Börn sem búa við fátækt og erfiðar aðstæður

Málstofustjóri: Guðbjörg Ottósdóttir
Börn í ábyrgðarhlutverki

Erindið fjallar um börn í ábyrgðarhlutverki (e. young carers). Börn í ábyrgðarhlutverki eru skilgreind sem börn sem bera töluverða ábyrgð á að aðstoða og þjónusta foreldri eða aðra ættingja vegna veikinda þeirra, fötlunar eða annarra félagslegra erfiðleika, yfirleitt í samhengi fátæktar, veiks stuðningsnets og skorts á opinberri þjónustu.

Markmið erindisins er að varpa ljósi á stöðu þessara barna, eðli og umfang ábyrgðarhlutverks og helstu skammtíma og lang­tíma afleiðingar sem umfangsmikið ábyrgðarhlutverk getur haft á heilsu og velferð barna. Börn í ábyrgðarhlutverki hafa víða erlendis fengið athygli á meðal rannsóknarfólks og löggjafa. Í erindinu er fjallað er um helstu niðurstöður rannsókna, með áherslu á breskar rannsóknir en bretar hafa verið í fararbroddi í rannsóknum og stefnumótun í þjónustu við börn í ábyrgðar­hlutverkum. Greint er frá helstu réttindum barna og  áherslum í velferðarþjónustu við börn í ábyrgðarhlutverkum.

Guðbjörg Ottósdóttir

Reynsla íslenskra barna af því að alast upp við fátækt

Í samtímahugmyndum um bernskuna er því haldið fram að bernskan sé sjálfstætt skeið þar sem börn eru gerendur í eigin lífi. Því sé bernskan annað og meira en einskonar aðlögunarstig (e. transitional phase) að fullorðinsárum. Á síðustu árum hefur verið lögð áhersla á að unnar séu rannsóknir þar sem varpað er ljósi á reynslu barna út frá þeirra sjónarhorni, ekki síst þeirra sem hafa þurft sérstakan stuðning eða búið við félagslega erfiðar aðstæður. Markmið erindisins er að varpa ljósi á reynslu barna af íslenskum uppruna af því að búa við fátækt. Tekin voru 11 eigindleg viðtöl við börn sem hafa alist upp á heimili þar sem fjölskyldan hefur þurft á sérstöðum stuðningi að halda vegna fjárhagslegra erfiðleika. Niðurstöður benda til þess að börn sem hafa alist upp við fátækt búi yfir mikilvægri reynslu sem þau eru hæf til þess að miðla sé réttum aðferðum beitt við öflun upp­lýsinga. Mikilvægt er að hlustað sé á raddir barna sem hafa reynslu af því að alast upp við fátækt ef ná á því markmiði að útrýma fátækt líkt og stefnt er að með Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Soffía Hjördís Ólafsdóttir og Hervör Alma Árnadóttir

Seigla: „Maður vildi alltaf sýna að maður væri bara hress og harður“

Markmið rannsóknarinnar var að skoða seiglu einstaklinga sem bjuggu við líkamlegt ofbeldi í æsku. Leitast var við að varpa ljósi á hvernig seigla þróast og hvaða einkenni einstaklingar sem búa yfir henni, hafi að bera. Þá var leitast við að skoða tengsl þeirra við gerendur á fullorðinsárum og einnig hvaða afleiðingar þeir væru að fást við, þrátt fyrir seigluna. Rannsóknin er gerð með eigindlegri aðferð og voru tekin viðtöl við sjö einstaklinga sem allir höfðu búið við líkamlegt ofbeldi í æsku. Þátttakendur voru valdir með markmiðsúrtaki. Þátttakendurnir þurftu að uppfylla skilyrði um að stunda nám og/eða vinnu og eiga hvorki við vímu­efnavanda að stríða né vera með greinda geðröskun. Viðtölin voru tekin í október 2017. Helstu niðurstöður voru þær að allir viðmælendur voru í litlum tengslum við gerendur á fullorðinsárum. Allir viðmælendur bjuggu yfir afleiðingum sem snéru að sjálfstrausti og óöryggi sem lýsti sér í því að þeir teldu sig aldrei vera nógu góða. Fimm viðmælendur af sjö höfðu einn eða fleiri fullorðna aðila sem þeir gátu leitað til í æsku. Flestir viðmælendur höfðu einnig sínar skýringar á ofbeldinu. Nokkrir töldu foreldra hafa verið veika án þess að fyrir lægju greiningar á því. Aðrir töldu mikið skap vera ástæðuna og að foreldrar hefðu ekki kunnað aðrar aðferðir en að refsa.

Thelma Eyfjörð og Freydís Jóna Freysteinsdóttir

Skortur og félagsleg áhrif: Upplifanir barna af erlendum uppruna af fátækt

Orsakir fátæktar hjá börnum innflytjenda og áhrif fátæktar á líf þeirra eru með svipuðum hætti og hjá öðrum hópum barna. Hins vegar eru ákveðnar aðstæður hjá þessum hópi sem eru sterkari orsakaþáttur en hjá öðrum hópum barna. Fjallað er um niðurstöður rannsóknar á reynslu barna af erlendum uppruna af fátækt. Markmið rannsóknarinnar var að skoða upplifun þessara barna af því að búa við fátækt. Tekin voru átta eigindleg viðtöl við átta börn. Samkvæmt frásögnum barnanna stafaði fátæktin einkum af bágri tekjustöðu heimilis sem tengdist atvinnuleysi og/eða heilsubresti foreldra. Börnin lýstu skorti á ýmsum sviðum, þar á meðal í tengslum við húsnæði, nám og samveru með vinum. Þau upplifðu stöðu sína markast m.a. af skammri dvöl fjölskyldu þeirra á Íslandi, tungumálahindrunum foreldra og erfiðleikum foreldra við að finna vinnu, en töldu einnig þörf á betri þjónustu við fjölskylduna. Upplifun barnanna af áhrifum fátæktarinnar var um margt svipuð og hjá börnunum af íslenskum uppruna sem fjallað er um í fyrra erindi málstofunnar, en að ýmsu leyti ólík. Niðurstöðurnar varpa ljósi á mikilvægi þess að fanga sjónarhorn barna í ólíkum aðstæðum sem lið í því að koma betur til móts við þarfir barna sem búa við fátækt.

Freydís Jóna Freysteinsdóttir

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  01/11, 2019 15:00
 • Málstofu lýkur
  01/11, 2019 16:45
Höfundar erinda
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  01/11, 2019 15:00
 • Málstofu lýkur
  01/11, 2019 16:45