Nýjungar með tækni í skólastarfi

Málstofustjóri: Hróbjartur Árnason

Á þessari málstofu er sjónum beint að nýjungum í notkun upplýsingatækni í háskólakennslu. Í erindum sínum greina höfundar frá rannsóknum á tilvikum þar sem í þeir beittu tiltekinni tækni, eins og stórum netnámskeiðum á vef, hópvinnukerfum og fjarfundakerfum undir áhrifum tiltekinna ólíkra kennslufræðilegra nálgana eins og: Sjálfsnámi, starfsþróun, samvinnunámi og sköpun með tækni.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Frumkvöðlastarf kvenna um sköpun með tækni í skólastarfi

Hér verður sagt frá samsettri tilviksrannsókn á frumkvöðlastarfi sjö kvenna úr grasrót kennara, skólasafnskennara, kennslu­ráðgjafa og verkefnastjóra í upplýsingatækni. Konurnar eru áhugamenn um tækni í skólastarfi, starfa í nokkrum sveitar­félögum og búa að mikilli reynslu. Þær stofnuðu hóp til að kynna vinnubrögð og hugmyndafræði sköpunarsmiðja (e. maker­spaces), greiða fyrir innleiðingu þeirra í starf grunnskóla og ýta undir vinnubrögð og færni sem þar tíðkast. Hópurinn hefur leitað þekkingar í öðrum löndum, aflað búnaðar og tækni­kunnáttu, sett upp vef, beitt sér í samfélagsmiðlum, haldið kynningar fyrir breiðan hóp skólafólks og boðið upp á námskeið fyrir kennara. Konurnar hafa komið á fót sköpunarsmiðjum þar sem þær starfa og leitast við að virkja kennara og stjórnendur til samstarfs. Gögnum var safnað með hópviðtölum og ein­staklingsviðtölum yfir þriggja ára tímabil ásamt athugunum á notkun samfélagsmiðla og þróunarstarfi á vettvangi. Rann­sóknin beinist að því sem drífur konurnar áfram, gildum hópsins og atbeina kvennanna, tengslum innan hóps og utan, og þeim leiðum sem hafa verið farnar til að finna sköpunarsmiðjum stað í menningu og starfi grunnskóla. Breytt kennslufræði með áherslu á stafrænt læsi og sköpun með hjálp tækninnar mætir hindrunum en nýtur líka stuðnings stjórnenda, áhugasamra kennara og áhugahópa í samfélagsmiðlum. Konurnar hafa með samstilltu átaki og jafningjastuðningi eflt með sér vald, styrkt eigin athafnagetu, sigrast á áskorunum og tekið sér leiðtoga­hlutverk á nýju sviði tækninotkunar í skólastarfi.

Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, Torfi Hjartarson og Svava Pétursdóttir

Lykilorð: sköpunarsmiður, tækni, frumkvöðlar

Um það að nota Microsoft Teams til að stuðla að samvinnunámi í háskólakennslu

Í þessari kynningu verður gerð grein fyrir niðurstöðum starfendarannsóknar á notkun Microsoft Teams á háskóla­námskeiðum. 2016 kynnti Microsoft hópvinnukerfð Teams. Í maí 2017 kom út sérstök skólaútgáfa þjónustunnar. Í þessu erindi verður gerð grein fyrir tveggja ára rannsóknum á notkun MS-Teams við háskólakennslu árin 2018-2020.  Teams var notað í níu námskeiðum við námsleiðina „Nám Fullorðinna“ við Menntavísindasvið og tveimur námskeið við námsleið í Kennslufræði fyrir iðnmeistara. Markmið rannsóknarinnar var að kanna, hvort og hvernig kerfið stuðli að og styðji við samvinnu nemenda í námi. Grundvallarsjónarmið við val á kerfinu voru að velja kerfi sem nemendur muni geta nýtt sjálfir í starfi og kerfi sem er sérstaklega smíðað til að styðja við samvinnu fólks. Microsoft Teams uppfyllti bæði skilyrðin vel og lá vel við höggi þar sem aðgangur háskólans að kerfinu hafði einmitt opnast. Rannsóknin byggir á greiningu á samskiptum nemenda á námskeiðunum, sjálfsmati þeirra í lok námskeiða, dagbókar­færslum kennara og á könnunum sem voru lagðar fyrir nemendur á námskeiðunum. Niðurstöður leiddu í ljós að það tók suma nemendur nokkurn tíma að læra að rata um kerfið, en þegar því var náð þótti þeim allflestum kerfið styðja mjög vel við samvinnu sína við aðra nemendur og kennara. Ákveðnir þættir í kerfinu sjálfu þóttu stuðla að samvinnu nemenda, en markviss stuðningur í skipulagi námsins og í hegðun kennara þótti skipta sköpum.

Hróbjartur Árnason

Lykilorð: samvinnunám, fjarnámskeið, Microsoft Teams

MOOC námskeið sem hluti af hefðbundnu háskólanámskeiði

Í þessu erindi er lýst því líkani að íslenskt háskólanámskeið með fjarkennslusniði felli inn erlent MOOC námskeið (Massive Open Online Course). Erindið byggir á starfendarannsókn höfundar þar sem erlent MOOC námskeið var fellt inn sem hluti af námskeiðinu Nám og kennsla á netinu á Menntavísindasviði. Þrír námshópar vorin 2018 (n=16),2019(n=13) og 2020 (n=14) tóku þátt í námskeiði með því sniði.Markmiðið var annars vegar að  nemendur tækju þátt í MOOC starfsþróunar­námskeiði í anda hugsmíðahyggju þar sem þeir gætu hannað eigin námseiningar og hins vegar að mynda lítinn nemendahóp/nemendasamfélag á heimavelli sem fer saman í gegnum risastórt MOOC námskeið. Stuðningur var veittur við erlenda MOOC námskeiðið með skjáupptökum og netfundum-/netviðtalstímum og reynt að byggja upp námssamfélag. MOOC námskeiðið var námskeið um námskerfi og net­námskeið sem stóð í fjórar vikur og lauk með viðurkenningu um námsárangur. Þátttaka í MOOC námskeiði reyndist mikilvæg námsreynsla. Stuðningur auðveldaði nemendum að feta sig á stóru MOOC námskeiði sem gat í byrjun virst ruglandi og yfirþyrmandi. Nemendur skoðuðu fyrst og fremst námsefni á MOOC námskeiði og gerðu verkefni en tóku lítinn þátt í námssamfélagi þar. Nemendur tóku þátt í námssamfélagi á íslenska háskólanámskeiðinu.

Salvör Gissurardóttir

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 11:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 12:45
  • Zoom meeting id: 679 9826 8485
Höfundar erinda
Lektor / Assistant professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Aðjúnkt / Adjunct lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 11:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 12:45
  • Zoom meeting id: 679 9826 8485