COVID-19 og félagsþjónustan

Málstofustjóri: Halldór S. Guðmundsson
287_covid_felagsthjonusta

Heimsfaraldur af völdum Covid 19 hefur leitt til nýs skilnings á mikilvægi félagslegrar þjónustu sveitarfélaga og velferðarþjónustunnar almennt. Samhliða samfélagslegri og heilsufarslegri ógn reyndi á mikilvægi gæða og öryggis í þjónustu við notendur þegar koma að viðbrögðum og úrræðum félagsþjónustunnar við faraldrinum. Í málstofunni verða flutt þrjú erindi þar sem varpað er ljósi á stöðu þekkingar um samfélagsleg áföll og viðbrögð við þeim og reifaðar aðgerðir á vettvangi tveggja sveitarfélaga með sérstakri áherslur á hlutverk og úrræði félagsþjónustunnar á fordæmalausum tímum.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Mikilvægi velferðarþjónustu á tímum vár

Mikilvægi velferðarþjónustu í kjölfar vár hefur lítið verið rann¬sakað hérlendis. Rannsóknir á viðbrögðum við vá víða um heim hafa sýnt að velferðar- og félagsþjónusta leika stórt hlutverk við að tryggja öryggi og heilsu íbúa í kjölfar vár (Rapeli et al. 2017). Hérlendis sinnir félagsþjónusta sveitarfélaga grunn¬framfærslu og -þjónustu við fjölmarga hópa. Í erindinu verður fjallað um fyrstu viðbrögð yfirvalda vegna COVID-19. Í fyrstu var áhersla lögð eingöngu á heilbrigðisþjónustu en smám saman var þörfin fyrir félagsþjónustu einnig ávörpuð. Stjórn¬völd og stjórn¬endur félagsþjónustu gátu ekki stuðst við viðbragðs¬áætlanir fyrir félagsþjónustu heldur þurfti að ákveða hvert skref. Þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður Norrænnar saman¬burðar¬rannsóknar á viðbragðsáætlunum félags-þjónustu og hvort hún væri hluti af almannavarnakerfi hvers lands, en í henni kom í ljós að Ísland hafi að litlu leyti ávarpað þetta atriði í löggjöf og skipulagi almannavarna og félagsþjónustu.

Guðný Björk Eydal

Lykilorð: félagsþjónusta, vá, velferð

Áskoranir og úrlausnir í öldrunarþjónustu vegna COVID-19

Í COVID-19 faraldrinum fyrr á árinu var dregin varnarlína um þá íbúa samfélagsins sem teljast til viðkvæmra hópa. Þar á meðal voru notendur félagslegrar þjónustu sveitarfélaga eins og eldra fólk, fatlað fólk og fólk með langvinn veikindi og fólki sem stendur sérstök og aukin hætta af kórónaveirunni. Þar með varð að endurmeta þjónustuþarfir, samskipti og aðferðir við að veita þjónustuna hjá sveitarfélögum og gera það með hliðsjón af stöðu, heilsu og sóttvörnum notenda og starfsfólks í framlínu félagsþjónustunnar.

Í erindinu verða rakin dæmi um áskoranir og aðgerðir sem gerðar voru vegna Covid-19 í heimaþjónustu til eldra fólks, dag­dvalarþjónustu og innan dvalar- og hjúkrunarheimila á Akureyri. Meðal þess er aukið samstarf milli þjónustuaðila, notendur fengu úthlutað einum starfsmanni eða tengilið í stað fleiri heimsókna dag hvern. Það voru settar í gang reglulegar heim­sóknir í gegnum síma eða með myndsímtölum, umgengi og heimsóknir starfsmanna og aðstandenda takmarkaðar, notend­um og starfsfólki skipt í hópa eða sóttvarnarhólf, innskriftum í dagdvöl og hjúkrunarheimili frestað og starfsfólk sinnti í staðinn verkefnum heima hjá einstaklingum en ekki inn á dagdvöl eða á hjúkrunarheimilinu. Í lok erindisins verður velt upp spurningum um afleiðingar þessarar reynslu á hlutverk og mikilvægi félags­legrar þjónustu sveitarfélaga.

Ásthildur Sturludóttir og Halldór S. Guðmundsson

Félagsþjónusta sveitarfélaga og áfallastjórnun á tímum COVID-19

Meginmarkmið félagsþjónustu sveitarfélaga er að tryggja fjár­hags­legt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grund­velli samhjálpar, sbr. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Rannsóknir undanfarinna áratuga hafa sýnt að sveitar­félög ættu að leggja ríkari áherslu á að nýta þekkingu og bjargir félagsþjónustu og félagsráðgjafar þegar þau undirbúa og takast á við samfélagsleg áföll af öllu tagi. Félagsþjónustan hefur yfirsýn og upplýsingar um tjónnæma (e. vulnerable) hópa og viðnámsþrótt (e. resilience) samfélagsins auk þess að hafa þekkingu á félagslegum tengslum og virkni í samfélaginu sem hún starfar í.  Árangur áfallastjórnunar byggist á því að tiltækar séu áætlanir, skipulag og undirbúningur sem tekur mið af því umhverfi sem áfall verður í og hafa rannsóknir sýnt fram á mikil­vægi langtímaaðstoðar með sérstakri áherslu á fjölskyldur í þeirri vinnu. Erindið fjallar um skipulag og úrræði félagsþjónustu á starfssvæði Velferðarþjónustu Árnesþings í kjölfar Covid-19 í ljósi framangreindrar þekkingar. Athyglinni er sérstaklega beint að mikilvægi sérstakrar viðbragðsáætlunar félagsþjónustunnar, forgangsröðunar viðfangsefna og gerð gátlista til að auka öryggi og gæði þjónustunnar og að formlegri skráningu atburða og verkefna í þeim tilgangi að draga lærdóm af reynslunni.

Ragnheiður Hergeirsdóttir

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 11:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 12:45
  • Zoom Meeting id: 624 8383 6994
Höfundar erinda
Annað / Other
Annað / Other
Dósent / Senior Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Annað / Other
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 11:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 12:45
  • Zoom Meeting id: 624 8383 6994