Gömul saga og ný: þjóðfræðiefni í feminísku ljósi

 


Konur kvenleiki og kynjuð valdatengsl í íslenskum þjóðsögum

Höfundar: Dagrún Ósk Jónsdóttir

Ágrip:

Þjóðsagnir geta sagt okkur margt um það samfélag sem þær tilheyra og endurspegla þann hugmyndaheim og jarðveg sem þær spretta úr. Úr sögnum má lesa viðhorf fólks, þær bera með sér hvað er æskileg og óæskileg hegðun og eru bæði mótaðar af samfélaginu og hafa mótandi áhrif á það. Það er því rík ástæða til að rannsaka og endurskoða sagnaarfinn út frá nýjum og gagnrýnum sjónarhornum. Í erindinu, sem byggir á doktorsrannsókn höfundar, verður gerð grein fyrir þeim hugmyndum um konur, kvenleika og kynjuð valdatengsl sem birtast í íslenskum þjóðsögum frá 19. og 20. öld. Fjallað verður um þann boðskap sem sagnirnar innihalda varðandi hlutverk kvenna og æskilega hegðun þeirra út frá þjóðfræði og kynjafræðilegum sjónarhornum en eigindlegum rannsóknaraðferðum var beitt við greiningu sagnanna og endurtekin þemu dregin fram. Sjónum er sérstaklega beint að óhlýðni, uppreisn og andófi kvenna og ofbeldi gagnvart konum. Hér virðast sagnirnar fyrst og fremst hafa stutt við ríkjandi hugmyndafræði um hvað þóttu vera æskileg hlutverk og hegðun kvenna. Þegar konur fara gegn þessum hugmyndum í sögnum birtast þær oft í neikvæðu ljósi, sem „mengandi“ eða hættulegar eða er refsað fyrir hegðun sína, oftast af körlum eða kirkjunni. Rannsóknin varpar ljósi á hve rótgrónar hugmyndir um hlutskipti kvenna eru og er mikilvægt innlegg í jafnréttisumræðuna.

Efnisorð: Þjóðsagnir, Þjóðfræði, Kvenleiki, Kynjafræði


Að fanga þig og tímann: Ljósmyndir Sigríðar Ingvarsdóttur og Ragnheiðar Bjarnadóttur

Höfundar: Sigurlaug Dagsdóttir

Ágrip:

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um ljósmyndasöfn Sigríðar Ingvarsdóttur og Ragnheiðar Bjarnadóttur en söfn þeirra eru varðveitt á Ljósmyndasafni Þingeyinga. Ljósmyndasöfn sem þessi veita tækifæri til að horfa til margra þátta ljósmyndarinnar sem fyrirbæris. Saga ljósmyndunar fléttast inní sögu Sigríðar og Ragnheiðar þar sem framþróun innan ljósmyndagreinarinnar hefur áhrif á líf þeirra beggja. Eins gefst tækifæri til að skoða hvernig hin persónulega notkun á ljósmyndinni, sem tæki til að muna liðna tíða og minnast þeirra sem eru okkur kærir, birtist í myndasöfnum sem þessum. Í tilviki Ragnheiðar, áhugaljósmyndarans, geyma sex albúm frásögn hennar og viðhorf til lífins en í tilviki Sigríðar, atvinnuljósmyndarans, má sjá þá hefð sem skapaðist hér á landi á seinni hluta 19. aldar að sækja ljósmyndastofuna heim og láta skrásetja ólík tímabil og viðburði ævinnar. Í gegnum ljósmyndasöfn sem þessi má nálgast ljósmyndina sem fjölbreytta heimild um menningu og samfélag en einnig sem persónulega heimild um líf einstaklinga, tengsl og samskipti. Fyrirlesturinn byggir á MA rannsókn minni í þjóðfræði frá 2021 og sýningunni Að fanga þig og tímann sem sett var upp hjá Menningarmiðstöð Þingeyinga 2018 -2019. Á sýningunni var úrval mynda úr báðum söfnum en einnig var stuðst við viss þemu til að birta ljósmyndir Sigríðar og Ragnheiðar í nýju ljósi en þau þemu tengdust t.d. sjálfsmynd, fjölskyldutengslum, menningarlegum hugmyndum um móðurhlutverkið og barnæskuna og hlutverki ljósmyndarans sem skrásetjara.

