Ójöfnuður og félagsleg lagskipting

 


Láglaunakonur, vellíðan og velferðarkerfið á Íslandi

Höfundar: Maya Staub, Berglind Hólm Ragnarsdóttir

Ágrip:

Eitt aðalhlutverk velferðarkerfa er að tryggja grundvallarmannréttindi og jöfnuð í samfélaginu. Með hjálp skipulagðra almannatrygginga og opinberrar velferðarþjónustu er þeim til dæmis ætlað að tryggja atvinnuleysisbætur, örorkubætur, fæðingarorlof, heilbrigðisþjónustu og félagslega þjónustu óháð efnahag. Þekkt er að sú ójafna staða kvenna og karla sem ríkir á vinnumarkaði hefur leitt til þess að konur—og þá sérstaklega konur í lágtekjuhópum—treysta í meira mæli á stuðning hins opinbera heldur en karlar. Að þurfa að reiða allt sitt á velferðar- og bótakerfi stjórnvalda getur hins vegar leitt til þess að fólk festist í fátækt og félagslegri einangrun. Rannsóknir á heilsu kvenna og karla á Íslandi hafa sýnt að þótt konur lifi lengur en karlar eru þær líklegri til að glíma við heilsufarsvandamál í daglegu lífi, einnig benda þær til þess að þættir eins og fjárhagserfiðleikar og verri lífskjör stuðli að þessu ástandi. Hins vegar eru konur ekki einsleitur hópur, en þættir eins og efnahagur, uppruni og staðarsamhengi (e. Spatial context) geta allir haft áhrif á andlega og líkamlega líðan þeirra. Markmið rannsóknarinnar er að greina líkamlega og andlega líðan kvenna á Íslandi með tilliti til efnahagsstöðu þeirra, búsetu, og innflytjendastöðu og kortleggja upplifun þeirra af velferðarkerfinu. Rannsóknin byggir á spurningalistakönnun sem lögð var fyrir úrtak allra íslenskra kvenna á vinnualdri (25-64 ára). Hringt var í rúmlega 3000 konur á vor- og sumarmánuðum 2022 og verða frumniðurstöður greiningarinnar birtar á Þjóðaspeglinum.

Efnisorð: Konur, Andleg og líkamleg heilsa, Velferðarkerfið, Efnahagsstaða, Innflytjendastaða, Staðarsamhengi


Áhrif auðmagns á viðhorf til ójafnaðar og velferðarkerfisins

Höfundar: Sigrún Ólafsdóttir, Jón Gunnar Bernburg

Ágrip:

Félagsfræðingar hafa löngum haft áhuga á hvernig félagsleg staða hefur áhrif á ýmsar útkomur, þar á meðal viðhorf fólks til velferðarkerfisins og ójafnaðar. Það eru ýmsar leiðir til að mæla félagslega stöðu, allt frá skiptingu Marx í auðstéttina og öreiga, til áherslu Webers á félagslegar stöðu yfir í kenningar Bourdieu um mismunandi tegundir auðmagns. Á meðan hefðbundnar mælingar á menntun og tekjum skipta miklu máli í að skilja hvernig stéttir hafa áhrif á viðhorf, þá er skipting fólks í stéttir mun flóknari og einstaklingar nota ýmsar leiðir til að draga mörk á milli þeirra sjálfra og annarra. Þessi mörk tengjast auðvitað hlutlægum mælingum á stéttarstöðu, en tengjast líka lífsstíl, félagslegum stuðningi og valdi. Rannsóknir á velferðarkerfinu og ójöfnuði hafa almennt sýnt að þeir sem hagnast meira af velferðarstefnu eru almennt líklegri til að styðja velferðarkerfið og tilraunir til að draga úr ójöfnuði. Við notum gögn frá Íslensku Félagsvísindarannsókninni 2020 til að skoða hvernig mismunandi tegundir auðmagns hafa áhrif á viðhorf til tekjuójafnaðar og ábyrgðar ríkisvaldsins við að draga úr slíkum ójöfnuði. Við byrjum á að skoða hvernig félagslegt, efnahagslegt, tákrænt og menningarlegt auðmagn dreifist á meðal íslensku þjóðarinnar og bætum því við hefðbundnari mælingar á stetterstöðu. Niðurstöðurnar sýna að slíkt auðmagn hefur áhrif á viðhorf til velferðarkerfisins og ójafnaðar, þar sem elítustaða í samfélaginu dregur úr líkum á að vilja minnka ójöfnuð en hugmundafræðileg staða hefur áhrif á að vilja standa vörð um jafnt aðgengi að velferðarþjónustu.

Efnisorð: Ójöfnuður, Velferðarkerfið, Auðmagn


Húsnæðismarkaðurinn frá sjónarhóli mannréttinda

Höfundar: Kári Hólmar Ragnarsson

Ágrip:

