Lög og bókmenntir
Eiga bókmenntir heima í Lögbergi
Höfundar: Hafsteinn Þór Hauksson
Ágrip:
Snertifletir bókmennta og laga eru margvíslegir og þær rannsóknir sem stundaðar eru undir merkjum samnefndra fræða (e. law and literature) af ýmsum toga. Hluti þeirra lýtur að því að skoða birtingarmyndir lögfræðinnar, lögfræðinga og réttarkerfisins almennt í bókmenntum. Annað viðfangsefni er að fjalla um og greina bókmenntaeinkenni lögfræðilegra texta, svo sem lagaákvæða og dóma. Í þriðja lagi má nefna umfjöllun um ýmis bókmenntatengd viðfangsefni réttarkerfisins, svo sem höfundarrétt og ritstuld. Í erindinu verður fjallað stuttlega um þennan fjölbreytileika innan fræðigreinarinnar. Því næst verða færð rök fyrir því að umfjöllun um bókmenntir og lög geti gagnast lögfræðingum og tekin dæmi um íslensk skáldverk sem nýst gætu við kennslu í lagadeild. Verður í því sambandi sérstaklega vikið að skáldverkunum Svartfugli eftir Gunnar Gunnarsson og Góðu fólki eftir Val Grettisson.
Efnisorð: Lög, Bókmenntir, Lögfræði, Bókmenntafræði
Sek eða saklaus?
Höfundar: Guðrún Steinþórsdóttir
Ágrip:
Í gegnum tíðina hefur skáldkonan Vigdís Grímsdóttir verið óhrædd við að stinga á ýmis samfélagskýli í skrifum sínum en meðal annars hefur hún fjallað rækilega um kynferðislegt ofbeldi og afleiðingar þess. Sem dæmi um það má nefna skáldsöguna Ég heiti Ísbjörg ég er ljón (1989) þar sem rætt er á opinskáan hátt um sifjaspell, nauðganir og vændi. Það eru þó ekki einu glæpirnir sem sagan tekur á því aðalpersónan hefur gerst sek um morð. Í fyrirlestrinum verður rætt um samtal sakbornings og lögfræðings með hliðsjón af sögu Vigdísar og velt vöngum yfir hvaða lærdóm draga megi af skáldverkinu um sekt og sakleysi, alvarlega glæpi og afleiðingar þeirra. Þá verður einnig litið til viðtakna bókarinnar og þær settar í samhengi við mismunandi viðhorf til kynferðisafbrota á ritunartíma sögunnar.
Efnisorð: Lög, Bókmenntir, Lögfræði, Bókmenntafræði
„Er það raunverulegt nafn yðar?“ Rýnt í réttarhöld ásamt Jósef K.
Höfundar: Ástráður Eysteinsson
Ágrip:
Bókin Réttarhöldin er eitt þekktasta verk dr. Franz Kafka, lögfræðings og rithöfundar sem bjó hartnær alla ævi sína í borginni Prag. Þótt bókin fjalli um lög, handtöku, yfirheyrslur, refsingar, dómstóla og réttarhöld, er hér ekki um doktorsritgerð höfundar að ræða heldur skáldsögu sem hann setti saman í frístundum, í einskonar afdrepi sem hann bjó sér til meðfram ábyrgðarmiklum störfum sem millistjórnandi í tryggingafyrirtæki. Raunar mætti halda að aðalpersóna hans í sögunni, Jósef K., vakni í einhverskonar hliðarveruleika morgun einn þegar ókunnir menn tilkynna honum að hann sé handtekinn – en síðar kemur í ljós að hann má samt sem áður fara til vinnu sinnar í bankanum. Hvert er afbrot K. og hvernig á hann, eða lesandi skáldsögunnar, að skilja þau réttarhöld sem nú standa fyrir dyrum, eða eru þau þegar hafin? Um hvaða réttarkerfi er að ræða? Er þetta skuggadómstóll, lykilstaður í djúpríki af einhverju tagi? En samt virðist þennan dómstól vera að finna á víð og dreif í heimi Jósefs K., þar sem hefðbundin lögmál taka að raskast, meðal annars hin röklegu skil sem afmarka listheiminn, kirkjuna, fjármálakerfið, heimilið, karlveldið og einkalífið. Í þessu erindi verður reynt að eltast við hinn óræða glæp sem setur veruleika Jósefs K. úr skorðum. Sökin hlýtur að leynast einhvers staðar í sögunni – hugsanlega í sjálfri skjaldborg laganna.
Efnisorð: Lög, Bókmenntir, Lögfræði, Bókmenntafræði
Hvar skarast heimsbókmenntirnar og lögfræðin?
Höfundar: Jón Karl Helgason
Ágrip:
Erlendis hafa þverfaglegar rannsóknir á sviði laga og bókmennta verið blómlegar á undanförnum áratugum, ekki síst í Bandaríkjunum, en rannsóknarhefðin er rakin til safnrits eftir Irving Browne frá 1882 sem hefur að geyma fjölda sýnishorna úr heimsbókmenntunum þar sem lög og lögfræðingar koma við sögu. Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar mótaðist síðan meðal bandarískra lögfræðikennara hreyfing í kringum lög og bókmenntir sem hafði þann tilgang að bæta menntun lögfræðinema. Er hreyfingin talin eiga rætur að rekja bókalista sem John H. Wigmore þróaði í nokkrum áföngum yfir skáldverk þar sem lög, lögfræðingar og réttarhöld eru meginviðfangsefnið. Áður en yfir lauk taldi listinn um 100 titla en meðal þeirra höfunda sem Wigmore hélt á lofti voru James Cooper, Charles Dickens, George Eliot, Robert Lewis Stevenson, Honoré de Balzac, Alexandre Dumas og Lev Tolstoj. Ýmsir hafa orðið til þess að lengja og endurskoða þennan lista á síðari árum en slíkt starf, sem og fjölbreytt umfjöllun um lögfræðilegar hliðar tiltekinna skáldverka, hefur smám saman mótað einhvers konar hefðarveldi (e. canon) heimsbókmennta á þessu sviði. Því tilheyra meðal annars leikritið Kaupmaðurinn í Feneyjum eftir Shakespeare og skáldsögurnar Mikkjáll frá Kolbeinsbrú eftir Heinrich von Kleist, Mansfield Park eftir Jane Austen, Billy Budd eftir Herman Melville, Réttarhöldin eftir Franz Kafka, Útlendingurinn eftir Albert Camus og Að drepa hermikráku eftir Harper Lee. Í fyrirlestrinum verður ljósi varpað á þetta hefðarveldi og birtingarmynd þess á íslenskum bókmenntavettvangi.
Efnisorð: Lög, Bókmenntir, Lögfræði, Bókmenntafræði