Ástarrannsóknir

Málstofustjóri: Berglind Rós Magnúsdóttir

Hið íslenzka ástarrannsóknafélag býður upp á málstofu sem hverfist um rómantísk eða kynferðisleg ástartengsl og tilheyra fræðasviði sem kallast ástarrannsóknir (e. love studies) . Þetta svið hefur aldrei almennilega numið land í íslenskri akademíu þrátt fyrir að upphafskonan sé íslenskur fræðimaður; Anna Guðrún Jónasdóttir, prófessor emeritus við Örebro háskóla. Í ár eru 30 ár síðan Anna Guðrún setti fram kenningar sínar um ástarkraftinn með hugtök Marx um vinnukraft,  arðrán og félagslega endursköpun að vopni. Í málstofunum sameinast fræðafólk þvert á fræðasvið innan hug- og félagsvísinda Háskóla Íslands til að rýna fræðilega í ástina. Kenningar og skrif Önnu Guðrúnar, Evu Illouz, Anthony Giddens, Singer, Gudorf, Derrida, Horkheimer og Adorno eru nýtt í erindunum. Hluti fyrirlestranna er byggður á nýútkomnum greinum í Ritinu; sérriti um ástarrannsóknir.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Á valdi ástarinnar- um markaðslegan tilgang og félagslegt taumhald hugmyndarinnar um rómantíska ást

Hugmyndin um vald rómantískrar ástar er rótgróin í menningu vestrænna samfélaga. Rómantísk ást er notuð grimmt til að markaðssetja og selja, ekki bara varning og vörumerki heldur líka hugmyndafræði sem viðheldur valdakerfum. Í sumu tilliti hefur hún tekið við af trúarbrögðum sem hið óáþreifanlega en þó magnaða afl sem allt knýr áfram. Rómantísk ást er einnig gríðarlega mikilvægur drifkraftur kynjakerfisins þar sem ástarkraftur gengur kaupum og sölum á markaðstorgi þar sem hallar mjög áberandi á annað kynið. Hér er spurt hvort hugmyndin um rómantíska ást tengist auknu pólitísku og félagslegu valdi kvenna á 20. öld og þeirri ógn sem valdahlutföll kynjanna standa frammi fyrir í kjölfarið. Bleikrauðu kastljósi er beint að ýmsu dægurefni sem setur ástina og hlutverk kynjanna í forgrunn. Efnið er greint með aðferðum orðræðugreiningar og stuðst við kenningar Evu Illouz um hagræn áhrif markaðssetningar á rómantískri ást í ljósi kenninga Horkheimer og Adorno um menningariðnaðinn og að lokum könnuð tengsl slíkrar markaðssetningar við kenningar Önnu Guðrúnar Jónasdóttur um ástarkraftinn.

Brynhildur Björnsdóttir og Silja Bára Ómarsdóttir

Smelltu hér til að horfa á upptöku erindis.

Hvað þurfum við til að elska? Viðhorf Íslendinga til þess hvað er mikilvægt í góðu hjónabandi í alþjóðlegum samanburði

Mannfólkið hefur lengi myndað ástarsambönd en tilgangur þeirra hefur verið breytilegur yfir tíma og á milli samfélaga. Oft var frekar um að ræða samband af hagkvæmnisástæðum, en hugmyndin um rómantíska ást kemur fram á miðöldum og hefur orðið meira ráðandi í vestrænum samfélögum. Samt er það þannig að þó margir sækist eftir rómantískri ást eru ýmsar ástæður fyrir að fólk gengur í hjónaband og það er misjafnt hvað er talið mikilvægt fyrir gott hjónaband. Í þessari grein spyrjum við þriggja spurninga: 1) Hvað telja Íslendingar að sé mikilvægt í hjónabandi; 2) Er munur eftir félagslegum þáttum; og 3) Hvernig eru áherslur Íslendinga í samanburði við önnur lönd. Við svörum þessum spurningum með því að nota gögn úr Evrópsku Lífsgildakönnuninni frá 2017 en hún var lögð fyrir í 33 Evrópulöndum. Fyrstu niðurstöður sýna að Íslendingar leggja áherslu á mikilvægi þess að vera trúr, að deila heimilsstörfum og að hafa tíma fyrir eigin vini og eigin áhugamál, en tiltölulega litla áherslu á að hafa nægar tekjur, gott húsnæði og að eiga börn. Þannig sér stór hluti Íslendinga gott hjónaband það sem einkennist af trausti og sameiginlegri ábyrgð þar sem báðir aðilar geta blómstrað sem einstaklingar. Samkvæmt Lífsgildakönnuninni virðast Íslendingar vera komnir lengra frá eldri hugmyndum um hjónabönd sem hagkvæmisstofnun heldur en almenningur í flestum öðrum Evrópulöndum.

Sigrún Ólafsdóttir og Berglind Rós Magnúsdóttir

Lykilorð: hjónaband, samanburðarrannsóknir, ástarrannsóknir

Smelltu hér til að horfa á upptöku erindis.

