Atvinnulíf, kyn og samfélagsleg þátttaka

 


Söguleg fjarvera og hulinn atbeini. Ákall um sögu athafna kvenna með áherslu á textíl

Höfundar: Laufey Axelsdóttir, Þorgerður Einarsdóttir

Ágrip:

Kynjabil hefur lengi verið viðvarandi í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Konur eru í minnihluta þeirra sem stofna atvinnufyrirtæki og þar mæta þær margvíslegum hindrunum. Saga athafnakvenna og þátttaka þeirra í viðskiptum er þó meiri en sýnist, en hún hefur verið hulin í hefðbundinni sagnfræði og kynjasögu. Þetta á við um hefðbundin karlasvið en ekki síður um hefðbundin kvennasvið eins og textíl. Markmið erindisins er að auka sýnileika athafnakvenna og varpa ljósi á nokkra af þeim þáttum sem hafa átt þátt í að hylja framlag þeirra í sögu og samtíma. Meðal þess eru áhrif hjúskaparstöðu á fjárræði kvenna áður fyrr, aðgreiningin í einkasvið og opinbert svið, flokkanir í hagtölum, skilgreiningar fræðafólks á hugtakinu vinna og menningarbundin merking hugtaksins athafnamaður og athafnamennska. Í rannsókninni er notast við tilviksaðferð þar sem sjónum er sérstaklega beint að textíl. Stuðst er við innihaldsgreiningu fyrirliggjandi gagna, bæði opinberra gagna og annarra heimilda, hefðbundinna sem óhefðbundinna. Erindið mun bæta við fræðilega þekkingu og auka heildstæðan skilning á gerendahæfni kvenna í athafnamennsku og viðskiptum, og ekki síst textíl. Verkefnið er hluti af H2020 verkefninu CENTRINNO.

Efnisorð: kynjasaga, athafnakonur, textíll


Með lífið í lúkunum – handverksþekking á óvissutímum

Höfundar: Soffía Valdimarsdóttir, Svanborg R. Jónsdóttir

Ágrip:

Vinnumarkaður síðnútímans og starfsþróun einstaklinga einkennist af óstöðugleika og skertu starfsöryggi. Sífellt fleiri eru því sjálfstætt starfandi. Algengt er að nýta ýmsa persónubundna þekkingu ekki síður en formlega menntun til tekjuöflunar. Margir grípa til handverks í þessu sambandi enda gera samfélagsmiðlar fólki kleift að markaðssetja bæði þekkingu sína og afurðir með auðveldari hætti en áður. Samkvæmt nýlegri greiningu UNESCO eru skapandi greinar sá geiri efnahagslífsins sem vex hvað hraðast víða í heiminum í dag. Íslenskir hagvísar benda til þess að það sama sé uppi á teningnum hérlendis. Erindið greinir frá niðurstöðum rannsóknar sem hafði það að markmiði að kanna algengi og ástæður þess að nýta sér handverksþekkingu til tekna á Íslandi og þá sérstaklega hvenær það var gert. Spurningakönnun var lögð fyrir 1985 manna tilviljunarúrtak meðal búsettra á Íslandi 18 ára og eldri á netpanel Félagsvísindastofnunnar HÍ í nóvember og desember 2020. Svarhlutfall var 44% (n-882). Helstu niðurstöður sýna að 22% þátttakenda reyndust hafa nýtt sér handverksþekkingu til tekna einhvern tímann á ævinni. Athygli vekur að enginn marktækur kynja- og aldursmunur mældist þegar litið var til algengis eða ástæðna heilt yfir. Handverksþekking virðist hafa orðið mörgum nærtækt bjargráð á erfiðum tímum. 50% ástundenda fóru þessa leið til tekjuöflunar í kjölfar efnahagshrunsins 2008, ungir höfuðborgarbúar og fólk með sérfræðimenntun sérstaklega. Niðurstöður vekja spurningar um gildi og hlutverk handverks og handverksþekkingar í samtímanum. Fjallað verður um þær í ljósi ríkjandi menntaorðræðu sem staðsetur verkþekkingu og verk- og starfsmenntun skör lægra en hefðbundið bóknám.