Efnisorð: Þjóðfræði, Ljósmyndir, Konur


Hvað var blinda í huga Álfkonunnar við Vatnsenda? Rýnt í staka þjóðsögu

Höfundar: Eva Þórdís Ebenezersdóttir

Ágrip:

Fötlunarskilningur verður til, og dreifist, þegar fólk segir sögur af fötluðu fólki. Sögur af fötluðu fólki, fyrr og nú, varpa ljósi á hugmyndir og skilning um þau sem þóttu öðruvísi. Það er mikilvægt er að segja, heyra og rannsaka slíkar sögur. Með því að sameina þjóðfræði og feminískan undirtón fötlunarfræða er hér kafað á dýptina í einni stakri sögn, Álfkonan hjá Vatnsenda úr safni Jóns Árnasonar. Ég mun kanna hvernig skilningur á blindu verður til í frásögninni og hvernig ein þjóðsaga kann að hafa áhrif á skilning þeirra sem hana heyra. Sagnagreiningin byggir á djúplestri og marglaga greiningu sagnatextans sem sett er í sögulegt samhengi tíma og rúms. Greiningin er svo sett samhengi við þjóðsagna- og þjóðtrúarfræði sem og fötlunarfræðilega umræðu um blindu sem félagslega skapað fyrirbæri. Hér verður því einnig skoðað hvernig þessi eina sögn gefur vísbendingar um þróun staðalímynda um blint fólk og hvernig fíngerð blæbrigði samhengis ráða þeim áhrifum sem staðalímyndin veldur, bæði þá og nú. Niðurstaðan er sú að sögnin sem við fyrstu sýn fjallar um álfkonu sem notar blindu sem refsingu gegn tveimur uppátækjasömum unglingsdrengjum er í raun flókin og marglaga birtingarmynd félags- og menningarlegs skilnings á blindu á ritunartíma sagnarinnar um 1860 og kann að auki að hafa haft áhrif í meðförum hefðarinnar bæði fyrir og eftir þann tíma. Hér er lögð til samtvinnuð nálgun þjóð- og fötlunarfræða til að varpa ljósi á eina staka, einstaka, þjóðsögu um yfirnáttúruleg kynni fólks og álfa og, raunverulegt eða ímyndað líf lifað með blindu.

Efnisorð: þjóðfræði, fötlunarfræði, þjóðsagnafræði, femenísk nálgun, blinda, þjóðsögur, sagnir, fötlun


Viðkvæmir fræðimenn og ambáttin í Ibn Fadlan: Upphafning, innvígsla eða kynferðisofbeldi?

Höfundar: Gerður Halldóra Sigurðardóttir

Ágrip:

Í frásögn Arabans Ibn Fadlan frá 10. öld af útför Rus-höfðingja við Volgu kemur fram að ungri ambátt hafi verið fórnað til að fylgja höfðingjanum í framhaldslífið. Frásögnin hefur verið þekkt meðal fræðimanna í fornnorrænum fræðum frá því í byrjun 19. aldar, þegar hún var fyrst þýdd á vestrænt tungumál og töluvert verið notuð í umfjöllunum um útfararsiði norrænna manna til forna, enda þótt tengslin milli þeirra og fólksins sem nefnt er „Rus“ í frásögninni séu ekki allsendis ljós. Segja má að ambáttin unga og þær athafnir sem að lokum leiða til aftöku hennar sé rauður þráður í gegnum alla útförina. Þrátt fyrir það hafa margir fræðimenn í gegnum tíðina gert nokkuð lítið úr hlutverki ambáttarinnar og að mestu horft fram hjá því sem hún gengur í gegnum, sum hafa jafnvel efast um sannleiksgildi þess hluta frásagnarinnar. Hér verður ambáttin, hlutverk hennar og þær þolraunir sem á hana eru lagðar, sem og dæmi um orðræðu fræðimanna um hana, skoðaðar frá gagnrýnu feminísku sjónarhorni með aðferðum orðræðugreiningar og marglaga lýsingar (e. thick description) Geertz. Við slíka rýni kemur í ljós að í fræðunum hefur verið tilhneiging til að breiða yfir, fegra eða upphefja það sem í frásögn Ibn Fadlan er á köflum skýrt hrottalegt ofbeldi. Rétt eins og frásgögnin sjálf, endurspegla fræðin tíðaranda, skilning og orðræðu síns eigin samtíma um kynferðisofbeldi. Markmið erindisins er að varpa ljósi á frásögnina og rannsóknarsögu hennar út frá okkar samtíma orðræðu og skilningi á kynferðisofbeldi.

