurstöður er varða framtíðarhlutverk skólaþjónustu og hvort breytinga sé þörf á núverandi skipulagi hennar, hvers konar ytra skipulag hentar skólaþjónustunni og hvernig fámenn sveitarfélög geta staðið undir lögbundinni skólaþjónustu.

Niðurstöðurnar verða skoðaðar í því ljósi að sveitarfélög eru misvel í stakk búin að uppfylla lagalegar skyldur sínar um skólaþjónustu. Í niðurstöðunum kemur fram sterk krafa um að líta á skólaþjónustu sem hluta af víðtækari þjónustu sem sveitarfélög eiga að veita og samþætta þannig skólaþjónustu við önnur þjónustukerfi í nærumhverfi skólanna. Rætt verður um hvar skórinn kreppir í skólaþjónustu á landsbyggðinni; uppfyllir skólaþjónustan alls staðar það hlutverk sitt að efla skóla sem faglegar stofnanir, styrkja menntun fyrir alla og stuðla að jafnræði til náms á landsvísu?

Rannsóknin var styrkt af Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri og mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Hermína Gunnþórsdóttir (flytjandi), Birna María Svanbjörnsdóttir, Jórunn Elídóttir, Rúnar Sigþórsson, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Trausti Þorsteinsson

Lykilorð: skólaþjónusta, dreifbýli, landsbyggðir

Staða og hlutverk skólasamfélags við gerð samfélagsáætlana í brothættri byggð

Í fyrirlestrinum verður fjallað um verkefnið „Staða og hlutverk skólasamfélags við gerð samfélagsáætlana í brothættri byggð“ en það var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2020.  Meginmarkmið verkefnisins var að kanna aðkomu skólasamfélaga í brothættum byggðum við mótun og gerð samfélagsáætlana en við gerð þeirra er lögð áhersla á víðtækt íbúasamráð.

Verkefnið fól í sér öflun, greiningu og túlkun opinberra gagna er tengjast gerð samfélagsáætlana í brothættum byggðum og var ríkjandi orðræða greind með því að beita sögulegri orðræðugreiningu. Beiting slíkrar aðferðafræði er hentug þegar rýnt er í opinber skjöl og stefnumótunargögn þar sem markmiðið er að greina þá orðræðu sem fests hefur í sessi og hefur þannig áhrif á val aðgerða sem finna má í áætlunum samfélaganna og samþykkt hafa verið á íbúaþingum. Við greiningu og túlkun gagna vann leiðbeinandi náið með nemanum sem til verksins var ráðinn.

Valin voru tvö byggðalög; Skaftárhreppur, sem lokið hefur þátttöku sinni í verkefninu Brothættar byggðir og Þingeyri, sem enn er þátttakandi í því verkefni.

Megin niðurstaða greiningarvinnunnar var að orðræða um fólksfækkun og nauðsyn þess að fjölga ungu fjölskyldufólki ásamt orðræðunni um sérstöðu samfélaganna á sviði náttúru, menningar og sögu eru ríkjandi og miðar val aðgerða í samfélagsáætlunum að þeirri orðræðu. Ekki verður séð að leitast  sé markvisst eftir skoðunum og viðhorfum skólasamfélagsins, þ.e. barna og ungmenna um framtíðarskipulag samfélagsins.

Anna Guðrún Edvardsdóttir

Lykilorð: skólasamfélög, samfélagsáætlanir, brothættar byggðir

Áhrif háskólamenntunar á búferlaflutninga

Tækifæri til háskólamenntunar eru mikilvægur áhrifaþáttur búferlaflutninga hér á landi líkt og annars staðar á Vesturlöndum. Uppbygging svæðisbundinna háskólastofnana og síðar uppbygging fjarnáms hafa því verið snar þáttur í byggðastefnu margra landa. Á sama tíma eru mörg störf sem krefjast háskólamenntunar staðsett í borgum og tækifæri háskólafólks til að finna störf við hæfi í dreifðari byggðum því oft takmörkuð.  Enn fremur oft reynst erfitt að manna stöður sem krefjast háskólamenntunar í dreifðari byggðum og starfsmannaskipti í slíkum stöðum oft mikil. Í þessu erindi verður byggt á opinberum gögnum og niðurstöðum spurningakannana til að meta áhrif háskólamenntunar á búferlaflutninga á Íslandi. Sérstaklega verður lagt mat á áhrif staðsetningar háskóla og aðgengis að fjarnámi á búsetuval fólks sem ólst upp í dreifðari byggðum. Jafnframt verða metin áhrif nálægðar við fjölbreyttari vinnumarkaði höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar á aðflutning háskólamenntaðs fólks, bæði þeirra sem ólust upp á viðkomandi svæðum en fluttu á brott til að afla sér menntunar og hinna ólust upp annars staðar en fluttu þangað á fullorðinsárum.

Þóroddur Bjarnason

Lykilorð: háskólamenntun, landsbyggðir, búferlaflutningar

Um barnafræðslu og barnakennara við Húnaflóa 1887–1905

Óútgefnar skýrslur sveitakennara veita dýrmætar upplýsingar um bæði þau sem kenndu og ungmennin er nutu formlegrar fræðslu fyrir setningu fræðslulaganna 1907. Markmið rannsóknarinnar er að afla upplýsinga um þessa tvo hópa og greina félagslega stöðu þeirra eftir því sem kostur er.Meðal niðurstaðna er að Strandasýsla og Húnavatnssýsla voru vel undir landsmeðaltali hvað skólasókn varðar. Minnst var hún norðan Steingrímsfjarðar, austan Hrútafjarðar og í ytri hluta Vindhælishrepps á Skaga. Allmikill munur var á milli sókna og/eða hreppa. Börn og systkini húsbænda voru 71% heildarinnar fræðsluárið 1894–1895 en fjölgaði í 78% áratug síðar. Hlutföll pilta og stúlkna voru tiltölulega jöfn og aldursbil nemenda breitt. Heimiliskennsla var ríkjandi fræðsluform og fá börn gengu til kennslu milli bæja. Nafngreindir kennarar í fyrirliggjandi gögnum eru 102 og margir þeirra eru hvorki í Kennaratali eða öðrum prentuðum gögnum um kennara. Sagt verður frá niðurstöðum um þá einstaklinga sem nefndir eru, hver aldur þeirra og undirbúningsmenntun var og leitað verður svara við því hvað þessir einstaklingar gerðu að ævistarfi sínu. Allar niðurstöður eru kyngreindar og leitast er við að greina sam- og sérkenni með kennurum við Húnaflóa og kollegum þeirra annars staðar.

Bragi Guðmundsson

Lykilorð: barnafræðsla, sveitakennsla, sveitakennarar

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    29/10, 2021 13:00
  • Málstofu lýkur
    29/10, 2021 14:45
Höfundar erinda
Prófessor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Fræðimaður
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Lektor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Fræðimaður
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Dósent
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Fræðimaður
Háskólinn á Hólum / Hólar University
Prófessor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Dósent / Senior Lecturer
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Prófessor / Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    29/10, 2021 13:00
  • Málstofu lýkur
    29/10, 2021 14:45