Loftslag og umhverfi
Að breyta mataræði heillar þjóðar í þágu umhverfis
Höfundar: Auður Viðarsdóttir
Ágrip:
Undanfarin misseri hafa vísindamenn við Háskóla Íslands unnið að þverfaglega rannsóknarverkefninu „Sjálfbært heilsusamlegt mataræði – Vísindi sem vegvísir í átt að sjálfbærri framtíð“. Verkefnið leiðir saman sérfræðinga af ólíkum sviðum til að skoða mismunandi mataræði, með áherslu á kolefnisspor Íslendinga. Markmiðið er að auka við þekkingu sem auðveldar stefnumótandi aðilum að taka ákvarðanir um hvernig standa skuli að breytingu í átt að sjálfbæru, heilsusamlegu mataræði og vistvænni matvælaframleiðslu á Íslandi, í takt við síaukna þörf á aðgerðum sem sporna við loftslagsbreytingum. Vitað er að umhverfisvænna mataræði felst að miklu leyti í aukinni neyslu á plöntuafurðum á kostnað kjöts og annarra dýraafurða. Hvernig getur slík mataræðisbreyting átt sér stað meðal þjóðar sem um aldir hefur reitt sig í miklum mæli á dýraafurðir til að komast af? Mikilvægur liður í verkefninu er að skoða menningar- og félagslega þætti sem felast í slíkri breytingu. Til að varpa ljósi á þessa þætti stendur yfir þjóðfræðileg greining meðal fjölbreytts hóps fólks sem nú þegar hefur tileinkað sér sjálfbært og heilsusamlegt mataræði á Íslandi og borðar meðvitað með tilliti til umhverfisins, dýraverndar eða eigin heilsu. Hvað fær fólk til að snúa sér að slíku mataræði og halda sig við það? Hvaða viðhorf liggja þar að baki? Hverjar eru helstu áskoranirnar? Í erindinu verður rannsóknin kynnt og rýnt í fyrstu niðurstöður úr gögnum sem aflað hefur verið með eigindlegum viðtölum, vettvangsathugunum og ítarlegri spurningaskrá.
Efnisorð: matarmenning, sjálfbærni, heilsa, loftslagsbreytingar, umhverfisvernd
“Remove the puffin from the pizza!” – Refiguring the Atlantic puffin as a cultural symbol and harbinger
Höfundar: Katla Kjartansdóttir
Ágrip:
Through visual analysis and multi-species ethnography this paper sheds light on current socio-cultural dynamics and ecological developments within (and beyond) the Arctic region. These developments include increased human and more-than-human mobility, climate change and massive extinction of wild animals, frequently described as the sixth mass extinction (Kolbert, 2014). Among some of the iconic animals that have recently been listed as endangered is the Atlantic puffin (Birdlife, 2021). In Europe, the population size is estimated to have decreased by 68% over the past 50 years. The chapter investigates visual and material representations of the Atlantic puffin within the context of art, tourism and museums. Particular attention is given to contemporary Icelandic artists and how they engage with the puffin as a complex naturecultural symbol and harbinger with dark and gloomy ecological message. The title of the article is a statement given by one the visitors who attended the performance Sliceland – The Westest Pizza in Europe! by Curver Thoroddsen at Látrabjarg, the largest bird cliff in Europe and a major tourist attraction in Iceland.
Efnisorð: multi-species relations, climate change, animal extinction, contemporary visual artists
SJÓRINN ER ARKÍV SEM GEYMIR SÖGUR JARÐAR
Höfundar: Arndis Bergsdottir
Ágrip:
Sumarið 2021 lagði hópur vísindafólks upp í rannsóknaleiðangur með Árna Sæmundssyni. Ferðinni var heitið á haf út suðvestur af landinu til að taka sýni af sjávarbotni. Með í för var náttúruvísindafólk og safnafræðingur – ég. Tilgangur minn með ferðinni var að fylgjast með sýnatökunni en sum þeirra geyma sögu jarðarinnar fjörutíu þúsund ár aftur í tímann. Í framhaldinu voru tekin sýni úr sumum kjarnanna sem hafa, meðal annars, verið kolefnisgreind, gjóska greind með spedrometer og sýni tekin til greiningar á eDNA. Það varpar ljósi á lífríkið við strendur Íslands, eldsumbrot, og loftslag og hefur skýra tilvísun í vistkerfi á landi sem og búsetuskilyrði mannfólks. Markmiðið með þessari rannsókn er að skoða sýni úr setlögum hafsins; söfnun þeirra og meðhöndlun af hálfu náttúruvísinda frá sjónarhóli safna- og menningararfsfræða og skoða hvaða lærdóm sýnin og ferli þeirra geyma. Rannsóknin byggir á þátttökuathugunum og djúpu þverfaglegu samstarfi við rannsakendur á sviði náttúruvísinda. Fyrstu athuganir benda til þess að sjávarsetlögum megi líkja við arkív sem geymi frásagnir um samtvinnaðan lífheim sem einnig teygi anga sína til mannlegra aðstæðna. Sú athugun skapar nýtt sjónarhorn á samtvinnun lífhvolfsins og er viðbót við samræður um gagnleysi hefðbundins aðskilnaðar menningar- og náttúruarfs á tímum loftslagsbreytinga og minnkun líffræðilegs fjölbreytileika.
