Fjölbreytileiki og vinnumarkaður

 


Einelti meðal jaðarsettra hópa á íslenskum vinnustöðum

Höfundar: Maya Staub, Ásta Snorradóttir, et.al.

Ágrip:

Einelti á vinnustöðum er alvarlegt og skaðlegt vandamál sem fyrirfinnst um allan heim. Rannsóknir sýna að jaðarsettir hópar verða í meiri mæli fyrir einelti en aðrir, sér í lagi ef útlit eða hegðan er ólík því sem talið er almennt. Lítið hefur þó verið rannsakað hvort jaðarsettir hópar fái jafna meðferð hjá stjórnendum vinnustaða og aðrir þegar lögð hefur verið fram kvörtun um einelti. Samkvæmt íslenskri reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað ber stjórnendum að vinna að bæði forvörnum og finna farsæla lausn ef eineltismál koma upp. Í þessari megindlegu rannsókn var kannað hvort jaðarsettir hópar á íslenskum vinnumarkaði, annars vegar einstaklingar greindir með skerðingu eða fötlun og hins vegar innflytjendur voru útsettari fyrir einelti en aðrir hópar. Þá var rannsakað hvort þolendur eineltis sem tilheyra þessum hópum voru ólíklegri en aðrir til að leggja fram kvörtun um einelti á vinnustað og hvort þeir fengu ólíka meðferð við kvörtunum en aðrir. Niðurstöður sýndu að báðir hóparnir voru líklegri en aðrir til að verða fyrir einelti á vinnustað. Hins vegar kom í ljós að innan við helmingur þeirra hafði lagt fram kvörtun sem er sambærilegt við aðra þolendur eineltis á vinnumarkaði. Einnig fengu þeir sambærilega meðferð á vinnustaðnum og aðrir hópar vegna kvörtunarinnar. Niðurstöður sýna að bæta þarf forvarnir í eineltismálum á íslenskum vinnumarkaði og þá sérstaklega varðandi jaðarsetta hópa. Einnig þarf að efla starfsfólk í að leggja fram kvörtun vegna eineltismála. Rannsóknin sýnir að stjórnendur koma ekki ólíkt fram við jaðarsetta hópa þegar unnið er að eineltismálum innan vinnustaða.

Efnisorð: Einelti, Íslenskir vinnustaðir, Jaðarsettir hópar, Eineltiskvartanir


Aldursfordómar á vinnumarkaði

Höfundar: Kári Kristinsson

Ágrip:

Með vaxandi þátttöku eldra fólks á vinnumarkaði hafa aldursfordómar fangað athygli vísindamanna og almennings. Það er skiljanlegt þar sem aldursfordómar geta haft alvarlegar fjárhagslegar og heilsufarslegar afleiðingar fyrir þolendur. Í þessari rannsókn eru aldursfordómar á íslenskum vinnumarkaði rannsakaðir með því að kanna hvort eldri umsækjendur séu metnir öðruvísi en yngri umsækjendur af ráðningaraðilum. Notast er við tilraunasnið þar sem ráðningaraðilum er skipt slembið í tvennt og þeir látnir meta ferilskrár (yngri/eldri). Niðurstöður okkar sýna að ráðningaraðilar vilja síður ráða eldri umsækjendur samanborið við yngri umsækjendur. Niðurstöður sýna einnig að eldri umsækjendur eru verr metnir með tilliti til líkamlegrar hæfni, heilsu og aðdráttarafls samanborið við yngri umsækjendur. Loks sýndu ungir og minna reyndir ráðningaraðilar fleiri merki um aldursfordóma en eldri og reynslumeiri ráðningaraðilar. Farið er yfir afleiðingar fyrir stofnanir og fyrirtæki ásamt því að undirstrikuð er nauðsyn þess að þjálfa ráðningaraðila.

