COVID-19: Viðhorf og viðbrögð við heimsfaraldri

Málstofustjóri: Guðbjörg Andrea Jónsdóttir
Covid_og_vidbrogd

Í málstofunni verður fjallað um áhyggjur Íslendinga af Covid-19 faraldrinum, þátttöku í sóttvarnaraðgerðum, væntingar, hegðun, samskipti og viðhorf til aðgerða. Rýnt er í samspil þessara þátta og hvernig þeir hafa breyst eftir því sem faraldrinum hefur undið fram. Öll fjögur erindin byggja á spurningalistakönnunum sem lagðar hafa verið fyrir netpanel Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og unnar hafa verið fyrir eða í samstarfi við höfunda á tímabilinu frá 1. apríl 2020 fram í september 2020.

Sjá ágrip erindanna hér að neðan en til að horfa á málstofuna í heild sinni er hægt að smella hér.

Samspil félagshegðunar og faraldsfræði í fyrstu bylgju COVID-19

Aðgerðir stjórnvalda í fyrstu bylgju COVID-19 faraldursins á Íslandi fólust að miklu leyti í því að hafa áhrif á félagshegðun Íslendinga bæði með beinum reglum og tilmælum, auk þess sem faraldurinn sjálfur hafði áhrif á hegðun. Hér er sjónum beint að samspili félagshegðunar og útbreiðslu veirunnar, nánar tiltekið hvernig breytingar á hegðun fólks höfðu áhrif á þróun faraldursins. Byggt er á gögnum úr daglegri netkönnun sem Félagsvísindastofnun HÍ framkvæmdi á samskiptum, viðhorfum og aðstæðum Íslendinga, sem og gögnum frá Landlæknis­embætti Íslands um fjölda smita og fjölda einstaklinga í sóttkví á hverjum tíma. Svör um hversu marga einstaklinga svarendur höfðu verið í samskiptum við undanfarna tvo sólarhringa spáðu vel fyrir um það hversu margir einstaklingar þurftu í sóttkví fyrir hvert smit sem greindist á þeim tíma (þessi svör geta útskýrt ríflega 40% af breytileikanum yfir tíma). Í ljósi þess er mikilvægt að skilja hvað hefur áhrif á samskipti fólks í faraldri. Hlýðni við sóttvarnaraðgerðir, sem og hvort starf krefðist návígis, spáðu best fyrir samskipti fólks. Eftir því sem faraldrinum vatt fram minnkuðu þó áhrif hlýðni, en áhrif svara um störf jókst. Niðurstöðurnar kunna að gefa til kynna að yfir afmarkað tímabil geti viðhorf og hlýðni haft veruleg áhrif á hegðun, en að yfir lengra tímabil hafi aðstæður fólks og skipulag starfa meiri áhrif á þá hegðun sem ræður þróun faraldursins.

Magnús Þór Torfason, Sigrún Ólafsdóttir, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir og Jón Gunnar Bernburg

Viðhorf Íslendinga til mismunandi leiða við opnun landamæra á tímum heimsfaraldurs

Vaxandi útbreiðsla COVID-19 í Kína um og eftir áramótin 2020 olli í fyrstu ekki verulegum áhyggjum á Íslandi. Þetta breyttist þegar veirusýkingin var orðin að heimsfaraldri með hratt vaxandi fjölda tilfella af COVID-19 hér á landi, samkomubanni og 2-m reglu í samskiptum fólks. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa og greina viðhorf Íslendinga til aðgerða við landamærin til að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins. Tekið var 1983 manna tilviljunarúrtak úr netpanel Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Könnunin var framkvæmd 23. júní til 6. júlí 2020 og fengust svör frá 839 (42%) manns. Gögnin voru viktuð eftir kyni, aldri og búsetu svo þau endurspegluðu sem best samsetn­ingu landsmanna. Almenn ánægja (96%) var með aðgerðir stjórnvalda við fyrstu bylgju COVID-19 hér á landi. Meirihluti svarenda var á þeirri skoðun að beita ætti hörðum aðgerðum við landamærin. Svarendur voru frekar sammála eða mjög sammála aðgerðum eins og að setja alla í 14 daga sóttkví (37%), banna fólki að koma frá löndum þar sem heimsfaraldur geisar (63%) og banna Íslendingum að fara til slíkra landa (57%) eða eiga við­skipti við þau (7%). Konur voru almennt marktækt jákvæðari en karlar gagnvart ströngu eftirliti á landamærum en tekjur, búseta, menntun og stjórn-málaskoðanir svarenda höfðu einnig áhrif. Niðurstöður benda til þess að meirihluti landsmanna vilji harðar aðgerðir við landamærin til að koma í veg fyrir frekari dreifingu veirunnar á Íslandi.

