Nýsköpun og viðskiptaþróun

Málstofustjóri: Magnús Þór Torfason

Erindi þessarar málstofu fjalla um umhverfi og jarðveg nýsköpunar. Meðal umfjöllunarefna eru aðkoma akademískra starfsmanna að nýsköpun, geta til nýsköpunar í óvæntun aðstæðum, aðkoma fjárfesta að nýsköpun og notkun hermilíkana í nýsköpunarrannsóknum.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Notkun hermilíkana til rannsókna á samspili nýsköpunar og tækniþróunar

Mikilvægi tækniþróunar og nýsköpunar fyrir hagþróun og hagvöxt hefur lengi verið þekkt. Gjarnan var litið svo á að tækniþróun og nýsköpun ætti sér stað utan hagkerfisins og áhrifin af þeim kæmu því að utan (e. exogeneous). Á síðustu árum og áratugum hefur verið vaxandi áhugi á því að skilja hvernig tækniþróun og nýsköpun á sér stað sem hluti af innra gangverki hagkerfisins (e. endogeneous) með sérstakri áherslu á samspilið þeirra á milli. Þetta hefur kallað á nýjar rannsóknaraðferðir, m.a. notkun hermilíkana, til að taka tillit til gagnverkandi áhrifa yfir lengri tíma. Markmiðið með þessari rannsókn er að taka stöðuna á notkun hermilíkana til rannsókna á samspili nýsköpunar og tækniþróunar. Kerfisbundin heimildaleit í Scopus gagnagrunninum var framkvæmd og niðurstöðurnar greindar með tilliti til hvaða þættir í samspilinu voru rannsakaðar með aðstoð hermilíkana. Þáttunum er skipt í fjögur þemu: uppbygging atvinnugreina, lífsferli vara og tækni, net þátttakenda og stefnumótun fyrirtækja. Fyrir hvert þema er farið nánar í eðli rannsóknanna og hvernig áherslur hafa breyst í áranna rás. Á grundvelli greiningarinnar er rætt um takmarkanir við notkun hermilíkana við rannsóknir af þessu tagi og settar fram hugmyndir um frekari rannsóknir.

Árni Björn Gestsson og Rögnvaldur J. Sæmundsson

Lykilorð: samspil nýsköpunar og tækniþróunar, hermilíkön, kerfisbundin heimildaleit

Samfjárfestingar íslenskra  og erlendra áhættufjárfesta í sprotafyrirtækjum

Fjármögnun sprotafyrirtækja er mikilvægur þáttur í umhverfi nýsköpunar. Mikilvægur liður í því umhverfi eru fjárfestingasjóðir sem sérhæfa sig í fjármögnun sprotafyrirtækja, svokallaðir vísisjóðir (e. VC Investors). Rannsóknir hafa sýnt að mikilvæg þekkingaryfirfærsla á sér stað í gegnum reynslu vísifjárfesta, meðal annars vegna samfjárfestinga fleiri en eins vísisjóðs í sama sprotafyrirtækinu. Samfjárfestingar vísisjóða í sprotafyrirtækjum, ásamt því að hver sjóður fjárfestir í fleiri en einu sprotafyrirtæki, valda því að til verður tengslanet þar sem sprotafyrirtæki geta lært hvert af öðru um hvað reynist best í lausnaþróun, markaðssetningu og fjármögnun. Í þessari rannsókn eru gögn úr Crunchbase, alþjóðlegum gagnagrunni um sprotafjárfestingar notuð til að skoða hvernig íslenskt sprotafjárfestingaumhverfi lítur út með hliðsjón af samfjárfestingum og hvernig það hefur breyst frá aldamótum. Niðurstöðurnar gefa til kynna að hlutfall þeirra fjárfesta þar sem fleiri en einn fjárfestir koma í sameiningu að fjárfestingu hafi hækkað töluvert á tímabilinu, sérstaklega á undanförnum fimm árum. Samfjárfestingum íslenskra og erlendra fjárfesta hefur einnig fjölgað, en þó er mjög algengt að einungis íslenskir eða einungis erlendir fjárfestar komi að hverri samfjárfestingu. Þar sem samfjárfestingar íslenskra og erlendra fjárfesta voru mjög fátíðar þar til nýverið, er erfitt að meta árangur af þeim. Þó eru ákveðnar vísbendingar um að sprotafyrirtækjum sem hljóta slíkar fjárfestingar vegni betur en þeim sem fá fjárfestingar þar sem einungis íslenskir fjárfestar taka þátt.