Meðal alþjóðlegra mannréttindaskuldbindinga Íslands er réttur til viðeigandi lífsskilyrða, þar með talið réttur til húsnæðis. Í þeim rétti felst m.a. að húsnæði sé fjárhagslega viðráðanlegt. Ríkið ber margþættar skyldur til þess að koma réttinum til framkvæmdar, bæði athafna- og athafnaleysisskyldur. Nær ekkert hefur verið fjallað um réttinn til húsnæðis hér á landi, þótt ljóst megi vera að húsnæðisöryggi sé lykilþáttur viðunandi lífskjara. Megininntaki réttarins til húsnæðis verður lýst og fjallað um hvaða áhrif það kann að hafa að bregða mannréttindaljósi á húsnæðismál. Fjallað verður um erlenda og alþjóðlega dómaframkvæmd þar sem réttur til húsnæðis hefur áhrif á möguleika lánastofnana til fullnustugerða og áhrif á hlutverk stofnana ríkisins við framkvæmd slíkra gerða. Þá verður fjallað sérstaklega um tengsl mannréttinda og fjármagnsvæðingu húsnæðis. Á síðustu áratugum hefur húsnæði fengið aukið vægi sem verslunarvara eða fjárfestingarkostur frekar en sem heimili og hefur hlutur fagfjárfesta á fasteigna- og leigumarkaði aukist. Í alþjóðlegri umfjöllun er lögð áhersla á að mannréttindasjónarhorn á húsnæðismarkaðinn geri þá kröfu að húsnæði sé fyrst og fremst heimili, enda hafi fjármagnsvæðing húsnæðis haft alvarleg áhrif á möguleika fólks til öruggrar búsetu. Við stefnumótun skuli því hafa í forgrunni hið samfélagslega hlutverk húsnæðis. Frá þessu sjónarhorni verður staða íslensks húsnæðismarkaðar skoðuð og bent á að mannréttindaskyldur ríkisins kunni að gera kröfu um breytta reglusetningu á fasteignamarkaði, aukna vernd leigjenda, breytta framkvæmd fullnustugerða og virkara hlutverk ríkisins við að tryggja rétt til viðeigandi húsnæðis.

Efnisorð: Mannréttindi, Lögfræði, Húsnæðismál, Fátækt, Ójöfnuður


“Nomads” or not “Nomads”? Critically addressing Roma housing segregation in Rome (Italy)

Höfundar: Marco Solimene

Ágrip:

For decades Rome has been preoccupied with the presence of the “Nomads” ‒ a category used in reference to Roma (independently from their actual practices and self-identification) and implying allegations of backwardness and deviance. The various “Nomads Plans” implemented by the city authorities have forced thousands of Roma families to socio-economic precarity and segregation in ethnic ghettos, so-called campi nomadi. In the last years, in response to the EU and national frameworks for Roma inclusion, Rome’s administration questioned nomadism as main asset of Roma identity and campi nomadi as proper housing solutions. The results, however, are questionable. Authorities started systematically denying Roma mobility, even in case of families that actually practice itinerant livelihoods; nonetheless, the equivalence between Roma and “Nomads” continues surreptitiously framing discriminatory institutional discourses. Meanwhile, the recent implementation of the policy of “housing transition” (from campi nomadi to houses) – a process that often remains stranded ‒ is resulting in the demolition of Roma settlements that the authorities created, that have existed for decades, and whose inhabitants see as their home. Building on a long-term ethnographic fieldwork with Bosnian Roma families living in the Roman peripheries, this paper critically addresses the recent turn in Roma-related housing policies in Rome. It thus stresses the importance of participatory approaches in the ideation and implementation of interventions that aim at tackling social inequalities and ethnic segregation.

Efnisorð: Roma, Urban ghettos, Housing policies, Anti-Gypsyism, Rome


Stéttaorðræða í íslenskum fjölmiðlum

Höfundar: Guðmundur Oddsson

Ágrip:

Íslensku þjóðfélagi var löngum lýst sem stéttlausu í almennri umræðu og á vettvangi stjórnmálanna. Þessi orðræða endurspeglar og mótar sjálfsögð sannindi um tiltölulegt stéttleysi Íslands. Nýlegar rannsóknir og spurningakannanir benda hins vegar til þess að grafið hafi undan hugmyndum um stéttleysi síðustu áratugi og að landsmenn séu meðvitaðri um stéttaskiptingu íslensks samfélags en áður. Í erindinu er markmiðið að varpa ljósi á breyttar hugmyndir Íslendinga um stéttaskiptingu á grundvelli eigindlegrar og megindlegrar innihaldsgreiningar á stéttaorðræðu í íslenskum fjölmiðlum frá árinu 2005 til 2020. Gögnin koma úr fréttasafni Fjölmiðlavaktar Creditinfo og samanstanda af fréttum úr dagblöðum, sjónvarpi og útvarpi frá 2005 og úr stærstum netmiðlum landsins frá 2010. Við túlkun niðurstaðna er stuðst við stéttakenningu Pierre Bourdieu og kenningu félagsfræðingsins Wayne Brekhus um félagslega merkingu (e. social markedness) sem vísar til þess hvernig fólk leggur áherslu á aðra hlið andstæðna en hunsar hina sem þekkingarfræðilega ómerkilega. Niðurstöðurnar benda til þess að stéttavitund landsmanna hafi aukist frá því sem áður var. Hins vegar eru Íslendingar eftir sem áður gjarnir að merkja (e. mark) aðrar samfélagsgerðir sem stéttskiptar en líta framhjá stéttaskiptingu eigin samtímaþjóðfélags sem ómarkverðri (e. unremarkable). Þetta ferli ómerkir (e. unmarks) stéttaskiptingu á Íslandi og viðheldur þar með hugmyndum um stéttleysi Íslands. Niðurstöðurnar sýna að stéttavitund er að hluta félagsleg sköpun sem byggir á samanburði.

Efnisorð: fjölmiðlar, innihaldsgreining, stéttaorðræða

 

 

Upplýsingar
Upplýsingar