Kynbundið ofbeldi – þróun réttarins, upplifun brotaþola og karlmennskuhugmyndir

Málstofustjóri: Brynhildur G. Flóvenz
Saklaus uns sekt er sönnuð – Um sönnun í nauðgunarmálum

Femínísk lögfræði hefur haft mikil áhrif á þróun nauðgunar-hugtaksins í réttinum frá því að verndar¬hagsmunir afbrotsins voru einkum hagsmunir fjölskyldu brotaþola til þess að vera kynfrelsi konunnar sjálfrar. Þróun réttarins hefur því verið gríðarleg á þessu sviði og kynferðisbrotakafli hegningarlaga er sá hluti laganna sem tekið hefur hvað mestum breytingum frá setningu laganna. Engu að síður er enn breitt bil milli vitneskju okkar um fjölda þeirra nauðgana sem framdar eru og fjölda þeirra nauðgunarmála sem koma til kasta dómstóla. Í erindinu er fjallað um rannsókn Evu Huldar Ívarsdóttur og byggir í grunninn á meistararitgerð hennar sem unnin var við lagadeild HÍ og bar heitið ,,Um sönnun í nauðgunarmálum – Saklaus uns sekt er sönnuð“. Leiðbeinandi var Ragnheiður Bragadóttir prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Í rannsókn¬inni voru dómar Hæstaréttar í nauðgunarmálum rannsakaðir og greindir.  Greiningin tekur mið af því hvaða gögn liggja til grundvallar í þeim málum sem fara fyrir Hæstarétt og kannað var hvort greina mætti birtingarmyndir staðal¬mynda um nauðgun í þeim og hvaða áhrif þær hefðu þá á sönnunarmat í nauðgunarmálum. Ennfremur var kannað hvort og þá hvaða áhrif þær hefðu á mat á trúverðugleika ákærða og brotaþola. Þar sem nauðgunarbrot eru mjög kynjuð afbrot er fjallað um forskilning túlkandans ásamt djúpstæðum og oft ómeðvituðum hugmyndum okkar um kynin og þá staðreynd að hlutfall kvendómara við Hæstarétt Íslands er mjög lágt.

Eva Huld Ívarsdóttir  og Ragnheiður Bragadóttir

Myndrænt kynferðisofbeldi – alþjóðlegar skuldbindingar og íslenskur réttur

Myndrænt kynferðisofbeldi hefur mikið verið í umræðunni undanfarin ár og hafa ítrekað verið lögð fram frumvörp á Alþingi um lögfestingu sérstaks refsiákvæðis í almenn hegningarlög sem taki til háttseminnar. Upprunni efnisins er mjög mismunandi. Í flestum tilvikum er um að ræða myndefni sem hefur verið sent af þeim sem það sýnir í skjóli trausts og efninu síðar dreift án samþykkis þeirra sem það sýnir. Myndrænt kynferðisofbeldi er kynbundið ofbeldi þar sem meirihluti þolenda þess eru konur, auk þess sem þolendur eru oft börn.
Í erindinu verður fjallað um rannsókn á myndrænu kynferðis-ofbeldi, hverjar alþjóðlegar skuldbindingar Íslands eru á þessu sviði og hvernig heimfærslu háttseminnar er háttað í íslenskum rétti. Markmið umfjöllunarinnar er að varpa ljósi á hvort að réttarstaða þolenda myndræns kynferðisofbeldis sé nægilega trygg á grundvelli núgildandi lagaákvæða og í samræmi við þessar alþjóðlegu skuldbindingar. Sérstaklega verður skoðað hvernig háttsemin er heimfærð þegar þolendur eru börn að lögum og hvort börn njóti í raun þeirra réttinda og verndar sem velferð þeirra krefst.

Helga Einarsdóttir

Kynbundið ofbeldi í nánum samböndum

Réttarvernd gegn kynbundnu ofbeldi hefur aukist nokkuð á síðustu árum. Engu að síður hafa íslensk lög þó að mestu leyti verið kynhlutlaus og reynsluheimi kvenna ekki gefinn nægilegur gaumur í réttinum. Þannig eru ákvæði um kynbundið ofbeldi í lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kynhlutlaus og hið sama gildir um ákvæði 218. ¬gr. b. hgl. um ofbeldi í nánum samböndum. Þær spurningar vakna því af hverju löggjöfin er kynhlutlaus þegar veruleikinn er svo kynjaður sem raun ber vitni og hvort í kynhlutleysi laganna geti falist mis¬munun á grundvelli kynferðis. Erindið byggir að hluta til á meistara¬ritgerð Ingibjargar Ruth Gulin við lagadeild Háskóla Íslands, sem ber heitið „Kynbundið ofbeldi í nánum samböndum og þróun íslensks réttar í ljósi femínískra lagakenninga“. Leið¬beinandi var Brynhildur G. Flóvenz, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Í erindinu verður leitast við að skýra og gera grein fyrir þróun íslensks réttar hvað varðar kynbundið ofbeldi í nánum samböndum og kanna hvort 218. gr. b. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 (hér eftir hgl.), sbr. lög nr. 23/2016, geti talist upp¬fylla forsendur og markmið samnings Evrópu¬ráðsins um for¬varnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og ofbeldi í nánum samböndum (e. Domestic violence), svokallaðs Istan¬búl¬samnings. Enn fremur hvort og þá hvernig megi greina tregðu við lagasetningu til að viðurkenna kynferði sem áhættuþátt sem ber að veita sérstaklega réttar¬vernd í íslenskum rétti.