Efnisorð: arkív, arfur, sögur, lífhvolf, sjór, setlög
Kerfislæg röðun endurnýjanlegra orkukosta byggt á samfélagslegri velferð
Höfundar: Kristín Eiríksdóttir, Ágúst Arnórsson, et.al.
Ágrip:
Alls staðar í heiminum standa samfélög frammi fyrir því að grípa þarf til aðgerða til að draga úr hnattrænni hlýnun á sama tíma og hámarka á samfélagslega velferð. Samspil nýtingar á endurnýjanlegum orkugjöfum og verndun umhverfisgæða mun ákvarða stig samfélagslegrar velferðar til lengri tíma litið. Hámörkun samfélagslegrar velferðar krefst þess að mismunandi víddir velferðar séu bornar saman og ákvarðanir teknar um hversu mikið þarf að virkja af nýrri orku, hvar og með hvaða hætti. Markmiðið er að þróa aðferðafræði byggða á efnahagslegu umhverfismati og strjálum valtilraunum til að raða heilum kerfum af virkjunarkostum, frá þeim sem veitir mesta samfélagslega velferð til þess sem er skaðlegastur fyrir samfélagslega velferð. Slíkt hefur ekki verið gert áður. Efnahagslegu umhverfismati hefur verið beitt á einstaka virkjunarkosti þar sem metinn greiðsluvilji í krónum talið endurspeglar verðmæti umhverfisgæða. Greiðsluvilji einstaklinga í krónum talið er hins vegar ekki áreiðanlegur metill þegar valið stendur á milli margra virkjunarkosta með margvíslegum áhrifum á samfélagslega velferð. Sýnt verður fram á af hverju svo er og færð verða rök fyrir því að með því að mæla greiðsluvilja í megavöttum sé hægt að meta hvernig samfélög eru reiðubúin að skipta á einstaka velferðaráhrifum virkjana og framleiddri orku. Jákvæð og neikvæð velferðaráhrif virkjana eru margvísleg og felast m.a. í raski á umhverfisgæðum, breyttu aðgengi að útivistarsvæðum, áhættu af geislun frá kjarnorku og áhrifum á atvinnumöguleika og búsetu. Aðferðafræðin hefur burði til þess að hafa áhrif á ákvarðanatöku í orku, umhverfis- og loftslagsmálum á Íslandi sem og annars staðar í heiminum.
Efnisorð: Samfélagsleg velferð, Virkjunarkostir, Forgangsröðun, Greiðsluvilji, Endurnýjanleg orka, Efnahagslegt umhverfismat
Réttlát umskipti á leiðinni til kolefnishlutleysis: Kynja- og jafnréttissjónarmið í umhverfis- og loftslagsmálum
Höfundar: Brynhildur Hallgrímsdóttir, Sigríður Finnbogadóttir, et.al
Ágrip:
Loftslagsmál eru eitt stærsta viðfangsefni samtímans en áhrif þeirra á líf fólks geta verið ólík eftir stöðu fólks í samfélaginu. Mikilvægt er að þær aðgerðir sem gripið er til vegna loftslagsbreytinga stuðli ekki að misrétti og óréttlæti. Hvergi er hægt að nálgast aðgengilegar upplýsingar um hvaða kynja- og jafnréttissjónarmið skipta máli þegar kemur að aðgerðum við loftslagsbreytingum hér á landi.Verkefnið miðar að því að kortleggja kynja- og jafnréttissjónarmið sem horfa þarf til samhliða þróun Reykjavíkurborgar í átt að kolefnishlutleysi. Verkefnið var unnið eftir aðferðafræði kynjaðra fjármála með áherslu á margbreytileikasjónarmið mannréttindastefnu borgarinnar. Helstu niðurstöður sýna að mikill munur er á venjum, hegðun og vilja kynjanna til breytinga vegna umhverfis- og loftslagsmála. Ríkjandi gildi hins opinbera í loftslagsmálum og grænvæðing starfa einblínir á ákveðinn hóp fólks í samfélaginu og hætt er við því að konur og minnihlutahópar fái færri tækifæri ef ekki er unnið að því að víkka skilgreininguna á grænum störfum sem þykja mikilvæg fyrir samfélagið. Þá eru rannsóknir sem taka mið af kynja- og jafnréttissjónarmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum verulega ábótavant, sérstaklega í samgöngumálum. Verkefnið mun stuðla að því að þekking og rannsóknir á þessu sviði verði aðgengilegar fyrir sveitarfélög, stjórnvöld og stofnanir og nýtist þeim við ákvarðanatöku. Þannig verður betur hægt að stuðla að réttlátum umskiptum í loftslagsmálum.
Efnisorð: Umhverfis- og loftslagsmál, Kynja- og jafnréttissjónarmið, Réttlát umskipti