Málstofa um ferðamál III: Samfélag og menning

Málstofustjóri: Eyrún Jenný Bjarnadóttir

Í samvinnu við Háskóla Íslands og Háskólann á Hólum, stendur Rannsóknamiðstöð ferðamála fyrir þremur málstofum um ferðamál á Þjóðarspegli 2021.

Erindin sem flutt verða fjalla öll um ferðamál í fjölbreytilegu samhengi sem þó má gróflega setja í þrjá undirflokka: ferðamennska, mannvirki og náttúra; áhrif heimsfaraldurs og samfélag og menning.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Þar sem malarvegurinn byrjar – Tengsl staðarmyndunar og hreyfanleika á jaðrinum

Í erindinu Þar sem malarvegurinn byrjar verður fjallað um yfirstandandi rannsókn á tengslum staðarmyndunar, hreyfanleika og ferðamennsku á jaðarsvæðum og því hvernig slíkir staðir verða til í gegnum hreyfanleika og skapandi athafnir hversdagsins. Rannsóknarsvæðið er Melrakkaslétta, fámennt byggðalag á norðausturhorni landsins. Svæðið er eitt þeirra sem hvað síst varð vart við veldisvöxt íslenskrar ferðaþjónustu á undanförnum árum. Rannsóknin byggir á eigindlegum rannsóknaraðferðum og styðjast við hugmyndir seinni gerendanetskenninga. Í því felst að leitað er þráða sem í samofnum og hreyfanlegum kerfum byggi – eða geti byggt – tiltekna samfélagslega þætti, hér með áherslu á þræði ferðaþjónustu í dreifbýli. Meginþungi rannsóknar hefur til þessa legið í vattvangsathugun og hálfstöðluðum einstaklingsviðtölum við íbúa og hús- og landeigendur á svæðinu. Jafnframt hefur verið beitt samræðuaðferð, þá við heimamenn sem og gesti rannsóknasvæðis. Í erindinu verður gerð grein fyrir helstu forsendum og framvindu rannsóknarinnar auk þess sem farið verður yfir fyrstu niðurstöður og vísbendingar og grein gerð fyrir áætlunum um næstu skref.

Yfirskrift rannsóknarinnar er Samvera á jaðrinum? Melrakkaslétta á ferð og er hún einn hluti rannsóknaverkefnisins Hreyfanleiki á jaðrinum – skapandi ferli staða sem styrkt er af Rannsóknasjóði Íslands.

Þórný Barðadóttir

Lykilorð: ferðamál, hreyfanleiki, jaðar

Hvaða minjar eru merkilegar? Viðhorf íbúa Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar til minjastaða

Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvernig heimamenn sjá og meta minjastaði í sínu nánasta umhverfi. Rannsóknin er unnin af Rannsóknamiðstöð ferðamála fyrir Minjastofnun Íslands. Um er að ræða tilviksrannsókn þar sem Hofstaðir í Mývatnssveit eru nýttir sem dæmi en svæðið sem rannsóknin nær yfir er Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit. Í rannsókninni er lögð áhersla á að öðlast innsýn í samfélagslegt gildi minjastaða fyrir heimamenn og kanna hvort, og þá hvernig, minjastaðir geti gagnast íbúum þessa tiltekna svæðis. Rannsókninni er skipt í þrjá hluta og byggist á blönduðum rannsóknaraðferðum. Viðtöl voru tekin við fimm hagaðila á svæðinu sem valdir voru með markvissu úrtaki sem fulltrúar sveitastjórnar, ferðaþjónustunnar og Vatnajökulsþjóðgarðs. Í framhaldi af viðtölunum var haldinn rýnihópsfundur með fimm heimamönnum af svæðinu. Viðtölin og rýnihópsfundurinn fóru fram vorið 2021. Þriðji hluti rannsóknarinnar byggist á rafrænni spurningakönnun sem send verður til íbúa svæðisins haustið 2021. Í erindinu verður farið yfir tildrög og markmið rannsóknarinnar ásamt helstu niðurstöðum. Fyrstu niðurstöður sýna að heimamenn telja töluvert sögulegt gildi felast í minjastöðum síns svæðis en meira mætti gera til að nýta þá og að miðla þurfi betur þeirri rannsóknarvinnu sem unnin hefur verið á svæðinu til þessa. Viðmælendur eru því jákvæðir á frekari uppbyggingu minjastaða eins og á Hofstöðum en segja jafnframt að huga þurfi vel að uppbyggingu innviða, náttúruvernd og minjavernd við slíkar framkvæmdir.

Vera Vilhjálmsdóttir

Lykilorð: minjastaðir, viðhorf heimamanna, samfélag

Fjöldi ferðamanna og ferðaleiðir þeirra

Flestir ferðamenn sem koma til landsins koma og fara í gegnum Leifsstöð. Þar byrjar og endar ferðalag nær allra erlendra ferðamanna. En hvaða staði heimsækja þeir? Hvernig haga þeir ferðum sínum? Hvernig breytist fjöldi og ferðahegðun eftir árstíma? Það er mikilvægt að vita vegna verndunar og skipulags áfangastaða. Einnig til að skipuleggja ferðamennsku á landsvísu, til að mynda vegna skipulags ferðaleiða og tenginga á milli áfangastaða. Verkefnið sem hér er kynnt hefur notað bifreiðateljara á áfangastöðum til að meta fjölda ferðamanna. Sagt verður frá aðferðafræði talninganna, meðal annars frá tveimur leiðum til að kvarða teljarana, annars vegar með handtalningu og hins vegar sjálfvirkt, með radar. Radarinn mælir meðal annars fjölda bifreiða og stærð þeirra. Stærðin á bifreiðunum skiptir máli þegar fjöldi ferðamanna er reiknaður út frá fjölda bifreiða því fleiri farþegar eru í rútum en litlum einkabílum. Í kjölfarið verða talningagögnin notuð til að sýna hvaða áfangastaði ferðamenn heimsækja á mismunandi árstímum. Að lokum verður fjallað um hvernig verkefnið hefur nýtt talningarnar frá áfangastöðunum, samhliða gögnum Vegagerðarinnar um fjölda bifreiða á hringveginum, til að greina ferðaleiðir um landið. Upplýsingar um fjölda er grunnforsenda þess að hægt sé að grípa til aðgerða til að dreifa ferðamönnum jafnar um landið.

Gyða Þórhallsdóttir

Lykilorð: fjöldi ferðamanna, ferðaleiðir, á íslensku

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  29/10, 2021 15:00
 • Málstofu lýkur
  29/10, 2021 16:45
Höfundar erinda
Doktorsnemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur / Specialist
Rannsóknamiðstöð ferðamála
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  29/10, 2021 15:00
 • Málstofu lýkur
  29/10, 2021 16:45