Eldra fólk: heilsulæsi, sambúðarréttur og sjálfræði

Málstofustjóri: Sonja Stellý Gústafsdóttir
Heilsulæsi eldra fólks á Norðurlandi sem býr heima: Fyrstu niðurstöður

Heilsulæsi er skilgreint sem geta fólks til að eiga aðild að heilsu­tengdum upplýsingum og þjónustu. Tilgangur rann­sóknar­innar var að fá upplýsingar um stöðu heilsulæsis hjá eldri íbúum á Norðurlandi sem búa heima og kanna hvort munur er á heilsulæsi eftir t.d. búsetu, tekjum, menntun og mati á eigin heilsu. Um þversniðs- þýðisrannsókn er að ræða þar sem 303 þátttakendur, 65 ára og eldri í eigin búsetu á norðanverðu Íslandi, voru valdir með slembuðu lagskiptu úrtaki. Gagna var aflað með viðtölum þar sem listi sem metur heilsulæsi var lagður fyrir ásamt bakgrunnsspurningum. Lýsandi tölfræði og línulegri aðhvarfsgreiningu var beitt við greiningu gagna. Alls tóku 175 manns þátt (57,8% svarhlutfall) þar sem 75 bjuggu í dreifbýli. Meðalaldur var 74,2 (sf 6,3) ár, spönn 65-92 ár. Karlar voru 100 eða 57,1%, 40 bjuggu einir, 34,1% hafði lokið grunnskóla, en 12,7% lokið háskólaprófi. Niðurstöður benda til þess að um 42% þátttakenda eigi í erfiðleikum með heilsulæsi. Munur er á heilsu­læsi eftir menntun og innkomu, en ekki búsetu eða mati á eigin heilsu. Huga þarf betur að þörfum eldra fólks á heilsutengdum upp­lýsingum og þjónustu, sérstaklaga þeim efnaminni. Með rann­sókninni opnast möguleikar á þátttöku Íslands í alþjóð­legum rannsóknum á heilsulæsi.

Sonja Stelly Gústafsdóttir, Árún K. Sigurðardóttir, Sólveig Ása Árnadóttir og Lena Mårtensson

Áframhaldandi samvera: Undirbúningur hjóna fyrir efri árin

Undirbúningur hjóna fyrir efri ár getur verið flókinn þegar heilsubrestur verður hjá öðrum makanum í sambandinu. Markmið rannsóknarinnar var að komast að því hvaða áskorunum eldri hjón á Íslandi standa frammi fyrir. Rannsóknin var hluti af norðurslóðaverkefni um áskoranir eldra fólks í þeim löndum sem tilheyra Norðurskautsráðinu.  Framkvæmd var kerfisbundin leit á lýðfræðilegum breytum varðandi eldri hjón á Íslandi yfir tímabilið 2013-2017. Lesnar voru íslenskar rannsóknir, opinberar skýrslur, lög og fumvörp, greinar í dagblöðum og horft á sjónvarpsviðtöl á þessu tímabili. Við greiningu gagna var nouð inni­haldsgreining til að varpa ljósi á samfélagslega umræðu varðandi eldri hjón. Leitað var eftir ákveðnum þemum eða hug­tökum sem höfðu sömu merkingu til að finna mynstur í um­ræðunni sem hægt væri að rýna í. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að ein af mestu áskorunum sem eldri hjón á Íslandi standa frammi fyrir er hvort þau hafi sambúðarrétt á hjúkrunar­heimilum eða ekki. Til dæmis þegar einungis annað þeirra þarf á þjónustu að halda eða hvort þau séu í raun þvinguð til sam­búðarslita. Huga þarf betur að því hvernig þörfum eldri hjóna er mætt til undirbúnings fyrir efri ár varðandi eigin rétt til ákvarðanatöku og um lagalegan rétt þeirra til þjónustu.

Olga Ásrún Stefánsdóttir og Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir

Sjálfræði – Að hafa, geta og vilja

Sjálfræði er hugtak sem oft er haldið á lofti í umræðu um aðbúnað og aðstæður eldra fólks. Sjálfræði er hluti af óum­deildum siðferðilegum réttindum fólks. Sjálfræðið er um leið órjúfanlegur hluti kröfunnar um virðingu fyrir manneskjunni. Markmið þessa erindis er því að skoða hvaða hlutverk það hefur í tengslum við heilsulæsi og sambúðarrétt eldra fólks. Tilgátan er að hægt sé að nota hugtakið sjálft til að skýra og styðja við ákveðna þætti þar. Með kerfisbundinni yfirlitsgreiningu á kenningum og rannsóknum er hægt að framkvæma hagnýta hugtakagreiningu sem dregur fram eiginleika hugtaksins. Niðurstaðan er að sjálfræðið snýst ekki nema að hluta til um að ráða sér sjálfur. Í því felst einnig ákveðin ábyrgð sem er á herðum samfélagsins. Sú ábyrgð felst á því að tryggja að hinn aldraði hafi rými til nýta sér þá valkosti sem eru í boði og getu til að nýta sér þá. Það þýðir að framsetning þeirra sé á þann hátt að hin aldraði sé upplýstur út frá sínum forsendum og skilningur þannig tryggður. Að endingu er það sá hluti sjálfræðisins, sem snýr að valfrelsi, en það er hvort aldraðir sem einstaklingar kjósi að nýta sér þá valkosti sem í boði eru og þá út frá sínu gildismati.

Arnrún Halla Arnórsdóttir

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 11:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 12:45
Höfundar erinda
Prófessor / Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Dósent / Associate Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 11:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 12:45