Íslenskar leiðir að kynjajafnrétti

Málstofustjóri: Ragna Kemp Haraldsdóttir
69_isl_kynjajafnretti

Á þessari málstofu verður fjallað um rannsóknir sem snúa að því sem einkennir íslenskar leiðir að kynjajafnrétti. Þar má nefna áhrif af þróun fæðingarorlofs úr 6 mánuðum í 9 mánuði sem og hlutverk foreldra í uppeldi barna. Þá verður einnig fjallað um áhrif jafnlaunastaðals á launajafnrétti

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Hvernig skipta foreldrar með sér umönnun barna á 21. öld?

Árið 2000 voru lög um fæðingar- og foreldraorlof (nr. 95/2000) samþykkt á Alþingi. Lögin vöktu alþjóðaatygli fyrir það að veita báðum foreldrum jafnan rétt til töku þriggja mánaða óframseljanlegs orlofs og þegar lögin voru sett veitti ekkert annað land feðrum jafn margar vikur í fæðingarorlofi með sambærilegum greiðslum. Í erindinu verður fjallað um hvernig tekist hefur að uppfylla markmið laganna um að tryggja barni samvistir við báða foreldra. Megindlegra gagna var aflað með viðamiklum könnunum meðal foreldra sem áttu sitt fyrsta barn árin 1997, 2003, 2009 og 2014. Gögnin gefa einstakt tækifæri til að greina hvernig þátttaka beggja foreldra í umönnun fyrsta barns hefur þróast frá því lögin tóku gildi og hvort breyting hafi orðið á því hvaða hópar foreldra nýta fæðingarorlof og skipta umönnun jafnt á milli sín. Niðurstöður sýna að frá því lög um fæðingar- og foreldraorlof tóku gildi hafa feður jafnt og þétt aukið þátttöku sína í umönnun fyrsta barns. Töluverður munur er á þátttöku beggja foreldra í umönnun eftir hjúskaparstöðu, menntun og stöðu á vinnumarkaði. Í áranna rás hefur þó orðið nokkur breyting á því hvaða hópar það eru sem nýta fæðingarorlof og skipta umönnun jafnt sín á milli.

Ásdís A. Arnalds, Guðný Björk Eydal og Ingólfur V. Gíslason

COVID og kynjajafnrétti

Covid-19 faraldurinn er áhugaverður frá mörgum sjónarhornum og ekki síst kynjajafnrétti. Faraldurinn hefur raskaði mjög atvinnulífi og heimilislífi, með lokun vinnustaða, heimavinnu og fleiri þáttum. Áhugavert í því samhengi er hvort einhverjar breytingar hafi orðið á stöðu og samskiptum kynjanna í tengslum við foreldrahlutverk. Að frumkvæði Utrecht háskólans var hrint úr vör fjölþjóðlegri rannsókn sem ber heitið “Gender (In)equality in Times of COVID-19”. Í þessari rannsókn er reynt að komast að því hvort og þá hvernig viðbrögð stjórnvalda og vinnumarkaðar hafi haft áhrif á stöðu feðra og mæðra, innan og utan heimila. Á Íslandi var spurt um hvaða áhrif faraldurinn hefur haft á aðstæður í vinnu og heima frá því að hann hófst og þar til samkomubanni var að hluta til aflétt 4. maí sl. Þessar spurningar sneru m.a. að samkomulagi og ágreiningi í parsamböndum varðandi skiptingu heimilisstarfa, skiptingu launavinnu og umhyggju barna. Spurningakönnun var framkvæmd af Gallup eftir að samkomubanni lauk og var þátttökuhlutfall 49%. Nokkuð ósamræmi er í svörum karla og kvenna varðandi umhyggju barna en þó er samræmi hvað það varðar að karlar hafi aukið þátttöku sína eftir að faraldurinn hófst. Þá dró úr ágreiningi maka um alla þætti sem spurt var um eftir að faraldurinn hófst.

Ingólfur V. Gíslason, Guðný Björk Eydal og Tómas Bjarnason

Lykilorð: COVID, kynjajafnrétti, barnaumhyggja

Innleiðing jafnlaunastaðals

Innleiðing jafnlaunastaðals í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla var staðfest með breytingartillögu L. 56/2017 sem tók gildi þann 1. janúar 2018. Í lögunum er krafist að vinnustaðir, þar sem að jafnaði 25 eða fleiri starfa á ársgrundvelli, öðlist jafnlaunavottun að undangenginni úttekt vottunaraðila. Vottunin staðfestir jafnlaunakerfi og framkvæmd þess gagnvart kröfum gæðastaðalsins ÍST 85/2012. Innleiðing jafnlaunastaðals er í mörgum tilvikum fyrsta reynsla vinnustaða af því vinnulagi sem krafist er í gæðastöðum svo sem  upplýsinga- og skjalastjórn. Í þessari rannsókn er kannað hvernig staðið er að innleiðingu jafnlaunastaðals. Eins er skoðað hvernig ýmsir hagsmunaaðilar og almenningur hafi brugðist við lögleiðingu staðalsins. Í rannsókninni eru höfð til grundvallar 24 hálfstöðluð viðtöl við fagfólk hjá átta ólíkum vinnustöðum auk textagreiningar á gæðastaðlinum ÍST 85/2012, innsend erindi og umsagnir um lögleiðingu staðalsins sem bárust Alþingi og fjölmiðlaumræða. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að vinnustaðir hafi ekki tekið nauðsynleg skref fyrir innleiðingu jafnlaunastaðals. Ferlið hafi verið tímafrekt og ýmsar hindranir í veginum, ekki síst varðandi upplýsinga- og skjalastjórn. Þetta er áhyggjuefni í ljósi þess fjölda vinnustaða sem enn eiga eftir að innleiða staðalinn fyrir lok árs 2022. Textagreining leiddi í ljós gagnrýnisraddir sem beindust að lögleiðingu staðalsins og markmiðum hans. Gagnrýnisraddir beindust einnig að stöðu eftirlitsaðila sem skortir fjármagn og mannafla til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu af krafti.

Ragna Kemp Haraldsdóttir

Lykilorð: jafnlaunastaðall, upplýsinga- og skjalastjórn, gagnrýni

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 15:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 16:45
  • Zoom meeting id: 683 0378 3296
Höfundar erinda
Sérfræðingur / Specialist
Annað / Other
Lektor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Nýdoktor / Post Doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 15:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 16:45
  • Zoom meeting id: 683 0378 3296