Áhrif félags- og efnahagslegs bakgrunns: Jöfnuður í tækifærum til menntunar og lífsgæða
Stéttskipt námsval íslenskra nemenda: bein og óbein áhrif á framhaldsskólastiginu
Höfundar: Adda Guðrún Gylfadóttir
Ágrip:
Samhliða framþróun í menntamálum hefur meðal menntunarstig víða aukist töluvert. Þrátt fyrir það er töluverður munur á menntunarstöðu ólíkra félagshópa og þau sem eru í hærri stéttum líklegust til að ljúka meiri menntun. Rannsóknir á sviðinu hafa sýnt að kerfisbundið forskot þeirra sem eru úr hærri stéttum hvíli á ólíku námsvali hópanna. Útskýringar byggja margar á hugmyndinni um óbein og bein (e. primary and secondary effects) áhrif. Óbein áhrif vísa til þess að námsárangur nemenda með hærri stéttastöðu sé að jafnaði betri en nemenda úr lægri stéttum. Sambandinu er þannig að hluta til miðlað í gegnum námsárangur. Aftur á móti veita óbein áhrif ekki fullnægjandi útskýringar því einstaklingar úr lægri stéttum eru enn ólíklegri til að ljúka námi á hærri stigum jafnvel þó þau séu með sama getustig (þ.e. námsárangur) og nemendur úr hærri stéttum. Þess vegna er litið til beinna áhrifa sem má skilja sem ómælda þætti sem tengjast stéttabakgrunni einstaklinga sem stuðla að stéttamuni í námsvali. Markmið þessarar rannsóknar er að skoða stéttamun á námsvali á Íslandi og leggja mat á hlutfallslegt vægi beinna og óbeinna áhrifa. Rannsóknin byggir á gögnum Hagstofu Íslands sem fylgja eftir tveimur árgöngum (1995 og 1996). Svokallaðri niðurbrotsaðferð (e. decomposition) er beitt til að varpa ljósi á ójöfnuð í menntunarstigi á Íslandi. Niðurstöður sýna að menntunarstig foreldra hefur mikið forspárgildi fyrir námsval íslenskra nemenda og að sambandið milli félagslegs bakgrunns og námsvals hvíli að stórum hluta á óbeinum áhrifum (þ.e. á námsárangri) en að bein áhrif séu einnig til staðar.
Efnisorð: Félagslegur hreyfanleiki, Menntun, Námsval, Félagslegur bakgrunnur
Menntunarstig kynslóða: Áhrif arðsemi menntunar
Höfundar: Emil Dagsson
Ágrip:
Greinin fjallar um hvaða áhrif menntunarstig foreldra hefur á menntunarstig barna þeirra og hvort það samband sé háð arðsemi menntunar hvers tíma. Rannsóknarspurningin er: Er samband milli arðsemi menntunar og færslu menntunar milli kynslóða? Notast verður við skráargögn frá Hagstofu Ísland til að meta arðsemi menntunar yfir tíma og færslustig menntunar milli kynslóða. Fyrst verður beitt aðhvarfsgreiningum til að meta arðsemi mismunandi menntunarstiga og þróun þeirra yfir tíma. Sem dæmi þá er skoðað hversu mikið hærri ráðstöfunartekjur einstaklingar með háskólapróf eru umfram tekjur þeirra sem hafa stúdentspróf sem hæsta menntunarstig. Því næst er þróun arðseminnar borinn saman við þróun færslustigs menntunar milli kynslóða, en það er greint með að reikna teygnistuðul menntunar milli kynslóða. Slíkur stuðull segir okkur hversu mörg ár í skóla einstaklingar eru að meðaltali þegar menntun foreldra breytist. Hagfræðikenningum og marktækni í þróun breytileika teygnistuðuls og arðsemi menntunar er að lokum beitt til að meta samband. Helstu niðurstöður eru að bæði arðsemi menntunar og menntunarteygni hafa lækkað á Íslandi. Lægri menntunarteygni er oft túlkuð sem meiri menntunarhreyfanleiki sem er ákjósanlegt. Lægri efnahagslegur ágóði menntunar getur hins vegar dregið úr hvata til að leita sér frekari menntunar. Slík þróun getur lækkar menntunarteygni sem þýðir að hreyfanleiki í menntun er að aukast, menntunarstig barna er ekki jafn háð menntunarstigi foreldra þeirra. Ekki getur talist ákjósanlegt að aukinn hreyfanleiki í menntun sé til kominn vegna þess að börn menntaðra foreldra eru síður að mennta sig en fjöldi þess hóps er hærri á Íslandi en að meðaltali í Evrópu.
Efnisorð: Menntun, Hreyfanleiki, Kynslóðir, Ójöfnuður, Tækifæri