FIBI – Hvernig börn, hvernig foreldrar? Áhrif stefnu mótunar og menningar á barneignir og foreldrahlut verkið

 


Hindrun eða hverrar konu draumur: Móðurhlutverkið í fjölmiðlum 1970-1979 og 2010-2019

Höfundar: Annadís Greta Rúdólfsdóttir, Auður Auðardót

Ágrip:

Í þessu erindi spyrjum við hvernig mæður lýsa móðurhlutverkinu í prentmiðlum, annarsvegar 1970-1979 og hinsvegar 2010-2019. Gögnum var safnað á tímarit.is en þar fékkst aðgangur að 67 viðtölum við mæður frá fyrra tímabilinu og 207 viðtölum frá seinna tímabilinu. Við greiningu á gögnunum var skoðað hvernig hrif og orðræður samtvinnast. Niðurstöður okkar sýna að orðræður um val eru ríkjandi á báðum tímabilum en þó með ólíkum hætti. Á fyrra tímabilinu leggja mæðurnar áherslu á að þær eigi tilkall til þess að taka þátt á vinnumarkaði og í námi – en þær sáu væntingar samfélagsins til þeirra sem mæðra sem hindrun á þeirri vegferð. Á seinna tímabilinu er minna um að móðurhlutverkið sé málað upp sem hindrun fyrir konur til að njóta fullrar samfélagsþátttöku. Þess í stað gangast mæðurnar fullkomlega við hinu norræna módeli þar sem konur eru útivinnandi mæður. Móðurhlutverkið er hér kynnt sem þeirra persónulega val og leið þeirra að því að öðlast lífsfyllingu. Einnig ber á þeirri hugmynd að móðurhlutverkið sé hið siðferðislega rétta val fyrir konur. Á báðum tímabilum hverfast ríkjandi fjölmiðlaorðræður um reynsluheim mæðra í forréttindastöðu hvað varðar stétt, uppruna og fleiri þætti. Rannsóknin bendir til þess að skilningur okkar á því hvað felst í móðurhlutverkinu, eins og hann birtist í opinberum orðræðum, hafi breyst töluvert á undanförnum 50 árum. Orðræður sem kynna móðurhlutverkið sem lykilinn að lífsfyllingu kvenna gefa tilefni til þess að staldra við og skoða á ný forsendur þess að konur teljist fullgildir þjóðfélagsþegnar óháð stöðu þeirra sem mæður.

Efnisorð: Mæður, fjölmiðlar, orðræður


”Manni líður eins og maður sé alltaf að stara í ginið á ljóninu”: Viðhorf ungra kvenna til barneigna

Höfundar: Sunna Símonardóttir, Hlédís Maren Guðmundsdóttir

Ágrip:

Lækkandi fæðingartíðni á Vesturlöndum má rekja til viðhorfsbreytinga gagnvart barneignum og félagslegra þátta á borð við aukna hagsæld, menntun, aukið kynjajafnrétti og breytinga á gildum og lífsmarkmiðum einstaklinga. Afleiðingar þessa breyttu viðhorfa birtast í lægri fæðingartíðni en einnig í fjölbreyttari fjölskylduformum og seinkun barneigna. Þar sem Ísland fylgir nú svipaðri þróun í frjósemi og önnur Norðurlönd er mikilvægt að skoða fæðingartíðni og frjósemishegðun í víðu samhengi. Fyrirliggjandi rannsóknir á viðhorfum til barneigna á Íslandi eru takmarkaðar og tilgangur þessarar rannsóknar er því að auka skilning á ákvarðanatöku ungra kvenna þegar kemur að barneignum. Markmiðið er að öðlast skilning á því hvernig ákvarðanir um barneignir mótast af ríkjandi hugmyndum um foreldrahlutverkið, félagslegum aðstæðum fólks, kynjuðum veruleika og opinberri fjölskyldustefnu. Í rannsókninni nýtum við rýnihópa og einstaklingsviðtöl til þess að greina viðhorf ungra kvenna til barneigna. Notast var við sjálfvalið úrtak þátttakenda og skilyrði fyrir þátttöku var að um væri að ræða barnlausa einstaklinga á aldrinum 25-30 ára sem væru búsettir á Íslandi. Alls tóku 14 einstaklingar þátt í rannsókninni en aðeins konur lýstu yfir áhuga á þátttöku. Greining viðtala varpar ljósi á það hvernig ungar konur upplifa foreldrahlutverkið sem kvíðavaldandi og líklegt til þess að hafa neikvæð áhrif á stöðu þeirra í samfélaginu, jafnt félagslega sem fjárhagslega, andlega og líkamlega. Áhyggjur af hamfarahlýnun eru leiðarstef í viðtölunum. Niðurstöður benda til þess að ungar konur eigi erfitt með að sjá fyrir sér hvernig þær geti uppfyllt vaxandi kröfur um „góða“ mæðrun í samfélagi sem einkennist af lífsgæðakapphlaupi, einstaklingshyggju og yfirvofandi loftslagssvá.