Efnisorð: Kynferðisofbeldi, þjóðfræði, feminismi, rannsóknarsaga, fornnorræn trú


Sterk kona eða dúkka: Femenísk nálgun á fjallkonur Íslands

Höfundar: Anna Karen Unnsteins

Ágrip:

Fjallkonan er rótgróin hefð á 17. júní, fólk flykkist á Austurvöll til að sjá hvaða leikkona hljóti heiðurinn hvert ár. Síðustu ár hefur gætt aukins fjölbreytileika í vali leikkvennanna sem holdgera fjallkonuna og flytja nýtt ljóð eftir ljóðskáld sem hefur verið valið til verkefnisins. Í ár flutti fjallkonan ljóð um íslenska tungu með pólskum hreim og mörg fóru mikinn í kommentakerfum þar sem hart var vegið að konunni í búningnum og hreim hennar, en ekki að ljóðinu. Hér verður skoðað hvað fjallkonan táknar í hugum fólks og hvort hlustað sé á það sem hún hefur að segja. Erindið byggir á viðtölum við konur sem gengt hafa hlutverkinu og könnunum um viðhorf almennings frá árunum 2021 og 2022. Meðal annars var spurt um viðhorf kvennanna sjálfra gagnvart hlutverkinu og þau borin saman við hugmyndir almennings. Áhugavert er að mörg lýstu fjallkonunni sem sterkri sjálfsæðri konu, feminísku tákni fyrir landið en einnig er að finna mótsagnakennd þemu á borð við hlutgerfingu og þögn hinna raunverulegu kvenna sem bregða sér í búninginn. Sé umfjöllun fjölmiðla, saga og menningarlegt samhengi fjallkonunnar skoðað ásamt ýmsum hefðum í kringum hana kemur í ljós að hvorki konan í búningnum né fjallkonan sem fyrirbæri er jafn femenískt tákn og mörg vilja að hún sé. Í erindinu verða þessar og fleiri hugmyndir um fjallkonuna skoðaðar í gagnrýnu ljósi feminískrar þjóðfræði þar sem stuðst er við kenningar Baudrillard um fjórða stig veruleikans þar sem hann vísar eingöngu á sjálfan sig. Er fjallkonan sjálfstæð sterk kona eða dúkka feðraveldisins?

Efnisorð: Feminismi, Menningararfur, Fjallkonur


„Urrr“: Að afhjúpa dýrsröddina í íslenskum ísbjarnasögnum

Höfundar: Alice Bower, Kristinn Schram

Ágrip:

Að sjá eða eiga við ísbjörn er atvik sem sker sig úr hversdagsleikanum. Sagnir um samskipti manna og ísbjarna lifa í munnlegri geymd og þróast í tímans rás. Frásagnirnar geyma minningar um ísbirni en endurspegla einnig ríkjandi viðhorf innan mennsks samfélags. Þegar frásagnir eru skráðar og gefnar út, geyma þær raddir nafngreindra og ónafngreindra manna- oftast karlkyns. Rödd ísbjarnarins er oft fjarverandi, dulin eða undurskrifuð út frá mennsku sjónarmiði. Á síðustu öld hafa fræðimenn eins og Haraway og von Uexküll, lagt áherslu á hina dýrslegu upplifun. Leitast hefur verið við að „uppgötva þá orðlausa tjáningu dýra sem leynist í orðmörgum frásögnum manna“ (Flinterud, 2014). Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á upplifanir ísbjarna eins og þær birtast í ísbjarnasögnum en jafnframt að draga fram þær takmarkanir sem manneskjunni eru settar við það að setja sig í bjarndýrsspor. Stuðst er við frásagnagreiningu og lögð sérstök áhersla á lýsingar vitna á hegðun bjarndýra í því skyni að dýpka skilning á samskiptum þeirra við nýtt nærumhverfi og mennska ibúa þess. Einnig er beitt aðferð gangandi vettvangsrannsókna (e. walking ethnography) á slóðum ísbjarnasagna. Þessar rannsóknir leiða í ljós að í útgefnum þjóðsögum styðjast sagnamenn og safnarar oft við eigin hugmyndir um ferðir
ísbjarna án þess að haldbærar sannanir séu fyrir hendi. Félagslega mótaðar hugmyndir um kyngervi eru færðar yfir á ísbirni með tilliti til liffræðilegs kyns.

Upplýsingar
Upplýsingar