Byggðafesta og búferlaflutningar

Málstofustjóri: Matthias Kokorsch

Sami, gamli þorparinn. Um þorp og borg í íslenskum kvikmyndum í ljósi byggðaþróunar

„Í næstu viku hefjast tökur á hryllingsmynd úr smiðju Bollywood á norðanverðum Vestfjörðum. Tökur fara fram í Holti í Önundar­firði, á Ísafirði og á flugvellinum á Ísafirði. Myndin verður ákveðið tilraunaverkefni því að í myndinni verður enginn söngur, dans né litagleði heldur íslenskur drungi… Kvikmyndin verður í fullri lengd og miðast við að fanga „cabin fever“ tilfinningu.“ Þessi orð lét íslenskur kvikmyndagerðarmaður falla í viðtali í Ríkis­útvarpinu í febrúar 2017. Þótt ekkert hafi enn orðið af innrás Bolly­wood til Önundarfjarðar er fréttin stórmerkileg. Hvað veldur því að kvikmyndagerðarmenn, meira að segja þeir sem búa hinum megin á hnettinum, líta til Vestfjarðakjálkans í leit að erki-þorpinu, þorpinu sem heldur fólki föngnu í klóm örvænt­ingar? Er skýringarinnar ef til vill að leita í þeirri mynd sem íslenskir kvik­myndagerðarmenn hafa dregið upp af íslenskum þorpum í gegnum tíðina? Hér verður íslensk kvik­mynda­saga skoðuð með hliðsjón af byggðaþróun í landinu. Rakið verður hvernig sveit, þorp, bæir og borg(ir) hafa birst á hvíta tjaldinu og hvaða breyt­ingum birtingarmynd slíkra byggða hefur tekið í gegnum tíðina. Sérstaklega verður staldrað við þorpið sem sögusvið í ljósi áhuga Bollywood á „drungalegum“ vestfirskum þorpum. Þegar birt­ingar­­myndir byggðarlaga eru skoðaðar frá byggðafræðilegu sjónar­­horni, eins og hér er gert, kemur í ljós að íslenskar kvik­myndir eiga ríkan þátt í að festa í sessi staðalmyndir. Þorpið er staðnað; þorpararnir fastir í klóm fortíðar. Nútíminn er hinum megin við linsuna.

Brynhildur Þórarinsdóttir og Þóroddur Bjarnason

Byggðafesta innflytjenda í smáum þéttbýlisstöðum á Íslandi

Fólki af erlendum uppruna hefur fjölgað mikið á Íslandi á undanförnum árum. Rannsóknir sem fjalla um viðhorf til búsetu í smærri byggðum hafa hingað til að mestu beinst að innlendum íbúum. Í erindinu er sjónum sérstaklega beint að viðhorfum innflytjenda í slíkum byggðum til búsetu og búferlaflutninga. Umfjöllunin byggir á niðurstöðum net­könnunar sem lögð var vorið 2019 fyrir íbúa eldri en 18 ára í 56 byggðarkjörnum á Íslandi sem hafa innan við 2000 íbúa. Hún er hluti af stærra rannsóknarverkefni, Byggðafesta og búferla­flutningar, sem er samvinnuverkefni Byggðastofnunar og innlends og erlends fræðafólks. Svör bárust frá 30% íbúanna, en svör frá inn­flytjendum voru 5% af heildarfjölda svara.

Í könnuninni var spurt um búsetusögu, byggðafestu og búsetu­fyrirætlanir, áhrif atvinnu, menntunar, þjónustu og félagslegra tengsla á búsetufyrirætlanir. Spurt var um stöðu og fyrirætlanir aðfluttra íbúa af íslenskum og erlendum uppruna; og kynjamun í búsetufyrirætlunum. Niðurstöður könnunar­innar sýna meðal annars að innflytjendurnir sem svöruðu könnuninni hafa heldur minni byggðafestu en innlendir, en þó er munurinn ekki mikill og fer meðal annars eftir því hvar þeir hafa alist upp.

