Afbrot, ofbeldi og löggæsla I

 


Netglæpir: Tegundir, þróun og reynsla Íslendinga

Höfundar: Helgi Gunnlaugsson and Jónas Orri Jónasson

 

Ágrip:

Netið hefur smám saman orðið ómissandi þáttur i lífi nútímamannsins og ný tækifæri hafa opnast fyrir margvíslega fráviks – og afbrotahegðan. Hvert er umfang brota af því tagi á Íslandi? Hvaða þjóðfélagshópar eru líklegastir til þess að verða fyrir brotum á netinu og hvaða brot eru algengust? Er brotum af þessu tagi að fjölga hér á landi?

Gögnin sem niðurstöðurnar byggja á koma úr fjórum þjóðmálakönnunum sem Félagsvísindastofnun safnaði saman 2016, 2018, 2020 og 2022. Þátttakendur voru spurðir hvort þeir hefðu orðið þolendur einhverra eftirtalinna netbrota: Meiðyrði eða rógburði, hótun um ofbeldi, persónuupplýsingar verið misnotaðar, t.d. kreditkortaupplýsingar eða kennitala, kynferðislegri áreitni, fjárkúgun, svik í viðskiptum, hvort einhver hafi hótað að dreifa eða birta myndir/efni um sig án leyfis og að lokum hvort einhver hafi birt eða dreift myndum án samþykkis.

Helstu niðurstöður eru að heildarfjöldi þeirra sem segist hafa orðið þolandi netbrots hefur ekki vaxið frá 2018 eftir töluverða aukningu frá 2016. Aftur á móti greindu þeir sem sögðust hafa orðið fyrir netbrotum 2020 og 2022 frá fleiri brotum en þolendur gerðu árin 2016 og 2018. Flestir greindu frá meiðyrðum og fjársvikum árið 2022 eins og áður. Athygli vekur að talsvert fleiri sögðust þolendur kynferðislegrar áreitni árin 2018, 2020 og 2022 en 2016. Hafði me-too hreyfingin áhrif á reynslu þátttakenda einkum kvenna?

 

Efnisorð: Afbrot, löggæsla, ofbeldi


Tengsl uppruna íslenskra unglinga við afskipti lögreglu og skólayfirvalda

Höfundar: Margrét Valdimarsdóttir

 

Ágrip:

Á síðustu áratugum hefur íslenskt samfélag breyst úr afar fámennu og einsleitu samfélagi yfir í að vera land þar sem búa hlutfallslega fleiri erlendir ríkisborgarar en mjög víða í Evrópu. Aukinn fjöldi innflytjenda kallar á rannsóknir á því hvað felst í breyttri samsetningu landsmanna, ekki síst á stöðu ungs fólks af erlendum uppruna. Í afbrota- og félagsfræði er löng hefð fyrir rannsóknum á áhrifum vaxandi fjölda innflytjenda á 1) upplifaða ógn innfæddra, 2) samskipti lögreglu við fólk sem tilheyrir minnihlutahópum og 3) tíðni afbrota. Íslenskar rannsóknir á þessum þáttum eru þó enn fáar.
Í erindinu er greint frá rannsókn á tengslum uppruna íslenskra unglinga við afskipti lögreglu og skólayfirvalda. Í anda stimplunarkenninga voru lagðar fram tilgátur um auknar líkur á formlegum taumhaldsaðgerðum gegn ungu fólki með erlendan bakgrunn. Gögnin byggja á viðamikilli unglingakönnun sem framkvæmd var af Rannsóknir og greiningu. Niðurstöður sýna að þrátt fyrir að hlutfallslega fleiri unglingar með erlendan bakgrunn hafi verið yfirheyrðir af lögreglu og skólayfirvöldum heldur en unglingar með íslenskan bakgrunn, er ekki hægt að álykta að munurinn stafi af beinni mismunun. Í erindinu eru niðurstöður rannsóknarinnar settar í samhengi við erlendar rannsóknir og kenningar í afbrotafræði.

