Fjarnám á háskólastigi
Fjarnám sem lykill að háskólanámi fyrir breiðan hóp fólks, ekki bara landsbyggðina.
Höfundar: Amalía Björnsdóttir, Þuríður Jóna Jóhannsdóttir
Ágrip:
Á síðustu árum hefur verið stefnt að því að auðvelda þátttöku sem flestra samfélagshópa í háskólanámi. Á Menntavísindasviði Háskóla Íslands hefur fjarnám verið í boði á flestum námsleiðum, en það auðveldar aðgengi og gerir fólki kleift að stunda háskólanám með vinnu og öðrum skuldbindingum. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvaða þættir í bakgrunni háskólanema spá fyrir um val á fjarnámi. Gagna var aflað með spurningakönnun meðal stúdenta í bakkalárnámi á Menntavísindasviði. Niðurstöður sýna að eldri stúdentar og þeir sem vinna meira en 30 klst. á viku með námi velja frekar fjarnám. Háskólanemar sem áttu foreldra sem báðir voru án háskólamenntunar völdu frekar fjarnám en stúdentar þar sem báðir foreldrar voru háskólamenntaðir. Þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins velja frekar fjarnám en það er mikil einföldun að telja fjarnám vera fyrst og fremst fyrir fólk á landsbyggðinni heldur opnar það möguleika fyrir stóran hóp óhefðbundinna stúdenta til að sækja sér háskólamenntun. Erlendar rannsóknir hafa bent til að hærri aldur stúdenta, það að vera fyrsta kynslóð sinnar fjölskyldu í háskólanámi og að vinna mikið með námi hafi tengsl við hæga námsframvindu og brotthvarf frá námi. Stór hluti stúdenta á Menntavísindasviði og þá einkum fjarnemar á ákveðnum námsleiðum fellur í þessa hópa og því er brýnt að fylgjast með hvort munur sé á námsframvindu ólíkra hópa og gera ráðstafanir til að styrkja þá hópa stúdenta sem líklegastir eru til að falla úr námi. Það er gott fyrsta skref að bjóða upp á fjarnám en það þarf einnig að skapa viðunandi námsaðstæður.
Efnisorð: óhefðbundnir stúdentar, fjarnám, stéttarstaða háskólanema
Kennsluhættir námskeiða á Menntavísindasviði Háskóla Íslands
Höfundar: Svava Pétursdóttir, Sigurbjörg Jóhannesdóttir
Ágrip:
Lýsing: Á síðustu tveimur árum fluttist mikið af kennslu alfarið yfir á netið vegna Covid. Í framhaldi af þeirri reynslu og fyrirhuguðum flutningum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í nýtt húsnæði var ákveðið að skoða hvernig kennarar sjá fyrir sér kennsluhætti í sínum námskeiðum og hvernig kennsluaðstöðu þeir telja sig þurfa. Aðferð: Netkönnun var send til 153 kennara á Menntavísindasviði í apríl 2022. Kennarar voru beðnir um að velja að lágmarki eitt námskeið sem þeir kenndu og svara fyrir það. Niðurstöður: Þátttakendur í könnuninni voru 93 (61%). Þeir svöruðu fyrir 316 námskeið, á grunn- og framhaldsstigi, sem eru 78% af kenndum námskeiðum. Samkvæmt niðurstöðum sjá kennarar fyrir sér að fjarnám verði í boði í 82% námskeiðanna sem yrðu flest með valvísu kennslusniði (71%). Netnámskeið með engri rauntímaviðveru yrðu 7%. Flestir kennarar sjá fyrir sér að nýta staðtíma fyrir umræður (95%), para- og hópavinnu (86%) og nemendakynningar (80%). Um 77% kennara sjá fyrir sér að þeir muni búa til sérmyndbönd með fyrirlestrum og öðru efni, sem þeir munu birta í Canvas. Þeir vilja flestir (82%) nýta eigin vinnuaðstöðu í HÍ til að vinna þessi myndbönd. Ályktun: Hátt hlutfall námskeiða á Menntavísindasviði eru í boði í fjarnámi. Mest eru það valvís námskeið sem nemendur hafa val um að taka í stað- eða fjarnámi, sem eru þá kennd með blönduðu formi. Margir kennarar hafa hug á að bjóða fjarnemendum að mæta í netheimum með staðnemendum. Það þýðir að sviðið þarf að huga að því að í boði séu nægjanlega vel útbúnar stofur fyrir slíka kennslu.
Efnisorð: Valvíst nám, Menntavísindasvið, Kennsluhættir
Taking advantage of slides and lecture captures for better performance: A case study in higher education
Höfundar: Nidia Guadalupe Lopez Flores, Anna Sigridur Islind, et.al.
Ágrip:
The provision of educational material in higher education takes place through learning management systems (LMS) and other learning platforms. However, little is known yet about how and when the students access the educational materials provided to perform better. In this paper, we aim to answer the research question: ‘How do the high achievers use the educational material provided to get better grades?’. To answer this question, the data from two educational platforms were merged: the LMS, and a lecture capture platform. From these platforms, the students’ activity related to the use of lecture recordings and the access to the slides provided was analysed. We based on a series of quizzes to analyse the differences between high and non-high achievers regarding the use of lecture recordings and slides at different moments: (1) before starting the quizzes, (2) while solving the quizzes, and (3) after the quizzes’ submission. Our analysis shows significant differences between both groups, providing insights on the study patterns followed by the students. Furthermore, our results highlight the value of considering all the educational platforms instead of limiting the analyses to a single data source.
Efnisorð: learning analytics, higher education, educational material, lecture captures
Stórt staðnámskeið færist í netheima. Hver er upplifun nemenda? Hvaða lærdóm er hægt að draga af reynslunni?
Höfundar: Ásta B Schram
Ágrip:
Vormisserið 2021 var um 400 manna skyldunámskeið í þverfræðilegum heilbrigðisvísindum fært úr staðkennslu yfir á netið vegna aðstæðna í COVID. Á vormisseri 2022 tóku síðan um 600 nemendur á heilbrigðisvísindasviði þátt í þessu sama námskeiði á netinu. Ýmsar áskoranir blöstu við kennurum í upphafi við undirbúning og yfirfærslu námskeiðsins á netið. Hluti námsmats á námskeiðinu fólst í spurningum um upplifun nemenda af hinum ýmsu þáttum námskeiðsins. Svör nemenda voru notuð sem rannsóknargögn með blandaðri aðferðafræði. Nemendur svöruðu spurningalista þar sem notaður var LIKERT kvarði ásamt opnum spurningum um upplifun þeirra. Þar sem þátttaka var hluti af námsmati var svarhlutfall 100%. Unnið var úr opnum svörum með þátttagreiningu. Rannsóknarspurningar lutu að upplifun nemenda á skipulagi námskeiðs, verkefnum og fyrirlestrum, en einnig hvernig til tókst í netheimum. Almennt var mikil ánægja með námskeiðið og gefa niðurstöður úr opnum spurningum mjög góðar upplýsingar um hvað nemendum þótti takast vel, hvað hefði mátt takast betur, og hugmyndir þeirra um hvernig námskeiðið ætti að þróast. Niðurstöður ársins 2021 voru leiðbeinandi um hönnun og skipulags námskeiðsins 2022. Niðurstöður beggja áranna gefa gagnlegar upplýsingar um hvað skiptir máli þegar færa þarf stór námskeið í netheima.
Efnisorð: Fjarnám, Covid, endurhönnun námskeiðs