Að vera (ekki) móðir

Málstofustjóri: Auður Magndís Auðardóttir

Í málstofunni verður móðurhlutverkið skoðað út frá ýmsum hliðum. Af hverju velja konur sig frá móðurhlutverkinu? Hvaða kröfur eru gerðar til mæðra? Hvernig birtast mæður í íslenskum þjóðsögum? Á forsendum hvaða mæðra starfa foreldrafélög í grunnskólum? Þessum og fleiri spurningum verður velt upp í fjölbreyttum erindum málstofunnar.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

„Nema að ég fengi að vera eins og hinn týpíski pabbi“: Valið barnleysi kvenna og viðhorf til móðurhlutverksins

Fæðingartíðni hefur lengi verið há á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd. Síðasta áratug hefur fæðingartíðni þó farið ört lækkandi og aldur móður við fæðingu fyrsta barns farið hækkandi. Rannsóknir í Evrópu benda til þess að hlutfall barnlausra kvenna hafi aukist en sambærilegar tölur frá Íslandi benda til þess að hlutfallið sé nokkuð stöðugt og að á milli 11 og 13% íslenskra kvenna eignist ekki börn. Valið barnleysi er áhugaverð breyta þegar kemur að því að skoða fæðingartíðni og breytt viðhorf til barneigna. Færa má rök fyrir því að það sé  sérstaklega áhugavert í hinu íslenska samhengi þar sem lögð er áhersla á jafnrétti kynjanna, fjölskyldur eru fjölbreyttar og fjölskyldustefna styður við atvinnuþátttöku beggja foreldra og jafna fjölskylduábyrgð. Í þessari viðtalsrannsókn er leitast við að greina viðhorf og upplifanir íslenskra kvenna sem hafa valið barnleysi. Tekin voru 16 hálf-stöðluð viðtöl við konur á aldrinum 25-45 sem eru búsettar á Íslandi og hafa valið að eignast ekki börn. Niðurstöður benda til þess að sumar konur upplifi þær samfélagslegu kröfur sem gerðar eru til móðurhlutverksins sem fráhrindandi. Greining viðtala varpar ljósi á það hvernig hugmyndafræði ákafrar mæðrunar hefur breytt viðhorfum okkar til móðurhlutverksins og þannig haft áhrif á áhuga og getu sumra kvenna til þess að sinna hlutverkinu.

Sunna Símonardóttir

Lykilorð: valið barnleysi, móðurhlutverk, fæðingartíðni

„Illa gerðir þú móðir mín, að varna mér lífs“: Móðurhlutverkið í íslenskum þjóðsögum

Ímynd hinnar íslensku konu á 19. öld var mjög skýr. Staða konunnar var inn á heimilinu þar sem hún átti að ríkja yfir börnum og hjúum, hún var móðir, upphafin og hrein, táknmynd hins góða. Þetta átti þó einungis við um giftar konur, ógiftar konur áttu ekki að eignast börn.

Í erindinu verður fjallað um íslenskar sagnir í útgefnum þjóðsagnasöfnum frá 19. og 20. öld, um konur sem brutu gegn ríkjandi hugmyndum þess tíma um móðurhlutverkið. Teknar verða til skoðunar tvær gerðir sagna, annars vegar af giftum konum sem vilja ekki eignast börn og hins vegar af ógiftum konum sem eignast börn en bera þau út. Eigindlegum rannsóknaraðferðum er beitt á efnið til að rannsaka viðhorf til þessara kvenna og móðurhlutverksins í sögnunum.

Þjóðsögur geta sagt okkur margt um þau samfélög sem þær tilheyra og endurspegla á vissan hátt þann hugmyndaheim sem þær spretta úr. Sagnir hafa einnig mótandi áhrif á samfélagið. Ljóst er að sagnir af þessu tagi hafa haft það hlutverk að kenna konum hvað var viðeigandi hegðun eða óæskileg í sambandi við kynlíf og barneignir. Stétt kvennanna og staða hafði þar mikið að segja. Gerð verður grein fyrir þeim boðskap sem sagnirnar miðla um hlutverk kvenna út frá þjóðfræðilegu og kynjafræðilegu sjónarhorni.

Erindið er hluti af doktorsrannsókn höfundar um birtingarmyndir kvenna í íslenskum þjóðsögum.

