Gæðastræti Háskóla Íslands

Málstofustjóri: Ragný Þóra Guðjohnsen

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Sýn nemenda, kennara og stjórnenda á gæði náms og kennslu: Tilviksrannsókn

Í erindinu er fjallað um gæði náms og kennslu í háskóla. Rannsóknin er hluti af rannsóknarverkefninu Samstarf kennara og nemenda um aukin gæði náms og kennslu sem fékk styrk úr kennslumálasjóði árið 2020. Markmið hennar er að skoða með tilvikssniði, sýn nemenda, kennara og stjórnenda við Háskóla Íslands á því hvað felst í gæðum náms og kennslu. Gagna var aflað með fjórum rýnihópaviðtölum með alls 15 nemendum, tveimur rýnihópaviðtölum með alls níu kennurum og fjórum einstaklingsviðtölum við stjórnendur. Niðurstöður benda til þess að nemendur, kennarar og stjórnendur séu um margt sammála um hvað felist í gæðum náms, svo sem að samskipti og samtal séu kjarni námssamfélagsins; mikilvægt sé að inntak náms svari kalli fagvettvangs; og að kennsluhættir séu í sífelldri þróun. Þá kom fram hjá nemendum að endurskoða þyrfti ýmsa kerfislæga þætti svo sem að auka þyrfti aðgengi að upplýsingum um fyrirkomulag námskeiða og kennsluáætlunum áður en námskeið hefjast. Bætt verklag gæti dregið úr úrsögnum og síðbúnum innritunum í námskeið í upphafi annar, nemendum og kennurum til hagsbóta. Gildi rannsóknarinnar felst í því að kalla eftir sjónarmiðum ólíkra hagsmunahópa um hvort og hvaða aðkomu nemendur hafa að þróun háskólanáms og kennslu. Rannsóknin er framlag til rannsókna á sviði kennsluþróunar í háskólakennslu á Íslandi og þá sér í lagi lóð á vogarskálar „samtals“ um þróun náms og kennslu þar sem áhersla er á að efla möguleika og virka þátttöku háskólanema.

Eygló Rúnarsdóttir og Ragný Þóra Guðjohnsen

Lykilorð: gæði náms og kennslu, sýn nemenda, kennara og stjórnenda, Háskóli Íslands

Sýn nemenda, kennara og stjórnenda á mati á gæðum náms og kennslu: Tilviksrannsókn

Í erindinu er fjallað um mat á gæðum náms og kennslu í háskóla. Rannsóknin er hluti af rannsóknarverkefninu Samstarf kennara og nemenda um aukin gæði náms og kennslu sem fékk styrk úr kennslumálasjóði árið 2020. Markmið hennar er að skoða með tilvikssniði sýn nemenda, kennara og stjórnenda á mati á gæðum náms og kennslu við Háskóla Íslands. Einkum er sjónum beint að kennslukönnun þar sem kallað er eftir mati nemenda á námi og kennslu. Gagna var aflað með einstaklingsviðtölum við fjóra stjórnendur, tveimur rýnihópaviðtölum með alls níu kennurum og fjórum rýnihópaviðtölum með alls 15 nemendum. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að nemendur, kennarar og stjórnendur telji kennslukönnun gegna hlutverki við að meta þætti sem snúa að námi og kennslu. Hún sé ákveðið stoðtæki fyrir stjórnendur og opnu spurningarnar séu til þess fallnar að styðja kennara í umbótastarfi. Á hinn bóginn séu ýmsir ágallar á þessu matsformi, bæði tæknilegir og þættir sem snúa að inntaki spurninganna, jafnréttissjónarmiðum og þátttökuhlutfalli. Að auki kom fram sú áhersla viðmælenda að samhliða kennslukönnun þyrfti að meta námið á fjölbreyttari vegu. Einkum var rætt um mikilvægi þess að auka samtal kennara og nemenda um þróun náms. Gildi rannsóknarinnar felst í því að kalla eftir sjónarmiðum ólíkra hópa námssamfélagsins um mat á gæðum náms og kennslu. Rannsóknin er jafnframt framlag til rannsókna á sviði kennsluþróunar í háskóla.

Ragný Þóra Guðjohnsen og Védís Grönvold

Lykilorð: mat á gæðum náms og kennslu, sýn nemenda, kennara og stjórnenda, Háskóli Íslands

Sýn nemenda, kennara og stjórnenda á aðkoma nemenda að þróun náms og kennslu: Tilviksrannsókn

Í erindinu er fjallað um aðkomu nemenda að þróun náms og kennslu í háskóla. Rannsóknin er hluti af rannsóknarverkefninu Samstarf kennara og nemenda um aukin gæði náms og kennslu sem fékk styrk úr kennslumálasjóði árið 2020. Markmið hennar var að skoða með tilvikssniði hvort og þá með hvaða hætti nemendur hafa aðkomu að þróun náms og kennslu við Háskóla Íslands. Gagna var aflað með fjórum rýnihópaviðtölum með alls 15 nemendum, tveimur rýnihópaviðtölum með alls níu kennurum og fjórum einstaklingsviðtölum við stjórnendur. Niðurstöður gefa meðal annars til kynna að þátttakendur eru sammála um mikilvægi þess að rödd nemenda heyrist og að þau hafi aðkomu að þróun náms og kennslu. Formlegar leiðir kerfisins, s.s. ráð og nefndir, virðast nemendum lítt kunnugar og að mati stjórnenda eru þær ekki skilvirk leið. Fram kemur að þátttökumenningin stendur ekki styrkum fótum og er einstaklingsbundin fremur en almenn. Fram kemur jafnframt að þjónustuvæðing náms er sterkur þráður í máli þátttakenda. Greina má hjá nemendum, kennurum og stjórnendum að þau telji óformlegt samtal fýsilega leið til þess að kalla eftir rödd nemenda. Gildi rannsóknarinnar felst í að beina sjónum að nemendamiðuðu háskólastarfi og sýn ólíkra hópa á aðkomu nemenda að þróun náms og kennslu við Háskóla Íslands. Rannsóknin er jafnframt lóð á vogarskálar „samtalsins“ um þróun náms og kennslu og framlag til rannsókna á sviði kennsluþróunar í háskólakennslu á Íslandi.

Lóa Guðrún Gísladóttir og Eygló Rúnarsdóttir

Lykilorð: aðkoma nemenda að þróun náms og kennslu, sýn nemenda, kennara og stjórnenda, Háskóli Íslands

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  29/10, 2021 13:00
 • Málstofu lýkur
  29/10, 2021 14:45
Höfundar erinda
Aðjúnkt
Háskóli Íslands / University of Iceland
Kennslustjóri
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Aðjúnkt / Adjunct lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  29/10, 2021 13:00
 • Málstofu lýkur
  29/10, 2021 14:45