Réttlát ást á tveimur öldum

Erindið snýst um réttláta ást sem er ástarhugmynd sem fræðimenn jafnt sem aðgerðasinnar hafa nýtt í baráttunni fyrir viðurkenningu á mannréttindum hinsegin fólks. Líkt og á við um kvennabaráttuna má tala um fyrstu og aðra bylgju baráttunnar fyrir réttlátri ást homma og lesbía. Fyrri bylgjan hófst á ofanverðri 19. öld og entist eitthvað inn á þá 20. Sú síðari byrjaði upp úr 1970 en óx svo ásmegin upp úr 1990 þegar tekið var að berjast fyrir samfélagslegri og kirkjulegri viðurkenningu á ást þeirra og löglegri sambúð. Tekin eru tvö dæmi frá tveimur öldum með það að markmiði að varpa ljósi í það sem er sameiginlegt og hvað ekki. Á ofanverðri 19. öld börðust hommar í Þýskalandi og Englandi fyrir viðurkenningu á homogenic ást sinni – án sýnilegs árangurs. Réttri öld síðar var umhverfið og menningin víða gjörbreytt og meiri vilji til að umbylta viðhorfum jafnt sem lögum um samkynhneigð og borgaraleg réttindi hinsegin fólks. Dæmi um það er Ísland þar sem mikill  kraftur færðist í þessa baráttu eftir 2000. Lykilatriði í því samhengi var nýr skilningur á ástinni þar sem réttlæti, frelsi og sjálfræði voru sett á oddinn. Erindið byggist á textarannsókn. Byggt er á frumheimildum jafnt sem síðari tíma heimildum.

Sólveig Anna Bóasdóttir

Lykilorð: réttlát ást, mannréttindi, hinsegin fólk

Smelltu hér til að horfa á upptöku erindis.

„Ég hef alltaf minni og minni áhuga á þessu hefðbundna sambandi“: Tilhugalíf fráskilinna framakvenna

Hér er rýnt í ástarreynslu kvenna á miðjum aldri sem hafa skilið við langtímamaka og eru að reyna að fóta sig í breyttum og sítengdum veruleika tilhugalífsins. Tekin voru djúpviðtöl við konur sem standa nokkuð ofarlega í vinnuhagkerfinu og þau greind með aðstoð hugtaka úr smiðju Önnu Guðrúnar Jónasdóttur, Evu Illouz og Pierre Bourdieu. Ýmislegt hefur breyst á vettvangi ástarinnar frá því þær voru þar síðast. Þeim finnst erfiðara nú en áður að upplifa sérstöðu og öðlast fullvissu um eigin og annarra ástartilfinningar og varanleika þeirra; þrenna sem taldist eitt sinn grundvöllur ástarsambands. Þær lifa ýmist meira í takt við neyslumenningu kynlífs og ástar eða eru í pásu frá ástinni sem birtist í óvirkni eða tímaböndum (e. situationship) og hafa samsamað sig frádrægum tengslum (e. negative relations). Konurnar hafa tileinkað sér ýmis gildi markaðarins til að finna með skjótum hætti þann ástarverðuga. Þær hafa sjálfar fundið á eigin skinni hversu auðvelt er að aftengjast mögulegu ástarviðfangi í skjóli tæknivæddrar fjarlægðar. Konurnar eru sjálfum sér nógar félagslega og efnahagslega og velja að búa einar. Þær eru ekki að leita aftur að sambúð þótt þær séu að leita að ást. Vegna óvissunnar sem ríkir í rómantískum tengslum hafa þessar konur lagt enn meiri áherslu á vinatengsl og kvennasamstöðu sem jafnframt nýtist til að verja sig ástararðráni.

Berglind Rós Magnúsdóttir

Lykilorð: ástarrannsóknir, valdatengsl, gagnkynhneigð

Smelltu hér til að horfa á upptöku erindis.

Ég sé þig: Gróteskur kvenleiki Kristínar Gunnlaugsdóttur í samhengi sjónrænnar auðvaldshyggju

Árið 2015 málaði listakonan Kristín Gunnlaugsdóttir verkið Ég sé þig. Verkið birtir okkur ógnandi dökka kvenveru, málað í  gróteskum karnivalstíl. Það má túlka áherslur verksins sem umsnúning á rómantískum hugmyndum um ljúfa ímynd ástarinnar, nokkuð sem er lýsandi fyrir verk Kristínar undanfarin ár. Það er í þessu samhengi sem áhrifin þurfa pólítískrar greiningar við. Hvernig getur krítískt verk sem þetta verið átakspunktur sem birtir okkur falið valdasamspil og kúgun í samfélagi samtímans? Í skoðun á þessu leita ég annars vegar til skoðunar bandaríska menningarfræðingsins Maryar Russo sem hefur rannsakað ímyndir gróteskra líkama kvenna í menningarlegu samhengi, hins vegar til kenninga ísraelska félagsfræðingsins Evu Illouz um tengsl ‘andhverfra tengsla’ (negative relations) og ‘sjónrænnar auðvaldshyggju’ (scopic capitalism) í valdbeitingu á grundvelli kynlífshegðunar og efnahags. Það er í þessu samhengi kynmyndar og valda sem síðari verk Kristínar Gunnlaugsdóttir tengjast; myndrænt uppbrot hennar á síðari árum er þannig einkennandi fyrir ástand heimsins, túlka má áhrifin sem listræna birtingarmynd og viðbrögð við ríkjandi ástandi andhverfra tengsla.

Hlynur Helgason

Lykilorð: andhverf tengsl, sjónræn auðvaldshyggja, grótesk kvenmynd

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  29/10, 2021 15:00
 • Málstofu lýkur
  29/10, 2021 16:45
Höfundar erinda
Prófessor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent
Háskóli Íslands / University of Iceland
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  29/10, 2021 15:00
 • Málstofu lýkur
  29/10, 2021 16:45