Þegar hreyfanleiki og kyrrstaða togast á: Kyn, hneigðir og ástir

Þrátt fyrir að Norðurlöndin séu talin standa framarlega í mál­efnum hinsegin fólks þá hrapaði Ísland á regnbogakorti ILGA 2017 og 2018 og enn virðist vera viðkvæmt að víkja frá hinu gagnkynhneigða viðmiði. Aftur á móti sýna rannsóknar­niður­stöður að fólk hefur flæðandi kynhneigð í meira mæli en al­mennt er gert ráð fyrir. Í erindi okkar munum við skoða tengslin milli kyns, kynferðislegrar sjálfsmyndar (hvernig fólk skilgreinir kyn­hneigð sína) og þess hvort fólk laðast kyn­ferðis­lega eða rómantískt að fólki af eigin kyni. Niðurstöður rann­sóknarinnar byggja á bæði megindlegum og eigindlegum gögnum. Rafræn könnun var send á tvö úrtök árið 2015. Annars vegar 4.000 manna slembiúrtaki úr þjóðskrá (ISSP 2014 um þegnrétt) og hins vegar 700 manna úrtak hjá Samtökunum ’78. Gagnasöfnin voru sameinuð í SPSS og unnið úr svörum 1.672 einstaklinga (48% karlar og 52% konur). Við úrvinnslu gagna var notuð lýsandi tölfræði og tvíkosta aðhvarfsgreining. Þá voru greind 25 viðtöl einstaklinga úr hópi hinsegin fólks og femínista sem tekin voru á árunum 2013 og 2014. Helstu niðurstöður benda til að karlar hafi fastmótaðri hugmyndir um eigin kynhneigð en konur, og að kynhneigð gagn- og samkyn­hneigðra kvenna virðist meira flæð­andi en gagn- og sam­kynhneigðra karla. Þá virðist kynferðisleg sjálfsmynd hinsegin fólks í Samtökunum ’78 vera sterkari og kynhneigð þeirra fast­mótaðri en hinseginfólks sem stendur utan sam­takanna.

Þorgerður Jennýjardóttir Einarsdóttir, Jyl Josephson og Laufey Axelsdóttir

Hvers konar jafnrétti? – Færninálgunin og jafnrétti á vinnustaðnum Icelandair

Færninálgunin er breið heimspekileg nálgun sem er lítt þekkt hér á landi. Á undanförnum áratugum hefur hún þó sett mark sitt á það hvernig ýmsar alþjóðlegar stofnanir og samfélög hafa unnið að velferð, þróunarmálum, réttlæti og jafnrétti. Upphafs­maður hennar, hagfræðingurinn og nóbelsverðlauna­hafinn Amar­tya Sen, og bandaríski heimspekingurinn Martha Nuss­baum hafa, ásamt öðrum fræðimönnum, unnið um langt skeið að þróun nálgunarinnar. Þeirri vinnu er hvergi nærri lokið. Í þessari rannsókn var tilgangurinn að skoða kynjajafnrétti á vinnustaðnum Icelandair með augum færninálgunarinnar og að þróa og prófa nýtt mælitæki sem tekur mið af grunnhugtökum nálgunarinnar: frelsi, færni og virkni. Leitast var við að mæla færni og virkni starfsmanna sem tengjast fimm skilgreindum frelsis­stoðum en þær eru: pólitískt frelsi, efnahagsleg gæði, samfélagsleg tækifæri, gagnsæi, og vernd og öryggi. Ennfremur var færni og virkni mæld í tengslum við réttlæti og aðra vinnu­tengda þætti svo sem samræmingu vinnu og einkalífs. Notuð var blönduð aðferð til að fá fram niðurstöður; eigindleg aðferð var notuð með því að taka 7 viðtöl við starfsfólk Sölu-og mark­aðs­sviðs Icelandair og megindleg aðferð með því að leggja spurninga­könnun fyrir starfsfólk sviðsins. Niðurstöðurnar benda til þess að kynin á vinnustaðnum búi við mismikið frelsi og réttlæti því færni og virkni karla reyndist meiri en kvenna í þeim færniþáttum sem mældir voru. Prófun mælitækisins, sem notað var, sýndi ennfremur að grunnur þess reyndist áreiðanlegur.

