Karlar, karlmennskur og jafnrétti í sýnd og reynd

Málstofustjóri: Þorgerður J. Einarsdóttir

Karlar og hugmyndir um karlmennsku verða æ mikilvæga viðfangsefni kynjafræða og jafnréttisumræðu. Það kallar á rannsóknir á körlum og karlmennsku á margvíslegum vettvangi í heimi sem metur hið karllæga ofar hinu kvenlæga. Hugtökin vísa í senn til karla sem einstaklinga og hópa, og til menningarbundinna hugmynda um hvað felst í því að vera karlmaður.

Í málstofunni verða flutt fjögur erindi sem varpa ljósi á karlmennskur og karla í lífi og starfi, gjörðir þeirra og hátterni sem einstaklinga og hópa, í femínískri jafnréttisbaráttu sem og í andstöðu gegn henni

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Að baða sig í ljóma annarra, kænskubragð í þágu karlmennskuauðmagns

Karlmennska er ekki einhlítt hugtak og hugmyndir um karlmennsku eru fljótandi og breytilegar í tíma og rúmi. Hugtakið karlmennska er nátengt hugmyndum um völd og á hverjum tíma takast á mismunandi karlmennskuhugmyndir. Höfundar hafa kortlagt karlmennskuhugmyndir í aðdraganda og kjölfar Hrunsins 2008 í ljósi kenninga Bourdieu um félagslegt og táknrænt auðmagn þar sem tókust á viðskiptakarlmennska og stjórnmálakarlmennska. Í þessu erindi verða hugmyndir um táknrænt auðmagn teknar lengra og tengdar við það fyrirbæri þegar einstaklingar reyna að bæta eigin ímynd með því að baða sig í ljóma annarra. Hugtakið BIRG eða ”basking in reflected glory” sem á íslensku mætti kalla ”basla” (baða sig í ljóma annarra), hefur verið notað um þá sem tengja sig við eftirsóknarverða einstaklinga í þeim tilgangi auka eigin virðingu og völd. Orðræðugreiningu er beitt til að rýna hvernig annars vegar þrír gengnir stjórnmálaforingar hafa verið skapaðir sem stórmenni í ævisögum og pólitískum eftirmælum. Hins vegar verður skoðað hvernig slík orðræða hefur verið nýtt í sjálfssköpun þriggja stjórnmálamanna í okkar samtíma, eins og hún birtist viðtölum og pólitískri umfjöllun. Fjallað er um basl sem kænskubragð ætlað til að auka virðingu og þar með táknrænt auðmagn.

Þorgerður J. Einarsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir

Lykilorð: karlmennska, táknrænt auðmagn, baða sig í ljóma annarra

Að vernda og þjóna á meðan staðið er vörð um karllægar áherslur: Ráðandi karlmennska og forréttindi í lögreglunni

Lögreglustarfið er kynjað og karllægt og breytingar í átt að kynjajafnrétti eru hægar. Rannsóknir benda til þess að beina þurfi sjónum að viðhorfum karla innan lögreglunnar til jafnréttis, skoðunum þeirra og fordómum, sem viðhalda karllægum valdastrúktúr. Byggt á könnun meðal lögreglumanna í íslensku lögreglunni sjáum við ólík viðhorf meðal karla annars vegar og kvenna hins vegar til jafnréttis og kynjaðra staðalmynda. Karlar eru líklegri en konur til að hafa þá skoðun að innan lögreglunnar ríki jöfn tækifæri, en á sama tíma viðhafa þeir neikvæð viðhorf varðandi getu kvenna til að starfa í lögreglunni. Ungir karlar og karlar sem er óánægðir með framgang sinn í starfi eru líklegri til að hafa neikvæð viðhorf til kvenna en eldri karlar og þeir sem ánægðari eru með framgang sinn. Byggt á kenningum Connell um ráðandi karlmennsku (e. hegemonic masculinity), Silvestri um „fyrirmyndar“ lögreglumann (e. the ‘ideal’ police officer) og Kimmel um tilætlunarsemi (e. sense of entitlement) færum við rök fyrir því að ráðandi karlmennska, sérstaklega hugmyndir um fyrirmyndar lögreglumann, ýta undir karllæga tilætlunarsemi. Breytingar í jafnréttisátt innan vinnustaða skapar ógn við tilætlunarsama karla, karla sem jafnvel upplifa sig ekki í valdastöðu en trúa því að þeir eigi tilkall til valda vegna ráðandi hugmynda um hvað það er að vera lögreglumaður.