Ingibjörg Ruth Gulin og Brynhildur G. Flóvenz

Ég skil ekki alveg af hverju enginn tók eftir því að þarna væri ofbeldi í gangi“. Hver er upplifun íslenskra kvenna og kvenna af erlendum uppruna sem fara úr ofbeldissamböndum?

Umfjöllunarefni rannsóknarinnar var staða kvenna sem hafa búið við ofbeldi í nánum samböndum og upplifun þeirra á sáttameðferð sýslumanns og var efnið skoðað frá sjónarhóli brotaþola heimilisofbeldis. Rannsóknin var feminísk og beindist að því að varpa ljósi á valdleysi kvenna sem hafa búið við ofbeldi í nánum samböndum í sáttameðferð sýslumanns. Meðal spurninga og álitaefna sem leitast var við að skoða voru hver var aðdragandi þess að konurnar skildu við eiginmenn sína? Og hverjar voru upplifanir þeirra í sambandinu. Einnig var leitað svara við atriðum er lúta að Sáttameðferð sýslumanns eins og hverjar voru upplifanir þeirra á sáttameðferð sýslumanns? Einnig er spurt hver var reynsla þeirra á skilnaðarferlinu og þá sérstak­lega þegar kom að umgengnis- og forræðismálum? Að síðustu spurði ég: Hver var líðan þeirra eftir skilnað?

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að í hinum nánu samskiptum sem brotaþolar ofbeldis eru í, við geranda, heldur ofbeldið áfram innan sáttameðferðar sýslumanns þar sem ekki var litið til þess þáttar í meðferðinni. Einnig benda niðurstöður til að brotaþolar eru ekki lausir undan áreitni eða ofbeldi ofbeldismanna sinna, eftir að skilnaði er lokið.

Jenný Kristín Valberg

Ungir menn, karlmennskuhugmyndir og samþykki í kynlífi

Samkvæmt alþjóðlegum mælingum er jafnrétti kynjanna mest á Íslandi en engu að síður hafa 22% kvenna hér á landi orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi, þar af 70% í fyrsta sinn fyrir 18 ára aldur. Ofbeldismynstrið er kynjað, gerendur eru oftar karlkyns, og því mikilvægt að beina sjónum að ungum mönnum. Hér verða ungir menn teknir til umfjöllunar, hvar þeir staðsetja sig í orðræðunni um karlmennsku, samskipti við stelpur, kynlíf og samþykki.  Kynlíf án samþykkis er almennt álitið nauðgun. Hugtakið „samþykki“ í tengslum við kynlíf hefur þó lítið verið rannsakað hér á landi sem og á heimsvísu. Rannsókn þessi byggir á rýnihópaviðtölum sem höfðu það markmið að öðlast dýpri skilning á því hvernig ungir menn mótast af ríkjandi orðræðu samfélagsins í tengslum við sambönd og kynlíf. Hvernig mótast þeir af orðræðu gagnkynhneigðar og samþykkis? Hugtakið „samþykki“ verður hér rætt í tengslum við kynlíf og hið gagn­kynhneigða handrit sem og hvernig ungir menn skilja og fá samþykki, fyrir og á meðan kynlífi stendur. Niðurstöður benda til þess að jafnréttisorðræðan stangist á við hið gagnkynhneigða sambandshandrit sem enn þann dag í dag felur í sér valda­ójafnvægi kynjanna. Ríkjandi orðræða gerir þannig ungu fólki erfitt fyrir að fóta sig í nánum samböndum og bendir til þess að mikilvægt sé að hjálpa ungu fólki að skilja og miðla samþykki í kynlífi sem jafningjar.

Katrín Ólafsdóttir og Jón Ingvar Kjaran

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  01/11, 2019 09:00
 • Málstofu lýkur
  01/11, 2019 10:45
Höfundar erinda
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Annað / Other
Annað / Other
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  01/11, 2019 09:00
 • Málstofu lýkur
  01/11, 2019 10:45