Markaðssetning áfangastaða: Mikilvægi samþættingar markaðsskilaboða

Áfangastaðir víðsvegar um hnöttinn eru í sívaxandi samkeppni hver við annan fyrir tilstilli aukinnar hnattvæðingar og ört vaxandi ferðamennsku um allan heim. Markaðssetning áfanga­staða og mörkun áfangastaða skiptir þar sköpum fyrir sýnileika og aðdráttarafl staða á hinu stóra markaðssvæði heimsins. Það flókna ferli sem markaðssetning og mörkun áfangastaða felur í sér er oft í höndum markaðsstofa sem hafa það verkefni á sínu snæri að samþætta markaðsskilaboð staðarins. Það getur oft reynst mjög erfitt vegna þess hversu margir ólíkir hagsmuna­aðilar eru á hverjum stað.

Markaðsstofa Norðurlands hefur fengið Rannsóknamiðstöð ferðamála og Háskólann á Hólum til að framkvæma rannsókn sem hefur það markmið að kanna markaðsmál fyrirtækja í ferðaþjónustu á Norðurlandi og afla vitneskju um gestina sem sækja svæðið heim. Einn liður í þeirri rannsókn er spurninga­könnun sem send var til fyrirtækja og sveitarfélaga á Norður­landi í lok febrúar 2019 þar sem spurt var um markaðsmál og markhópa fyrirtækjanna. Í þessu erindi verður rýnt í frum­niður­stöður spurningakönnunarinnar út frá hug­mynd­um um mikil­vægi samþættingar markaðsskilaboða. Einnig verður fjallað um hlutverk markaðsstofa í markaðs­setningu og uppbyggingu áfangastaða.

Elísabet Ögn Jóhannsdóttir

Menning, saga og ferðamenn

Náttúra Íslands er sterkt aðdráttarafl fyrir þá ferðamenn sem hingað koma en íslensk menning hefur verið að sækja í sig veðrið á undanförnum árum í þessum efnum. Árið 2018 nefndu um 75% erlendra ferðamanna íslenska menningu sem eina af kveikjunum að Íslandsferðinni, en til samanburðar nefndu um 40% að menning og saga Íslands hafi haft áhrif þar á árið 2011.

Hvernig birtist þessi áhugi ferðamanna á íslenskri menningu í þeim afþreyingarmöguleikum sem þeir nýta sér í heimsókninni til Íslands? Eru erlendir ferðamenn að skila sér inn á söfnin, setrin og sýningarnar í kringum landið? Hvernig virkar saga Norður­lands sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn?

Í þessu erindi verður farið yfir helstu niðurstöður úr spurninga­könnun sem gerð var meðal ferðamanna sem heim­sóttu valin söfn, setur og sýningar á Norðurlandi sumarið 2019. Könnunin var unnin að beiðni Markaðsstofu Norðurlands og var markmið hennar að fá innsýn í áhuga ferðamanna á sögu Norðurlands, hvað einkenni þennan markhóp og hver upplifun þeirra sé af heimsókninni. Niðurstöðurnar verða einnig settar í samhengi við aðrar kannanir meðal ferðamanna, til að mynda Landamæra­könnun Ferðamálastofu og svæðisbundnar rann­sóknir á ferða­venjum erlendra ferðamanna.

Vera Vilhjálmsdóttir

Upplifun heimamanna af ferðamennsku á einstökum svæðum

Samkvæmt Vegvísi ferðaþjónustunnar er jákvætt viðhorf landsmanna til ferðaþjónustu einn lykilmælikvarða á stöðu íslenskrar ferðaþjónustu. Skilningur á viðhorfum heimamanna er talinn vera meðal lykilþátta fyrir farsæla og sjálfbæra þróun ferðamennsku og stýringu áfangastaða en í sinni einföldustu mynd upplýsa félagsleg þolmörk um það hvenær gestakomur eru farnar að hafa neikvæð áhrif á viðhorf heimamanna.

Í erindinu er sjónum beint að reynslu heimamanna af því að búa við ferðaþjónustu og ferðamenn í byggðum landsins. Erindið byggir á 24 einstaklingsviðtölum og símakönnun (n=1481) meðal úrtaks íbúa á Húsavík, Reykjanesbæ, Stykkis­hólmi og Egilsstöðum sem fram fór haustið 2018. Viðtölin og könnunin voru hluti af rannsókn á viðhorfum heimamanna til ferðamanna og ferðaþjónustu sem unnin var fyrir og fjár­mögnuð af Ferða­mála­stofu. Dregnar verða fram bæði jákvæð­ustu og nei­kvæðustu hliðar ferðamennskunnar út frá sjónar­hóli íbúa og sýnt hvaða þættir skipta íbúana mestu máli. Niður­stöðurnar gefa vísbendingar um að þó svo að sumir þættir séu öllum svæðunum sameiginlegir þá geti þeir haft mismunandi áhrif innan samfélaga. Þannig er hvert svæði einstakt og virðast ákveðnir staðbundnir þættir ráða mestu varðandi afstöðu íbúa.

Eyrún Jenný Bjarnadóttir

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 15:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 16:45
Höfundar erinda
Sérfræðingur / Specialist
Rannsóknamiðstöð ferðamála
Sérfræðingur / Specialist
Háskóli Íslands / University of Iceland
Verkefnisstjóri / Project manager
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 15:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 16:45