Efnisorð: Handverksþekking, ótryggur vinnumarkaður, Skapandi greinar, Bóknámshalli


Kynjað óöryggi og stjórnarfyrikomulagi misréttis í starfsþróun doktora

Höfundar: Finnborg Steinþórsdóttir

Ágrip:

Að vinna gegn kynjaslagsíðu í ákvarðanatöku hefur verið skilgreint af evrópska rannsóknarsvæðinu sem eitt af þremur forgangsverkefnum til að vinna að kynjajafnrétti í háskólum, rannsóknum og nýsköpun. Kynjuð fjármál hafa það að markmiði að breyta stefnumótun og ákvarðanatöku til að stuðla að kynjajafnrétti. Nálgunin gengur út frá því að skipulag og stjórnun stofnanna sé ekki „kynhlutlaust“ eða hlutlægt tæknilegt verklag, heldur séu allar ákvarðanir pólitískar og hafa kynbundnar afleiðingar. Í þessari grein mun ég beina sjónum mínum að framgangi akademískra starfsmanna við háskóla á Íslandi. Rannsóknin byggir á stefnu- og stjórnunarskjölum, tölfræðilegum gögnum og hálf-stöðluðum viðtölum við sérfræðinga frá sjö háskólum. Niðurstöðurnar sýna að það er margt í framgangskerfum íslenskra háskóla sem endurspeglar „stjórnarfyrirkomulag misréttis“ (e. inequality regimes), þ.e. að starfshættir og ákvarðanataka sé hagstæðari fyrir suma hópa en aðra, sem ýti undir og viðhaldi kynjamisrétti og annars konar misrétti. Þetta birtist m.a. í megináherslu á rannsóknir, stigveldi vísindanna, óhlutdræga mælikvarða, matskennda afstöðu við mat á störfum akademísks starfsfólks, kynjaða verkaskiptingu og menningu „umönnunar-ábyrgðarleysis“. Niðurstöðurnar eru hluti af Gendersense verkefninu sem hefur það að markmiði að rannsaka og efla þekkingu á stjórnarfyrirkomulag misréttis sem þjónar innleiðingu kynjaðra fjármála í háskólum.

Efnisorð: Kynjafræði, Kynjuð fjármál, háskólar


 

Samfélagsleg þátttaka íbúa á Vestfjörðum

Höfundar: Svava Þorsteinsdóttir, Arndís Dögg Jónsdótti

Ágrip:

Í þessum fyrirlestri verður skoðuð samfélagsleg þátttaka íbúa á Vestfjörðum. Hvernig einstaklingar leggja sitt af mörkum í að halda menningarlegum fjölbreytileika í litlum byggðum og mikilvægi einstaklingsframtaks til að halda þar uppi virku félagsstarfi. Efnið er hluti af rannsókn sem framkvæmd var sumarið 2022. Markmiðið var að skoða lífssýn Vestfirðinga og þeirra sem þar búa. Hvernig svæðið hefur áhrif á þá sýn sem fólkið hefur. Rannsóknin var framkvæmd með óstöðluðum viðtölum við 11 einstaklinga búsetta á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum og á Ströndum. Lítill sem enginn viðtalsrammi var í viðtölunum en fyrsta spurning var alltaf “getur þú sagt okkur frá sjálfum þér”. Eftir það var spurt út í það sem fram kom í viðtalinu. Viðtölin voru tekin upp, teknar voru vettvangsnótur og hönnunarnemi tók myndir af hverjum viðmælanda, efni eða hlutum sem þóttu mikilvægir ásamt því mynd var tekin af eldhúsglugga hvers þátttakanda. Meðal helstu ályktana sem draga má af rannsókninni er hversu gífurlega miklu máli einstaklingsframtakið og samfélagsþátttaka skiptir í smærri bæjarfélögum. Þetta er málefni sem var mikið rætt á einn eða annan veg í hverju viðtali. Nauðsynlegt er fyrir íbúa að taka þátt í dagskrá sem í boði er svo mögulegt sé að halda úti virku félags- og menningarstarfi innan bæja og byggðarlaga. Framlag einstaklingsins til menningar- og félagsmála innan samfélagsins getur haft jákvæð áhrif á hvernig einstaklingur upplifir eigið virði í samfélaginu sem stuðlar að aukinni virkni sem aftur eflir samfélagið sem þau tilheyra.

Efnisorð: Eigindlegar rannsónaraðferðir, Sjálfsmynd, Samfélagsþáttaka

 

Upplýsingar
Upplýsingar