Finnborg Salome Steinþórsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir

Lykilorð: jafnrétti, staðalímyndir, fordómar

Karlar í andstöðu

Reglulega heyrast kröftugar efasemdaraddir og gagnrýni á femíníska nálgun sem miðar að því að ná fram jafnri samfélagsstöðu kvenna og jaðarhópa á við karla. Sér í lagi þegar gagnrýnin beinist að karlmennskuhugmyndum eða birtingar­myndum karllægra yfirráða sem hindrun á vegi jafnréttis. Þetta erindi byggir á einum hluta meistararannsóknar í kynjafræðum á viðhorfum karla til jafnréttis sem skilgreindu sig ekki sem femínista. Tekin voru 6 óstöðluð djúpviðtöl með það að markmiði að öðlast innsýn í viðhorf viðmælenda til jafnréttis. Tilgangurinn var að leita að vísbendingum sem kynnu að skýra andspyrnu karla við femínisma og varpa ljósi á viðhorf og hugmyndir sem andspyrna sprettur fram úr. Þemagreining viðtalanna sýnir að andstaða karla við femíníska nálgun er ekki einhlít heldur flókin, margvísleg og mótsagnakennd. Hins vegar er sameiginlegur þráður í viðhorfum þeirra að efast um tilvist kynjakerfis og kynjaðra valdatengsla. Í erindinu verður fjallað um nokkrar birtingarmyndir á þessari afstöðu og hvernig hún tengist einstaklingshyggju, líffræðilegri nauðhyggju og ónæmi fyrir eigin forréttindum. Þá verður í erindinu vikið að því hvernig má auka skilning karla á femínískri nálgun í jafnréttisstarfi.

Þorsteinn V. Einarsson

Strákarnir okkar – um álitamál og þróun á þátttöku karla í íslensku kynjajafnréttisstarfi frá 1990

Aðstæður karlyns femínista „á markaði“ einkennast af mikilli eftirspurn og takmörkuðu framboði af körlum. Það virðist þykja virðisaukandi að fá karla til liðs við kynjajafnréttisbaráttu (e. engaging men), og karlar eru eftirsóttir á sviði kynja­jafnréttis­starfs. Ýmis álitamál fylgja þátttöku karla í kynjajafnréttisstarfi. Má þar nefna forréttindi, athygli, tækifæri, fjármagn, áheyrn og aðgengi að rými og aðilum sem taka mikilvægar ákvarðanir, m.a. um framgang jafnréttissjónarmiða á vegum hins opinbera, innan einkageirans og víðar. Kynjajafnréttisstarf á Íslandi hefur á um 3-4 áratugum þróast úr ólaunaðri femínískri grasrótar­starfsemi sem konur ráku nánast eingöngu, yfir í stofnanavædda starfsemi þarsem aðkoma karla hefur aukist talsvert. Það birtist m.a. í því að lög gera ráð fyrir að karlar séu að lágmarki 40% fulltrúa í öllu opinberu jafnréttisnefndarstarf. Karlar sinna ýmsum störfum og hlutverkum á vettvangi kynjajafnréttis innan stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, og karlar birtast einnig sem talsmenn herferða og verkefna á þessum vettvangi. Í erindinu verður farið yfir sögu „karlastarfs“ í íslenskum femínisma og kynjajafnréttis­starfi síðustu 3 áratugina, fjallað um sum þeirra álitamála sem komið geta upp í tengslum við þátttöku karla í kynjajafnréttis­starfi, og rýnt í ávinning og fórnarkostnað af þátttöku karla á þessum vettvangi. Erindið byggir á doktorsverkefni þar sem stuðst er við eigindleg viðtöl við karla og konur sem starfa á vettvangi kynjajafnréttisstarfs á Íslandi. Ennfremur er notast við innihaldsgreiningu á fyrir­liggjandi gögnum.

Arnar Gíslason

Lykilorð: karlar, kynjajafnrétti, forréttindi

Birtingarmyndir karlmennsku í kvennastétt (Males “doing gender” in a female dominated occupation)

Í starfi mæta karlar oft þröngum gildum og skilgreiningum á því hvað telst viðeigandi framganga sem oft leiðir til samkeppni meðal þeirra. Um 2% hjúkrunarfræðinga á Íslandi eru karlar. Starfið krefst eiginleika þar sem líkamlegur styrkur, áræðni og hollusta við vinnustað og félaga er mikils metnir. Þessir eiginleikar tengjast einnig rótgrónum karlmennskuhugmyndum og fram hefur komið að vegna viðhorfa til kynjahlutverka og vegna kynjahallans finni karlkyns hjúkrunarfræðingar sig knúna til að skapa sér sérstöðu til að viðhalda karlmennsku sinni og aðgreina sig frá þeim hugmyndum um kvenleika sem þeir telja heftandi í starfi. Ýmislegt bendir til að karlar í hjúkrun njóti ýmissa forréttinda sem tengjast kyni þeirra, svo sem að þeir njóti frekari tækifæra í starfi en kvenkyns hjúkrunarfræðingar. Fyrirlesturinn byggir á 16 hálfstöðluðum einstaklingsviðtölum við hjúkrunarfræðinga, 6 karla og 10 konur. Markmiðið er að leita svara um hvort þátttakendur hafi upplifað merki um karlmennskukeppni innan raða karlanna, sem tengjast hinum ætluðu forréttindum þeirra og minnihlutastöðu. Þar er litið til reynslu og hugmynda þátttakenda um mismunandi kynbundin tækifæri og væntingar til þeirra í starfi. Greint verður frá fyrstu niðurstöðum á Þjóðarspeglinum í nóvember næstkomandi.

Klara Þorsteins og Thamar M. Heijstra

Lykilorð: karlamennska í kvennastétt

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 09:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 10:45
  • Zoom meeting id: 619 9095 8322
Höfundar erinda
Annað / Other
Annað / Other
Nýdoktor / Post doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 09:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 10:45
  • Zoom meeting id: 619 9095 8322