Unnur Dís Skaptadóttir

Menntun og byggðafesta

Nýlegar og eldri tölur benda til að vilji fólks til að flytja brott af landsbyggðinni eykst með hærra menntunarstigi. Einnig að tilvist mennta- og menningarstofnana úti á landi auki menntunarstig þar. Getur það þá verið bjarnargreiði við landsbyggðina að byggja upp menntastofnanir þar? Í þessu erindi verður fjallað um hver áhrif menntastofnana eru á menntunarstig á landsbyggðinni og áhrif þeirra á lífsgæði og velferð íbúanna sem og búferlaflutninga þar. Stuðst verður við gögn nýrrar skoðanakönnunar sem gerð var meðal íbúa í litlum þorpum á Íslandi þar sem rúmlega 6.000 tóku þátt. Einnig verður stuðst við gögn könnunar sem gerð var á landsbyggðinni árin 2016 og 2017 þar sem þátttaka var sambærileg. Í seinni könnuninni var öllum íbúum í smærri þorpum á landsbyggðinni boðin þátttaka með bréfi. Seinni könnunin byggði á tilviljunar­kenndu úrtaki sem náði til allrar landsbyggðarinnar utan Norðurlands eystra og Austurlands. Um vefkönnun var að ræða báðum tilvikum. Niðurstöður benda til að menntun stuðli að meiri lífsgæðum fólks í dreifbýli þar sem fólk með meiri menntun njóti þeirra betur en þeir sem minni menntun hafa. Enn fremur, þótt menntaðir einstaklingar séu líklegri til að flytja brott þá fjölgar menntuðu fólki á landsbyggðinni. Uppbygging mennta- og menningarstofnana á landsbyggðinni er ekki bjarnargreiði við hana heldur þvert á móti.

Vífill Karlsson

Búsetusaga og búsetufyrirætlanir þorpsbúa

Erindið byggir á könnun sem lögð var fyrir í 56 byggðakjörnum með færri en tvö þúsund íbúa í tengslum við rannsóknar­verkefnið Byggðafesta og búferlaflutningar sem unnin er á vegum Byggðastofnunar í samstarfi við innlenda og erlenda háskóla. Könnunin fór fram vorið 2019 og alls bárust 5.643 svör frá fólki með fasta búsetu í viðkomandi byggðakjörnum, en það samsvarar um 30% allra íbúa 18 ára og eldri. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á mikinn hreyfanleika í smærri byggðar­lögum á Íslandi. Aðeins 16% svarenda eru rótföst í þeim skilningi að hafa hvergi annars staðar búið um ævina og næstum helmingur íbúanna ólst að miklu eða öllu leyti upp utan byggðarlagsins. Um tvö af hverjum þremur hafa einhvern tímann búið á höfuðborgarsvæðinu og litlu færri hafa einhvern tímann búið annars staðar á Íslandi. Þá hefur tæpur þriðjungur svarenda einhvern tímann búið erlendis. Atvinnutækifæri eru mikilvægasta einstaka ástæða þess að fólk segist ætla að flytja búferlum, en aðgengi að menningu og afþreyingu, heilbrigðis­þjónustu og verslun og þjónustu skiptir einnig verulegu máli. Hreint loft, kyrrð og ró, lítil hætta á afbrotum og lítil umferð skipta miklu máli fyrir áframhaldandi búsetu í byggða­kjörnunum. Talsvert fleiri þátttakendur töldu þessa þætti skipta miklu máli en atvinnumál, húsnæðismál eða nálægð við foreldra, börn eða barnabörn.

Þóroddur Bjarnason

Byggðafesta ungra kvenna – áhrifavald slúðurs

Byggðafesta kvenna í dreifðum byggðum hefur löngum verið verðugt rannsóknarefni og nokkuð hefur verið horft til þess togafls sem þéttbýlið hefur, þangað sem konur sækja í vinnu, menntun og þjónustu. Minna hefur verið horft til þess ýtiafls sem kann að vera til staðar í minni byggðum, allavega ekki er snýr að félags­legum þáttum. Fyrri rannsóknir á dreifðum byggðum hafa nefnt slúður sem áhrifaþátt, þar sem nálægð samfélagsins hafi áhrif á íbúa og búsetuánægju þeirra. Ekki hefur þó verið gerð eiginleg rannsókn á því og eftir stendur þá spurningin, getur verið að slúður hafi þann fælingarmátt að marktækt sé þegar horft er til búferlaáætlana?

Byggðastofnun sendi út umfangsmikla netkönnun í 56 byggða­kjarna á Íslandi vorið 2019 og var svörun góð. Markmið könnun­arinnar var kortleggja búferlaflutninga innan landsbyggðarinnar og gafst þar tækifæri til að skoða ólíka þætti sem kunna að hafa áhrif á búsetuánægju og búferlaáætlanir fólks, þar á meðal slúður. Í þessu erindi verður fjallað um niðurstöður í þeim hluta könnunarinnar sem snýr að slúðri en finna má marktæka teng­ingu við áætlanir um búferlaflutninga. Rannsóknin er partur af doktorsverkefni í Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, um áhrif nærsamfélagsins á búsetu ungra kvenna í sjávarbyggðum.

Gréta Bergrún Jóhannesdóttir

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 15:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 16:45
Höfundar erinda
Prófessor / Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Dósent / Associate Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Dósent / Associate Professor
Háskólinn á Akureyri/ University of Akureyri
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 15:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 16:45