Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar

Málstofustjóri: Arndís Bergsdóttir
Náttúru-/virki   Menningararfur, söfnun og efnismenning barna í Mývatnshrauni

Ég hafði gengið um Mývatnshraun af og til í tíu ár en ég hafði aldrei komið auga á þau. „Sjáðu!“ sagði ferðafélagi minn sem ólst upp á sveitabæ við hraunræturnar. „Sjáðu, þarna er virkið okkar“. Ég pírði augun en kom bara auga á toppa hraunhólanna: minningar náttúrunnar um eldsumbrot árþúsundir aftur í tímann. Það var ekki fyrr en ég hafði klifrað hraunhellurnar upp á topp hólsins að ég sá það: Bjarg reis upp af toppi hólsins en hrauni hafði verið raðað nostursamlega frá öðrum enda til hins svo það myndaði hring. Ofan í hringnum lá hálfryðguð bárujárnsplata sem einhvern tímann hafði verið þak og skammt frá bein af ótilgreindu dýri. Börn í Mývatnssveit höfðu byggt þetta virki. Hraunið var leikvöllur þeirra, íþróttavöllur og vinnustaður þegar þau gættu kinda. Í þessari rannsókn er virkið skoðað samtímis sem kær hlutur og staður sem er samofinn náttúru, samfélagi, tíma og rúmi. Stuðst er m.a. við hugmyndir Gísla Pálsonar og Heather Anne Swanson um jarðarsambönd (e. geosocialities) sem varpar ljósi á óstöðug mörk menningar og náttúru eins og hún birtist í hefðbundnu skipulagi á safnkosti. Niðurstöður benda til þess að slíkur óstöðugleiki veiti opinberum skil­greiningum á menningararfi og safnkosti öflugt viðnám og veki upp tímabærar spurningar um rof, samtvinnanir og sjálfbæra framtíð.

Arndís Bergsdóttir

Vald fagurfræðinnar? Söfnun Matthíasar Þórðarsonar 1908-1947

Í þessum hluta öndvegisverkefnisins Heimsins hnoss, söfn efnis­menningar, menningararfur og merking er hluti af safnkosti Þjóð­minjasafns Íslands tekinn til skoðunar. Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á þær ólíku hliðar fortíðarinnar sem efnis­menning samfélagsins endurspeglar. Hér verður fjallað um hvernig fyrsti þjóðminjavörðurinn, Matthías Þórðarson sem starfaði frá 1908-1947, byggði upp safnkost Þjóðminjasafns Ís­lands og þær áherslur sem hann fylgdi eftir við söfnun gripa. Í erindinu verður meðal annars rýnt í áhugaverða gripi og gripa­flokka sem safnað var á tímabilinu og þeir settir í samhengi við hug­myndafræði safna þess tíma. Gildismat Matthíasar var leiðar­ljós við söfnun hans í fjóra áratugi og hafði það áhrif á þá heild safneignar sem var afraksturinn af því starfi. Þegar um er að ræða þjóðarsafn, þá skiptir máli hvort markmiðið sé að varð­veita helstu dýrgripi þjóðarinnar, úrval besta handverksins eða gripi sem endurspegla sögu þjóðarinnar. Stofnun og upp­bygging Þjóðminjasafnsins var liður í mótun þjóðríkisins, en söfnun Matthíasar verður rædd með hliðsjón af hugmyndum um hlutverk fagurfræði frá fyrri hluta 20. aldar. Velt verður upp spurningum um hvort birtingarmyndir þeirra í safnkostinum hafi verið tilraun til að hafa áhrif á þróun íslensks borgarasamfélags.

Anna Lísa Rúnarsdóttir

Hið breytilega samband manna og hluta. Efnismenning fortíðar og varðveisla samtímans

Efnislegir munir geta verið góð heimild um fortíðina, en þeir geta einnig sagt okkur töluvert um samtímann. Eigur fólks gefa okkur innsýn í hversdagslíf þeirra, en sumar þeirra eiga sér framhaldslíf sem safngripir sem áhugavert er að velta fyrir sér. Hér verður samband manna og hluta í fortíð og nútíð skoðað og hvernig það getur breyst. Nokkrar dánarbúsuppskriftir frá 19. öld og heimildir um efnismenningu þess tíma verða sýndar og hvers­dagslegir gripir í varðveislu Þjóðminjasafn Íslands frá sama tíma verða sérstaklega skoðaðir.

Markmið rannsóknarinnar er meðal annars að greina safnkost Þjóð­minjasafnsins frá 19. öld og bera hann saman við þá efnis­menningu sem dánarbúsuppskriftirnar gefa til kynna. Skoða hvað er efnismenning og hvaða áhrif hún hefur á varðveislu samtímans á munum frá fortíðinni? Hvers konar gripir koma frá fortíðinni og hverjir eru það sem „gleymast“? Efnistök þessa fyrirlesturs er hluti af doktorsrannsókn höfundar sem fjallar um efnismenningu í fortíð og nútíð. Hér verður rætt um frum­greiningu á safnkosti Þjóðminjasafns Íslands frá rannsóknar­tímabilinu og borið saman við eigur fólks frá 19. öld.

Anna Heiða Baldursdóttir

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 13:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 14:45
Höfundar erinda
Nýdoktor / Post doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 13:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 14:45