Geir Gunnlaugsson og Jónína Einarsdóttir

Lykilorð: spurningakönnun, Covid-19, sóttvarnir

Væntingar og þátttaka almennings í sóttvarnaraðgerðum

Kynntar verða niðurstöður úr daglegum könnunum á þátttöku almennings í sóttvarnaraðgerðum þegar COVID-19 faraldurinn stóð sem hæst í apríl 2020. Könnunin veitir einstakt tækifæri til þess að skoða hvaða hlutverk væntingar hafa í því að virkja einstaklinga til þátttöku í sameiginlegum aðgerðum sem miða að sameiginlegum gæðum (e. collective action). Ástæðan er sú að könnunin er framkvæmd á meðan óvissuástand ríkir um ávinning aðgerða. Niðurstöður sýna að vissulega voru þeir sem áhyggjur höfðu af faraldrinum líklegri til þess að taka þátt í sótt­varnaraðgerðum. En auk þess höfðu væntingar um endanlegan árangur sóttvarnaraðgerða sterk tengsl við þátttöku; þeir sem töldu að aðgerðirnar myndu skila árangri voru líklegri til þess að taka þátt í sóttvarnaraðgerðum. En slíkar væntingar voru afar útbreiddar meðal almennings jafnvel í hinu mikla óvissuástandi sem ríkti í aprílbyrjun. Loks kemur fram hvernig skynjun á þátt­töku annarra skilyrðir áhrif bæði áhyggna og væntinga á þátt­töku í sóttvarnaraðgerðum. Áhyggjur af faraldrinum og vænt­ingar um árangur aðgerða höfðu veruleg tengsl við þátttöku þeirra sem tilheyrðu netverki þar sem þátttakan var lítil. En í netverkum þar sem þátttakan var mikil virðast persónulegar áhyggjur og væntingar um árangur skipta litlu máli fyrir þátttök­una; í slíkum netverkum var þátttakan einfaldlega mikil meðal þeirra sem þeim tilheyrðu, burtséð frá áhyggjum þeirra og væntingum.

Jón Gunnar Bernburg, Sigrún Ólafsdóttir, Magnús Torfason og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir

Lykilorð: Covid-19, sóttvarnaraðgerðir, þátttaka almennings

Samskipti á tímum COVID-19

Það er augljóst að COVID-19 faraldurinn hefur haft áhrif á samskipti okkar við aðra. Faraldurinn umbreytti daglegum sam­skiptum við okkar nánustu, samstarfsfólk og þá sem standa okkur fjær. Í þessari rannsókn skoðum við samskipti einstaklinga á þeim tíma sem COVID-19 faraldurinn var í hámarki. Annars vegar beinum við sjónum að jákvæðum samskiptum sem eru mæld sem tíðni samskipta við aðra og hins vegar skoðum við neikvæð samskipti sem eru mæld eftir því hvort samskipti við aðra hafi versnað. Til að svara þessum spurningum notum við gögn sem safnað var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í apríl 2020. Niðurstöðurnar sýna að fólk hefur aukið samskipti sín, en tæplega 50% segjast líklegri til að ræða áhyggjur sínar við aðra, og tæp 60% segjast hafa átt meiri samskipti við ættingja og vini í gegnum samskiptamiðla eftir að faraldurinn hófst. Hins vegar virðist ekki hafa orðið mikil aukning í neikvæðum sam­skiptum. Einungis um 4% segjast hafa átt verri samskipti við aðra á sama tíma. Jafnframt benda niðurstöður til þess að áhyggjur, atvinna og reynsla einstaklinga af faraldrinum, sem og að hluta til kyn og aldur, skipti máli fyrir það hvernig fólk hagaði sínum samskiptum á hápunkti faraldursins.

Sigrún Ólafsdóttir, Magnús Torfason, Jón Gunnar Bernburg og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir

Lykilorð: Covid-19, samskipti, heimsfaraldur

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  30/10, 2020 09:00
 • Málstofu lýkur
  30/10, 2020 10:45
 • Zoom Meeting id: 641 7774 0998
Höfundar erinda
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  30/10, 2020 09:00
 • Málstofu lýkur
  30/10, 2020 10:45
 • Zoom Meeting id: 641 7774 0998