Loftslagsváin: Nauðsyn lagasetningar og hlutverk almennings og dómstóla við stefnumörkun og eftirfylgni

Málstofustjóri: Karl Axelsson

Í kjölfar útgáfu nýrrar skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sl. sumar er mál manna að enginn vafi leiki á því að athafnir mannsins eru meginþátturin í neikvæðri þróun loftslagsmála. Vegna þessa er ljóst að grípa verður til einbeittari og hnitmiðaðri aðgerða en áður og tryggja að þeim sé fylgt eftir til þess að árangur sem stjórnvöld stefna að verði að veruleika. Í ljósi framangreinds verður á málstofunni fjallað um þrjú álitamál í jafnmörgum erindum á sviði lögfræði sem öll hafa þýðingu í lýðræðslegri umræðu um loftslagsvánna og aðgerðir til þess að stemma stigu við henni.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Er eignarrétturinn fyrirstaða þegar kemur að loftslagsmálum?

Fjallað verður um um svigrúm löggjafans til þess að setja lög á sviði loftslagsmála sem fela í sér takmarkanir á stjórnarskrárvörðum réttindum, þ.m.t. eignarréttindum og atvinnufrelsi, í þágu langtímahagsmuna almennings og komandi kynslóða. Þegar gripið er til íþyngjandi aðgerða á sviði loftslagsmála kunna framangreind stjórnarskrárvarin réttindi að skerðast eða takmarkast að öðru leyti. Þá vaknar sú spurning hvort og á hvaða forsendum handhafar réttindanna geti krafist skaðabóta vegna skerðingar eða takmarkana á framangreindum réttindum. Viðfangsefnið verður m.a. skoðað í ljósi Aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum og dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands, auk þess sem höfð verður hliðsjón af úrlausnum Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá verður vikið að hugmyndafræðinni að baki eignarrétti og fanga m.a. leitað í réttarheimspeki og siðfræði með það að markmiði að svara því hver tilgangurinn hafi verið með eignarrétti í upphafi. Geta þau sjónarmið mögulega hjálpað til við að skilja hvernig loftslagsmál og eignarréttur geta lifað saman í sátt og samlyndi?

Víðir Smári Petersen

Lykilorð: loftslagsmál, eignaréttur, atvinnufrelsi

Hlutverk dómstóla við stefnumörkun á sviði loftslagsmála

Á undanförnum árum hafa dómstólar í nokkrum ríkjum Evrópu tekið á nokkuð afgerandi hátt beinan þátt í stefnumörkun á sviði loftslagsmála. Meðal dómsmála sem vakið hafa mikla athygli er hollenska Úrgendamálið, sem fór fyrir hæstarétt Hollands 2019, og þýska KSG-málið, sem þýski stjórnlagadómstóllinn fjallaði um 2021. Í stórum dráttum var niðurstaða beggja dómstólanna sú að stefna stjórnvalda á sviði loftslagsmála skorti metnað og væri í andstöðu við grundvallarréttindi. Umrædd dómsmál verða sett í samhengi við nokkur ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og jákvæðar skyldur ríkja til þess að grípa til aðgerða á sviði umhverfismála. Jafnframt verður vikið að því álitaefni hvort mögulegt sé að gera sambærilegar kröfur og hafðar voru uppi í framangreindum málum fyrir íslenskum dómstólum. Þá verður lagt mat á hvort réttlætanlegt sé að dómstólar grípi fram fyrir hendur stjórnvalda á þessu sviði út frá sjónarmiðum um lýðræði og gæðum málsmeðferðar og stefnumótunar.

Kári Hólmar Ragnarsson

Lykilorð: loftslagsmál, dómstólar, mannréttindi

Eftirlitshlutverk almennings á sviði loftslagsmála

Árósasamningurinn tryggir almenningi þríþætt réttindi sem miða að því að vernda réttindi einstaklinga og komandi kynslóða til að lifa í ásættanlegu umhverfi. Í þessu ljósi verður vikið að eftirlitshlutverki almennings á sviði loftslagsmála með áherslu á réttindi sem almenningi eru veitt með Árósasamningnum. Sérstaklega verður fjallað um 3. mgr. 9. gr. samningsins og úrræði almennings til þess að framfylgja lögum, með áherslu löggjöf á sviði loftslagsmála, og hvort og hvernig má bregðast við aðgerðarleysi stjórnvalda. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði samningsins ber samningsaðilum að tryggja að almenningur hafi aðgang að stjórnsýslu- og dómstólameðferð til að geta krafist þess að aðgerðir og aðgerðaleysi af hálfu einstaklinga og stjórnvalda, sem ganga gegn ákvæðum landslaga um umhverfið, verði tekin fyrir. Þótt enn sé að ákveðnu marki óljóst hvernig skýra eigi ákvæðið hefur innihald þess smám saman skýrst, einkum vegna mála sem fjallað hefur verið um á vettvangi eftirfylgninefndar Árósasamningsins. Vikið verður að nokkrum þeirra mála ásamt dómaframkvæmd ESB-dómstólsins sem varða 3. mgr. 9. gr. samningsins. Ekki hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að innleiða framangreint ákvæði samningsins í íslenskan rétt.

Aðalheiður Jóhannsdóttir

Lykilorð: loftslagsmál, Árósarsamningurinn, almenningur

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    29/10, 2021 09:00
  • Málstofu lýkur
    29/10, 2021 10:45
Höfundar erinda
Dósent
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    29/10, 2021 09:00
  • Málstofu lýkur
    29/10, 2021 10:45