Efnisorð: Aldursfordómar, Ráðningaraðilar, Vinnumarkaður


Sjálfboðavinna og tækifæri til þátttöku án aðgreiningar fyrir fólk með þroskahömlun

Höfundar: Stefan C. Hardonk, Line Melbøe

Ágrip:

Rannsóknir benda til þess að fatlað fólk upplifir hindranir í tengslum við þátttöku í atvinnulífinu. Í fræðilegu umræðunni um þátttöku fatlaðs fólks í vinnu og atvinnu hefur í gegnum tíðina verið mikil áhersla á þá vinnu sem unnin er á almennum vinnumarkaði eða í aðgreindum úrræðum fyrir fatlað fólk. Í þessari rannsókn er sviðsljósinu hins vegar beint að þátttöku einstaklinga með þroskahömlun í sjálfboðavinnu með það að markmiði að fá innsýn í hvernig slík þátttaka getur boðið upp á þátttöku án aðgreiningar (e. inclusion). Þekking sem skapast með þessum hætti getur nýst í að endurskoða stefnu yfirvalda og stuðningsúrræði sem veita fötluðu fólki þjónustu við þátttöku í vinnu. Rannsóknin byggir á viðtölum við 12 einstaklinga með þroskahömlun á Íslandi og í Noregi. Aðferð sameiginlegrar þemagreiningar (e. collective thematic analysis) var notuð til að lýsa þeim þáttum í reynslu þátttakenda sem tengjast upplifun þeirra af því að vera þátttakandi án aðgreiningar. Niðurstöður benda til þess að sjálfboðavinna býður upp á fjölbreytt tækifæri til þátttöku sem tekur mið af óskum, væntingum og hæfni fólks með þroskahömlun. Þátttakendur í rannsókninni upplifðu í gegnum þátttöku í sjálfboðavinnu meðal annars viðurkenningu, traust og tækifæri til að vera með vel metið framlag til vinnustaðarins og samfélagsins. Verkefnin sem þátttakendur tókust á við voru fjölbreytt og tengdust áhugasviðum og hæfni hvers og eins. Einnig fengu þátttakendur tækifæri til að læra nýja hæfni. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna mikilvægi fræðilegrar endurskoðunar hugtaksins ‚vinna‘ sem skref í áttina að atvinnulífi án aðgreiningar og viðurkenningu borgaralegra réttinda fatlaðs fólks.

Efnisorð: vinna án aðgreiningar, einstaklingar með þroskahömlun, sjálfboðavinna


Hversvegna velja leikskólakennarar að kenna í grunnskólum frekar en leikskólum?

Höfundar: Kristín Dýrfjörð

Ágrip:

Árið 2020 tóku ný lög gildi um eitt starfsleyfi fyrir alla kennara. Yfirlýst markmið stjórnvalda var að fella niður girðingar á milli skólastiga og sérstaklega var horft til þess að margir framhaldsskólakennarar voru á lausu eftir styttingu framhaldsskólans og kennara með réttindi vantaði inn í grunnskólakerfið. Hins vegar er ekki eins ljóst hvað stjórnvöld hugsuðu um leikskólann. Fyrir lagabreytinguna þurftu leikskólakennarar að sækja menntun ef ætlunin var að færa sig yfir í grunnskóla og halda réttindum sem kennarar. Leikskólinn stendur frammi fyrir alvarlega mönnunarvanda og sérstaklega er skortur á leikskólakennurum, þeim hefur fækkað hlutfallslega á síðustu árum samfara stækkun leikskólakerfisins. Markmið rannsóknarinnar var að vita hvers vegna leikskólakennarar kjósa að kenna í grunnskóla, hver sé helsti munurinn á starfsaðstæðum og öðru sem lýtur að starfi þeirra. Viðtöl voru tekin við 22 leikskólakennara sem kenna í grunnskólum í öllum landshlutum. Leitast var eftir að ræða við kennara sem höfðu skipt um starfsvettvang innan við fimm ár frá því að viðtalið átti sér stað. Helstu niðurstöðu benda til að þrátt fyrir að launakjör séu svipuð á milli skólastiga upplifa leikskólakennarar mikinn mun á starfsaðstæðum, bæði hvað varðar aðbúnað til að sinna starfinu sem þeir telja vera betri en innan leikskólans og varðandi manneklu og mönnun. Flestir upplifðu líka meiri virðingu í samfélaginu fyrir því að starfa í grunnskóla en leikskóla. Niðurstöður er hægt að nýta til að breyta starfsaðstæðum í leikskólum til að gera þær samkeppnisfærar við þær aðstæður sem leikskólakennurum býðst í grunnskólum.

Efnisorð: Vinnuaðstæður, Virðing, Leikskóli, Grunnskóli


Upplýsingar
Upplýsingar