Magnús Þór Torfason

Lykilorð: sprotafjárfestingar, nýsköpunarumhverfi, tengslanet

Allt klárt fyrir nýsköpun? Virkjun stjórnunarhátta nýsköpunar í upphafi COVID-19 faraldursins

Sköpun og notun nýrrar vísinda- og tækniþekkingar er flókið ferli með óvissri útkomu. Að því koma ólíkir aðilar sem hafa mismunandi markmið, svo sem háskólar, hið opinbera, einkafyrirtæki og ýmis hagsmunasamtök. Betri skilningur á því hvernig stjórnunarhættir (e. governance), þ.e. hvernig hvatt er til nýsköpunar og komist hjá óæskilegum áhrifum hennar, tengjast útkomu ferlisins er bæði áhugaverður frá fræðilegu sjónarhorni og mikilvægur til að takast á við þær samfélagslegu áskoranir sem þjóðir heimsins standa frammi fyrir. Í upphafi COVID-19 faraldursins skapaðist þörf fyrir að skapa og nota nýja vísinda- og tækniþekkingu, bæði læknisfræðilega þekkingu til að þróa bóluefni og meðferðarúrræði og þekkingu sem tengist beitingu hefðbundinna sóttvarnarráðstafanna við þessar sérstöku aðstæður. Markmið rannsóknarinnar er að greina viðbragð við COVID-19 á Íslandi með það fyrir augum að auka skilning á samspili stjórnunarhátta og útkomu nýsköpunar sem byggir á nýrri vísinda- og tækniþekkingu. Greiningin takmarkast við fyrstu bylgju faraldurins og nær aðeins til beitingu sóttvarnarráðstafanna. Notast er við opinber gögn til að greina þáttakendur og atburðarrás á þremur sviðum: skimun, smitrakning og samskipti við almenning. Á grundvelli niðurstaðna eru dregnar ályktanir um forsendur árangursríks samstarfi ólíkra aðila og rætt hvernig niðurstöður frá þessum sérstöku aðstæðum nýtast til frekari rannsókna.

Rögnvaldur J. Sæmundsson

Lykilorð: stjórnunarhættir nýsköpunar, COVID-19, vísinda- og tækniþekking

Ólík staða kynjanna í fjármögnun sprotafyrirtækja á Íslandi

Nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi er mikilvæg fyrir efnahagslegan vöxt sem skilar auknum verðmætum til samfélagsins. Aðgengi frumkvöðla að fjármagni er oft ein lykilforsenda þess að hrinda hugmyndum í framkvæmd. Fjármögnunarumhverfi á Íslandi hefur tekið miklum breytingum síðustu árin og fjármögnunarmöguleikar sprotafyrirtækja eru sífellt að aukast. Færri konur en karlar eru frumkvöðlar en það er hagur allra að kraftar beggja kynja fái að njóta sín. Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif kyns í fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja á Íslandi. Áhrif kynjanna voru skoðuð út frá hlutföllum á milli kynjanna, breytingum á milli ára, upphæð og tegund fjármögnunar. Kynjaáhrifin voru bæði könnuð út frá þeim sprotafyrirtækjum sem hafa fengið fjármögnun og svo þeim sem fjármagna sprotafyrirtækin. Notast var við megindlega aðferðafræði þar sem notuð voru gögn úr gagnasafni Crunchbase sem er eitt af helstu gagnasöfnum um fjárfestingar fyrirtækja í heiminum. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að fjármögnunarumhverfið einkennist af veigamiklum kynjamun þar sem karlar eru ríkjandi, bæði þegar kemur að frumkvöðlum innan sprotafyrirtækjanna og ákvörðunaraðilum um fjármögnun. Þá kom í ljós að kynjamunurinn er meiri þegar um fjárfestingu er að ræða en þegar fjármögnun er í formi styrkja. Einnig voru vísbendingar um að kvenkyns stofnendur væru líklegri til þess að fá fjármögnun frá kvenkyns ákvörðunaraðilum um fjármögnun.

Sandra Rós Bjarnadóttir og Magnús Þór Torfason

Lykilorð: nýsköpun, sprotafjárfestingar, kynjamunur

Researchers’ involvement in Third Mission activities in Iceland

This presentation discusses preliminary results of our research about the participation of academics in the third mission (TM) of universities. Hereby, our aim is to assess the extent of commercial and technology transfer activities. Beyond that, we further analyse informal undertakings of academics, and communication and dissemination of scientific knowledge to wider society.Often research around the third mission and entrepreneurial universities has illuminated only certain disciplines such as engineering and natural sciences, but in our study, we collected data from academics of all disciplines. Therefore, a population survey was sent out to permanently employed academics at Icelandic universities in 2021. The questionnaire contained items about different TM activities, collaboration partners, outcomes, and barriers. Most common TM activities at Icelandic universities are holding lectures or debates, contract research/joint research, organising conferences and workshops, and joint teaching courses. Outcomes of these activities are not directly commercial but are more based on the “traditional” mission of universities, that is research and teaching.The results indicate that it is possible to improve the definition and categorisation of TM further as the term is still unclear for university management and policy makers but crucial for developing an entrepreneurial university model and for adapting a socio-economic role.

Verena Karlsdóttir, Magnús Þór Torfason, Thamar M. Heijstra og Ingi Rúnar Eðvarðsson

Lykilorð: third mission, entrepreneurial university, academic entrepreneurship

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  29/10, 2021 13:00
 • Málstofu lýkur
  29/10, 2021 14:45
Höfundar erinda
Doktorsnemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  29/10, 2021 13:00
 • Málstofu lýkur
  29/10, 2021 14:45