 

Efnisorð: Innflytjendur, Afskipti lögreglu og skólayfirvalda, Ungt fólk með erlendan bakgrunn, Stimplunarkenningar


Félagslegar rætur siðrofs í íslenskum samtíma

Höfundar: Jón Gunnar Bernburg, Sigrún Ólafsdóttir and Þóroddur Bjarnason

 

Ágrip:

Siðrofskenningin (e. anomie theory) leggur áherslu á að veigamikil stoð samvinnu og trausts í tilteknu samfélagi sé sú að einstaklingarnir þekki og hafi hollustu við sameiginleg (óskrifuð) viðmið og gildi þess. Að öðrum kosti skapist hætta á siðrofi, þ.e. viðmið verða óljós, hollusta við viðmið og gildi veik með tilheyrandi vandamálum fyrir samfélagið og einstaklinganna. Kenningin gefur enn fremur til kynna megin rætur siðrofs í nútímasamfélagi. Í fyrsta lagi geti hraðar breytingar skapað misræmi milli ríkjandi viðmiða og gilda annars vegar og félagslegs raunveruleika hins vegar, en þá bresta væntingar og einstaklingar upplifa óréttlæti. Í öðru lagi geti hnignun megin stofnanna samfélagsins veikt það taumhald sem viðmiðin og gildin hafa á hegðun og langanir einstaklinga. Í þessu sambandi getur óheft efnishyggja veikt mátt viðmiða og gilda. Þessi þemu eru sjaldan skoðuð með mælingum á siðrofsupplifunum einstaklinga. Við gerum þetta með mælingum úr viðhorfakönnun sem framkvæmd var hérlendis veturinn 2009-2010 (í kreppunni eftir Hrunið) og sem var síðan endurtekin veturinn 2020-2021 (í COVID faraldrinum). Gögnin gera okkur kleift að skoða bæði áhrif hraðra breytinga (þ.e. við berum saman tímabilin tvö) og einstaklingsbundinna þátta (t.d. félagslegri stöðu, upplifun á tækifærum) á siðrofsupplifanir einstaklinga. Niðurstöður renna nýjum stoðum undir helstu skýringarþætti siðrofskenningarinnar.

 

Efnisorð: Siðrof, Viðmið, Órættlæti, Hrunið, Covid


Kvenmorð og óbeinir þolendur þeirra

Höfundar: Freydís Jóna Freysteinsdóttir

 

Ágrip:

Markmiðið með þessari rannsókn var að rannsaka hluta kvenmorða (e. femicide) sem hafa verið framin á Íslandi. Í þessum málum höfðu mæður barna verið beittar ofbeldi sem leiddi til dauða þeirra. Verknaðinn framdi aðili sem þær höfðu verið í nánu sambandi við. Tilgangurinn var að öðlast þekkingu á því hvað einkennir slík mál með það fyrir augum að reyna að fyrirbyggja þau í framtíðinni. Könnuð voru slík mál á 35 ára tímabili hér á landi. Aðferðin var bæði megindleg og eigindleg og fól í sér innihaldsgreiningu dóma og fréttamiðla. Niðurstöður sýndu að átta mæður sem áttu samtals 14 börn tvítug eða yngri voru myrtar hér á landi á þessu tímabili. Verknaðaraðferðin virðist hafa verið tengd félagslegu umhverfi morðanna. Í tæplega helmingi tilfella voru barn eða börn viðstödd þegar móðir þeirra var myrt og urðu því vitni að verknaðinum með einhverjum hætti. Þegar um föður barnanna var að ræða fór hann í fangelsi eða var vistaður á geðdeild í kjölfar verknaðarins en í einu tilfelli svipti faðirinn sig lífi í kjölfar verknaðarins. Því má segja að flest börnin hafi misst báða foreldra sína þegar þetta gerðist. Þar sem um gríðarleg áföll er að ræða fyrir börnin og aðra aðstandendur er mikilvægt að fagfólk í félagslega geiranum og heilbrigðisgeiranum skimi fyrir ofbeldi. Jafnframt er mikilvægt að það þekki einkenni og aðdraganda slíkra atburða svo fremur sé hægt að koma í veg fyrir þá.

 

Efnisorð: kvenmorðbörn, ofbeldi, vitni að ofbeldi, barnavernd


Upplýsingar
Upplýsingar