Linda Hængsdóttir

The Tide is Turning? Gender Stereotypes and Motherhood-Penalty in the World’s Most Gender Equal Country

This study examines the effects of gender and parental status on judgements of applicants for both management and non-management positions. Drawing on survey-experimental data from an online representative sample of the Icelandic popu­lation, the most gender equal country in the world. Overall the findings demonstrated a straightforward gender bias in favor of females on all measures (competence, commitment, working with numbers, problem solving, etc.). Compared to previous studies, using the same methodology and measurements, this is a significant change in public opinion in the last 12 years. However, despite the gender bias in evaluations we do not find any differences in suggested/likely salary between identical male and female candidates. When examining parenthood, our results do not support difference in judgements between parents and non-parent applicants, finding no evidence of a motherhood-penalty or fatherhood-premium reported else­where. These results suggest that social policy can help eliminate gender bias in favor of males and parental bias. However, such policy might still not be sufficient to alleviate gender differences in salary.

Kári Kristinsson

„Þetta er búið að vera þúsund sinnum erfiðari róður heldur en mig óraði fyrir“

Fyrsta kynslóð femínískra aktívista í íslensku háskólasamfélagi er núna að nálgast endalok starfsferils síns. Við spyrjum hvað gerði þessar konur að baráttukonum, hvernig líta þær til baka á starfs­feril sinn og það hlutverk sem þær höfðu í íslensku háskóla­samfélagi? Hvernig upplifa þær áhrif nýfrjálshyggju? Hvaða hindrunum hafa þær mætt og hvernig hafa þær tekist á við þær? Finnst þeim baráttan hafa skilað árangri? Gögnin eru fengin með eigindlegum viðtölum og markvissu úrtaki. Tekin voru viðtöl við 12 konur sem allar eiga það sameiginlegt að  kenna og rannsaka á jaðrinum. Niðurstöður okkar benda til þess að margar þeirra rekja uppruna aktívisma síns til mótandi atburðar í barnæsku sinni. Þær upplifa breytingar og framfarir innan háskólans en eru á sama tíma meðvitaðar um ýmis baráttumál sem eru fram­undan. Sumar kvennanna sýna einkenni kulnunar og mettunar. Þær líta þannig á að það sé komið að næstu kynslóð að berjast fyrir þeim málefnum sem á þeim brenna á meðan öðrum er best lýst sem orkuboltum sem hafa innri hvöt til frekari baráttu.

Thamar Melanie Heijstra og Gyða Margrét Pétursdóttir

„Það var alltaf bara ætt inn, það var ekkert: er ég að trufla?“

Kynjajafnrétti á Íslandi mælist með því hæsta í heiminum samkvæmt The Global Gap Gender Index frá World Economic Forum. Mælingar á því ná til samfélagslegrar þátttöku og tæki­færa, menntunar, launa og heilsufars, en huglægir þættir svo sem upplifun á líðan og sjálfræði í lífi og starfi eru ekki mældir. Mark­mið þessa fyrirlesturs er að varpa ljósi á hvernig orðsporið um kynjajafnrétti samræmist reynslu íslenskra hjúkrunar­fræðinga af valdi og sjálfræði í starfi. Ég tel það áhugavert í ljósi þess að menntunarstig íslenskra hjúkrunarfræðinga er hátt og 98% þeirra eru konur. Fyrirlesturinn byggir á 10 hálfstöðluðum einstaklingsviðtölum við hjúkrunarfræðinga um reynslu þeirra af tækifærum til faglegs sjálfræðis og valds í starfi innan heil­brigðis­kerfisins. Þær niðurstöður sem verður fjallað um í fyrir­lestrinum eru að hjúkrunarfræðingarnir telja sig stöðugt þurfa að standa vörð um faglegt sjálfstæði sitt í samskiptum og samvinnu við aðra faghópa. Þeir lýsa þeim aðferðum sem þeir hafa komið sér upp til að geta starfað samkvæmt faglegri sýn sinni. Það sem helst hindrar er skortur á viðunandi starfs­aðstæðum, þar með talið stuðningi frá yfirmönnum og öðru samstarfsfólki, og rótgrónar hefðir og viðhorf til starfssviðs hjúkrunar­fræðinga sem kvennastéttar.

Klara Þorsteinsdóttir og Thamar Melanie Heijstra

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  01/11, 2019 13:00
 • Málstofu lýkur
  01/11, 2019 14:45
Höfundar erinda
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Nýdoktor / Post doc
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  01/11, 2019 13:00
 • Málstofu lýkur
  01/11, 2019 14:45