Dagrún Ósk Jónsdóttir

Lykilorð: þjóðfræði, þjóðsögur, móðurhlutverkið

„Ég er svarta öndin“ – mæður af verkalýðsstétt og samskipti foreldra á vettvangi grunnskóla

Með síaukinni áherslu á samvinnu skóla og heimila skapast endurtekið þær aðstæður að foreldrar hitta aðra foreldra á vettvangi grunnskólans. Mikilvægt er að greina valdastiga foreldrasamfélaganna og hvort og þá hvernig þeir geta átt þátt í að endurskapa stéttaskiptingu hérlendis. Í erindinu verða skoðaðar lífssögur mæðra af verkalýðsstétt. Greint er hvernig þær lýsa reynslu sinni af grunnskólavettvangnum í sinni eigin æsku og þær upplifanir settar í samhengi við reynslu þeirra af þátttöku þeirra sem mæður í foreldrasamfélögum grunnskóla. Kenningar Bourdieus um táknbundið ofbeldi eru notaðar til að greina niðurstöðurnar ásamt rannsóknum á tilfinningum tengdum jaðarsetningu (meðal annars D. Reay og B. Skeggs). Frásagnargreiningu var beitt á sögur sex hvítra, íslenskra mæðra af verkalýðsstétt sem allar eiga barn/börn í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður benda til þess að mæður af verkalýðsstétt eigi það á hættu að verða fyrir táknbundnu ofbeldi innan foreldrasamfélaganna t.d. með útilokun. Hið táknbundna ofbeldi er framhald af þeirri jaðarsetningu sem mæðurnar hafa glímt við frá barnæsku. Stundum verða þeirra eigin börn einnig fyrir jaðarsetningu. Í sumum sögunum má finna merki um mótstöðu gegn jaðarsetningunni og réttláta reiði en í öllum sögunum eru tilfinningar á borð við skömm allt umlykjandi. Niðurstöðurnar gefa tilefni til að endurskoða þá menningu sem ríkir í kringum foreldrasamvinnu þar sem þeir foreldrar sem ekki taka þátt eru álitnir áhugalausir og óverðugir.

Auður Magndís Auðardóttir

Lykilorð: mæðrun, samstarf heimila og skóla, stétt

Umönnunarábyrgð mæðra á 21. öld

Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist á sviði kynjajafnrétti, er fjölskylduábyrgð frekar á herðum mæðra en feðra víðast hvar á Vesturlöndum. Mæður bera enn meginábyrð á umönnun ungra barna og þær eru líklegri en feður til að aðlaga þátttöku sína á vinnumarkaði að þörfum fjölskyldunnar. Í erindinu verður fjallað um hvernig foreldrar á Íslandi skipta með sér umönnun barna sinna og hvaða breytingar hafa orðið á umönnunarábyrgð mæðra á undangengnum 20 árum.

Fjallað verður um niðurstöður fjögurra viðamikilla kannana meðal foreldra sem áttu sitt fyrsta barn árin 1997, 2003, 2009 og 2014. Í könnunum var spurt hvernig foreldrar höfðu hagað atvinnuþátttöku og umönnun barnsins fyrstu þrjú æviárin. Niðurstöður sýna að frá því könnunin var fyrst lögð fyrir, hefur hlutfall foreldra sem segjast skipta umönnun barns jafnt sín á milli aukist jafnt og þétt. Mæður bera þó enn meginábyrgð á umönnun barnsins fyrsta árið. Á fjórða aldursári barns er dagleg umönnun á borð við það að hátta barnið og gefa því að borða frekar hlutverk mæðra en feðra, á meðan foreldrar skipta ferðum á leikskóla gjarnan jafnt sín á milli. Loks sýna niðurstöður að töluverður munur er á umönnunarábyrgð mæðra eftir hjúskaparstöðu, menntun og stöðu á vinnumarkaði.

Ásdís A. Arnalds og Guðný Björk Eydal

Lykilorð: móðurhlutverkið, umönnun barna, atvinnuþátttaka

Abnormal, Neurotic, child-hating emotional freaks – no identity for non-mother

From early childhood, heteronormative, pro-natal narratives exercise reproductive control over female consciousness, grooming the imagination and emotional landscape for motherhood. Pro-natalism dictates women’s lives and social roles, colonising individuality and reproductive self-determination by promoting a life script that expects motherhood. Thus, we ask, to what degree do people who can bear children exercise reproductive self-determination and to what degree is it a pre-ordained social expectation? Results from 35 qualitative interviews taken with 19 people who are childfree by choice, and 16 women who regret motherhood, that were thematically and discursively analysed, reveal the degree to which society influences reproductive autonomy. Framed as abnormal, neurotic child haters, those who reject, or regret motherhood subvert pro-natalist discourses because they don’t follow the right script. They threaten the “feeling rules” and narratives of happiness that align women to motherhood. Depicted as emotional freaks, the voices of those who desire alternative identities to motherhood are supressed, while pro-natal discourses persist as truth.

Margaret Anne Johnson og Gyða Margrét Pétursdóttir

Lykilorð: childfree, regretting motherhood, pro-natalism

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    29/10, 2021 11:00
  • Málstofu lýkur
    29/10, 2021 12:45
Höfundar erinda
Nýdoktor / Post Doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Nýdoktor / Post Doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Nýdoktor / Post doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    29/10, 2021 11:00
  • Málstofu lýkur
    29/10, 2021 12:45