Afbrot, ofbeldi og löggæsla II

 


„Ég ætla aldrei aftur í samfélagsþjónustu“ Upplifun, reynsla og afstaða einstaklinga í samfélagsþjónustu

Höfundar: Brynja Rós Bjarnadóttir

Ágrip:

Hér á landi hefur áhersla verið lögð á aukningu annarra afplánunarúrræða en afplánun í lokuðu fangelsi. Samfélagsþjónusta er eitt af þeim úrræðum sem hefur farið stigvaxandi sem afplánunarúrræði hjá Fangelsismálastofnun ríkisins. Hún hefur verið við lýði á Íslandi frá árinu 1995 og hefur þróast frá því að leyfa dómþolum með allt að þriggja mánaða óskilorðsbundna fangelsisrefsingu upp í tveggja ára dóm, að uppfylltum skilyrðum, að afplána refsinguna sína með samfélagsþjónustu. Einnig hafa einstaklingar með vararefs ingu fésekta tækifæri á að afplána með þessum hætti. Aðal markmið rannsóknarinnar var að kanna upplifun, reynslu og afstöðu þeirra sem afplána með samfélagsþjónustu og fá að taka út sína refsingu í vægara úrræði með tilliti til frelsisskerðingar. Tekin voru hálf stöðluð viðtöl við sjö einstaklinga sem eru nú þegar í samfélagsþjónustu eða hafa nýverið lokið henni. Einnig var tekið viðtal við þrjá umsjónarmenn vinnustaða sem samfélagsþjón ar sækja vinnu til og við Pál E. Winkel forstjóra Fangelsismálastofnunar. Niðurstöðurnar bentu til þess að samfélagsþjónustuúrræðið er vissulega heppilegra úrræði en afplánun í fangelsi þar sem frelsisskerðing getur haft verulegar afleiðingar, til að mynda atvinnum issi og rof á félagslegum tengslum. Þrátt fyrir það reynist það einstaklingum áskorun að afplána í samfélagsþjónustu þar sem erfitt getur reynst að samræma samfélagsþjónustu vinnuna með annarri vinnu og/eða námi og fjölskyldulífi.

Efnisorð: Upplifun, Samfélagsþjónusta, Afstaða


 

„Draumastaður“ og önnur úrræði til að hverfa úr vændi

Höfundar: Gyða Margrét Pétursdóttir, Sveina Hjördís Þorvaldsdóttir

Ágrip:

Árið 2009 voru gerðar breytingar á 206 gr. Almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt breytingunni eru kaup á vændi og hagnaður þriðja aðila af vændissölu refsiverð en sala á vændi er refsilaus með öllu. Með lagabreytingunni, sem kennd er við sænsku leiðina, er því miðlað að ekki sé í lagi að nýta sér neyð annarra í kynferðislegum tilgangi og að líkaminn sé ekki söluvara. Fyrir gildistöku laganna var lítið vitað um aðstæður fólks í vændi og engar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi eftir gildistöku þeirra sem kannar reynslu þeirra sem eru í vændi og þá hvort og þá með hvaða hætti lögin hafa náð markmiðum sínum. Markmið þessarar rannsóknar er að bæta úr því. Rannsóknin sem unnin er í samstarfi við Stígamót beinir sjónum sérstaklega að úrræðum til útgöngu (exit options) úr vændi. Framkvæmd voru 14 eigindleg viðtöl við konur sem verið hafa í vændi og eitt viðtal við forsvarsmanneskju samtakanna Rauðu regnhlífarinnar sem berjast fyrir afglæpavæðingu kynlífsvinnu. Viðtölin voru þemagreind og helstu niðurstöður eru þær að viðmælendum mætti úrræðaleysi í aðdraganda vændis. Þær upplifa sig ekki örugga í samskiptum við lögreglu og fagaðila. Þær kalla eftir harðari refsingum fyrir vændiskaup, fjölþættum úrræðum fyrir þau sem vilja hverfa úr vændi og að þekking um vændi og afleiðingar þess verði aukin og miðlað til samfélagsins.

Efnisorð: Vændi, Sænska leiðin, Úrræði til útgöngu


 

Búsetuaðstæður fyrrum fanga á Íslandi: Stuðningur til betruna

Höfundar: Elsa Dögg Lárusdóttir

Ágrip:

Betrunarstefna gegnir þeim tilgangi að tryggja að úr fangelsi komi betri einstaklingur en fór þar inn. Þannig aukast líkur á farsælli samfélagsaðlögun sem jafnframt dregur úr líkum á ítrekun. Stór hluti fanga þarf aðstoð við að uppfylla grunnþarfir þegar út er komið og því ólíklegt að markmið um betrun sé í forgangi. Ef þeir eru ekki heimilislausir áður en afplánun hefst eru miklar líkur á að þeir verði það í kjölfar sem jafnan eykur líkur á endurkomu í fangelsi. Samband húsnæðisvanda og afbrota hefur lítið verið rannsakað hér á landi og því markmið verkefnisins að draga upp heildstæð mynd af búsetuaðstæðum fyrrum fanga á Íslandi. Rannsóknin var tvíþætt; fyrst voru tekin djúpviðtöl við fyrrum fanga með reynslu af húsnæðisvanda og næst var lögð fram spurningalistakönnun á fjórum áfangaheimilum sem frumraun til að nálgast þennan jaðarsetta hóp. Niðurstöður sýndu í fyrsta lagi marktæk tengsl milli einstaklinga með brotasögu á bakinu og óstöðugleika í húsnæðismálum, í öðru lagi, almennt slæma reynslu fyrrum fanga af húsnæðismálum hér á landi, og í þriðja lagi, ýmsar kerfisbundnar hindranir sem stóðu í vegi fyrir betrunarferli þeirra þar sem stór hluti fanga eiga við fjölþætt vandamál að stríða sem eingöngu er mætt að hluta til af fangelsismálayfirvöldum. Lagt er til að sjónarmið skaðaminnkunar verði tekið upp í ríkari mæli í stefnumálum fanga og talið lágþröskuldaumhverfi best til þess fallið að mæta ólíkum þörfum hópsins, líkt og í málefnum heimilislausra. Lykilmáli skiptir að grunnþarfir séu álitin sjálfsögð mannréttindi og því öllum samfélagsþegnum tryggð húsnæði skilyrðislaust.

Efnisorð: Fangar, Heimilisleysi, Betrun, Skaðaminnkun


Upplýsingar
Upplýsingar