Efnisorð: Foreldrahlutverk, Fæðingartíðni, Jafnrétti, Ungt fólk


Fjölskylduábyrgð eftir fæðingu fyrsta barns og líkur á frekari barneignum

Höfundar: Ásdís Aðalbjörg Arnalds, Guðný Björk Eydal

Ágrip:

Fræðafólk hefur bent á að lækkandi fæðingartíðni á Vesturlöndum sé afleiðing þess að konur eigi erfitt með að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist á sviði kynjajafnréttis, er fjölskylduábyrgð frekar á herðum mæðra en feðra, víðast hvar, og Ísland er þar engin undantekning. Löggjöf á Íslandi miðar á margan hátt að því að jafna hlut karla og kvenna á vinnumarkaði og á heimilinu en samt er viðvarandi munur á stöðu og möguleikum karla og kvenna, ekki hvað síst sökum fjölskylduábyrgðar mæðra. Í erindinu er leitað svara við því hvernig fjölskylduábyrgð tengist líkum á á frekari barneignum foreldra sem áttu sitt fyrsta barn árið 2014. Byggt er á gögnum sem aflað var árið 2018 með netkönnun sem náði til allra foreldra barna á Íslandi, fædd árið 2014, og eru fyrstu börn mæðra sinna. Í könnuninni er spurt hvernig foreldrar hafa hagað atvinnuþátttöku og umönnun barnsins fyrstu þrjú æviárin, ásamt því að spyrja hvort þeir hafi eignast fleiri börn. Niðurstöður meðal foreldra sem voru í sambúð eða hjónabandi við fæðingu barns sýna að ef faðir tók virkan þátt í umönnun barnsins fyrstu tvö æviárin, jukust líkur á að foreldrar eignuðust annað barn. Enn fremur voru skilnaðir eða sambúðarslit algengari meðal para þar sem móðir bar meginábyrgð á umönnun barnsins. Niðurstöður sýna mikilvægi stefnumótunar sem hvetur til jafnrar fjölskylduábyrgðar beggja foreldra.

Efnisorð: Fjölskylduábyrgð, Fæðingartíðni, Barneignir


Varð Covid-19 til þess að Íslendingum fjölgaði?

Höfundar: Ari Klængur Jónsson

Ágrip:

Í sögulegu samhengi hefur frjósemi á Íslandi verið há og stöðug og mannfjöldinn sjálfbær með tilliti til fjölda barnsfæðinga. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 fór fæðingartíðni hins vegar lækkandi og árið 2015 fór fæðingarhlutfallið – lifandi fædd börn á hverja konu – niður fyrir 1,93 í fyrsta skipti. Árið 2020 var þetta hlutfall komið niður í 1,72 börn en jafnan er miðað við að hver kona þurfi að fæða sem samsvarar 2,1 barni á ævinni til þess að viðhalda mannfjöldanum. Fjöldi barnsfæðinga á síðasta ári benti til þess að þessu tímabili, sem einkenndist af sögulega lágri frjósemi, væri að ljúka. Það er áhugavert í ljósi þess að almenningur á Íslandi var í miðjum heimsfaraldri og bjó við óvissu og íþyngjandi samkomutakmarkanir sem settu daglegu lífi fólks miklar skorður. Jafnan er talið að undir slíkum kringumstæðum fresti fólk barneignum. Sú varð hins vegar ekki raunin. Í erindinu verður þeim spurningum velt upp hvort um tímabundna aukningu hafi verið ræða en ekki viðvarandi breytingu; og hvort Kórónuveiran hafi óbeint orðið til þess að barnsfæðingum fjölgaði. Nýtt voru gögn frá Hagstofu Íslands og þau greind með viðurkenndum aðferðum lýðfræðinnar. Niðurstöður sýna að aukningin í barnsfæðingum á síðasta ári sé tilkomin vegna hærri fæðingartíðni meðal mæðra en ekki barnlausra kvenna. Þá benda niðurstöður til þess að um tímabundna aukningu sé að ræða. Undirliggjandi lýðfræðilegir þættir geta skýrt þennan viðsnúning en kringumstæðurnar sem Covid-19 skapaði gætu hins vegar hafa virkað sem hvati sem varð til þess að mæður flýttu frekari barneignum.

Efnisorð: Frjósemi, Covid-19, Lýðfræði


Upplýsingar
Upplýsingar