Gagnreynt og gagnlegt vinnulag

Málstofustjóri: Halldór S. Guðmundsson

Í málstofunni verður fjallað um gagnreynt vinnulag (e.evidence based practice (EBP)). Þrjú erindi verða flutt um ólíka nálgun á viðfangsefnið, þar sem fjallað verður um skilgreiningar og hugtakanotkun EBP, niðurstöður rannsókna á viðhorfum til EBP og reynslu nemenda af því að takast á við Covid faraldur í vettvangsnámi sínu, gagnreynt vinnulag og viðbrögð á vettvangi á fordæmalausum tíma.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan og upptöku af málstofunni í heild sinni.

Fjölbreytileiki gagnreynds vinnulags (EBP)

Til að mæta síbreytilegum þörfum er kallað eftir nýjum hugmynda­fræðilegum áherslum innan velferðarþjónustunnar, breytt­ri starfsmenningu og tækifærum til starfsþróunar. Fagfólk er hvatt til að viðhalda faglegri færni sinni í stöðugu lær­dómsferli þar sem sí- og endurmenntun sé hinn daglegi veru­leiki og einkennist af reglubundinni leit að gagnreyndri þekk­ingu og gagnlegum nýjungum á sviðinu. Í þessu samhengi hafa fagmenn innan ýmissa ólíkra greina, þar á meðal félags­ráðgjafar, sýnt líkaninu um gagnreynt vinnulag áhuga og litið á það sem tækifæri til þess að bæta þjónustu og efla fagmennsku. Í erindinu verður fjallað um hugtök og skil­greiningar gagn­reynds vinnulags (e. evidence based) og leitast við að draga fram ólík sjónarmið og áherslur í notkun hugtaksins og mikilvægi skýrleika í umræðu um gagnreynt vinnulag og gagnreyndar aðferðir. Fjallað verður um átta ólík hugtök og skilgreiningar sem tengjast gagnreyndu vinnulagi og rakin dæmi um fjöl­breytileika gagnreyndra aðferða.

Halldór S. Guðmundsson

Lykilorð: evidence based practice, gagnreynt vinnulag, gagnreyndar aðferðir

Beiting gagnreynds vinnulags í velferðarþjónustu

Áhersla um aukna fagmennsku og gagnreynt vinnulag innan velferðarþjónustu hefur verið áberandi á síðustu áratugum. Umræðan hefur meðal annars snúið að því hvernig megi nýta niðurstöður rannsókna til þess að styðja faglegar ákvarðanir og gagnreynt vinnulag. Árið 2002 var sett fram þríliða líkan til þess að styðja fagfólk, þar á meðal félagsráðgjafa, við það að beita gagnreyndu vinnulagi í starfi. Þetta líkan hefur mætt andstöðu meðal hóps félagsráðgjafa sem telja það ekki samræmast starfs­aðferðum félagsráðgjafa eða þörfum notenda. Í erindinu verður fjallað um viðhorf félags­ráðgjafa til rannsókna og gagnreynds vinnulags og það sett í sögulegt samhengi. Megindleg rannsókn var gerð árið 2015 á viðhorfum starfandi félagsráðgjafa á Íslandi til rannsókna og gagnreynds vinnulags. Niðurstöður þeirrar rannsóknar benda til þess að félagsráðgjafar á Íslandi nýti niðurstöður rannsókna að takmörkuðu leyti í starfi en hafi almennt jákvætt viðhorf til gagnreynds vinnulags. Þrátt fyrir jákvætt viðhorf hafi þeir óljósar hugmyndir um hvernig beita megi gagnreyndu vinnulagi við ákvarðanatöku. Höfundur telur að þörf sé á umræðu og leiðbeiningu um beitingu gagnreynds vinnulags við ákvarðana­töku til þess að bæta gæði í velferðarþjónustu.

Hervör Alma Árnadóttir

Lykilorð: gagnreynt vinnulag, velferðarþjónusta, viðhorf

Faghandleiðsla- þróunarverkefni

Kynnt verður þróunarverkefni um faghandleiðslu og útgáfu bókar með samnefndu heiti, Handleiðsla- til eflingar í starfi. Vinnuvernd, fagvernd, mannvernd. Markmið verkefnisins er að styrkja faghandleiðslu  sem aðferð og  hliðarstólpa í faglegu starfi á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu, í því augnamiði að efla  fagþroska, vernda fagfólk fyrir ofurálagi  og afkastakröfum, og koma þannig í veg fyrir starfsþreytu og kulnun. Sérfræðingar hafa unnið hópstarf um fræðagrunn og þróun handleiðslu um langt  skeið, sem hér er kynnt, m.a. þróun, heimildayfirlit, efnissöfnun og vinnsla bókar.  Bókin sem er gefin út hjá Háskólaútgáfunni og Rannsóknasetri í barna og fjölskyldu­vernd, RBF, og jafnframt  kynnt  á veggspjaldi, er fræðslu-og kennsluefni um handleiðslufræði handa háskóla­nemum og fyrir fagfólk  á sviði félags-heilbrigðis  og mennta­vísinda. Þekkingin sem hér er miðlað kemur  að gagni fyrir yfirmenn og stjórnendur á sviði velferðarþjónustu og á vettvangi menntunar og uppeldisstarfa,  en einnig á stofnunum atvinnu­lífsins, þ.e. þróunar og þjónustu,  verslunar og viðskipta. Efnið spannar breitt svið handleiðslu þar sem 17 höfundar rita um sögu, hugmyndafræði og  þróun handleiðslu. Kynnt  eru ólík líkön og margvísleg aðferðanálgun, m.a. í erfiðum og ágengum málum, og fjallað um leiðir til að eflingar í starfi og vernda starfssjálfið gegn álagi og kulnun.

Sigrún Júlíusdóttir, Kristín Lilliendahl og Sveindís A. Jóhannsdóttir

Lykilorð: faghandleiðsla, fagþróun, kulnun

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  30/10, 2020 13:00
 • Málstofu lýkur
  30/10, 2020 14:45
 • Zoom meeting id: 694 6192 0883
Höfundar erinda
Researcher
Annað / Other
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Aðjúnkt / Adjunct lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Senior Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  30/10, 2020 13:00
 • Málstofu lýkur
  30/10, 2020 14:45
 • Zoom meeting id: 694 6192 0883