Ójöfnuður og vinnumarkaður

 


„Frelsi til að láta gott af sér leiða“: Upplifun kvenna af erlendum uppruna á frumkvöðlastarfsemi á Íslandi

Höfundar: Þóra H. Christiansen and Erla Sólveig Kristjánsdóttir

 

Ágrip:

Framlag innflytjenda til nýsköpunar og tækniþróunar er vel þekkt. Hvatar til frumkvöðlastarfs innflytjenda eru ýmsir, en má flokka sem sókn eftir tækifærum eða sem nauðsyn, t.d. viðbrögð við hindrunum á vinnumarkaði. Vísbendingar eru auk þess um að sköpunarkraftur og frumkvöðlahugsun sé oft sterkari meðal innflytjenda en annara. Takmarkaðar rannsóknir eru til um frumkvöðlastarf og fyrirtækjarekstur innflytjenda á Íslandi, auk þess sem staðalímynd frumkvöðla er að jafnaði fremur karllæg og því brýnt að beina sjónum að frumkvöðlastarfi innflytjendakvenna á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar er að öðlast skilning á upplifun innflytjendakvenna sem reka eigin fyrirtæki á Íslandi af helstu hvötum og hindrunum í þeirra frumkvöðlastarfi. Tekin voru viðtöl við tólf konur sem búið hafa á Íslandi og rekið eigin fyrirtæki í að minnsta kosti tvö ár og voru viðtölin greind samkvæmt rannsóknaraðferðum fyrirbærafræði. Helstu niðurstöður benda til að sterkasti hvatinn til frumkvöðlastarfs innflytjendakvennanna sé að skapa félagslegt virði og gefa til baka til samfélagsins. Smæð íslensks samfélags upplifa konurnar sem ákveðna hindrun þegar þær mæta lokuðum hópum, en margar þeirra hafa einnig fundið leiðir til að nýta sér smæðina og aðgengileikann að fólki í valdastöðum. Jafnframt upplifðu þær hindranir vegna skörunar (intersectionality) kyns, uppruna og kynþáttar og ræddu reynslu af útilokun, bæði í karllægum geirum og í stuðningsneti kvenna. Konurnar hafa fundið ýmsar leiðir til að takast á við þessar hindranir en ljóst er að bæta má stuðning og hrinda úr vegi hindrunum svo framlag frumkvöðlakvenna af erlendum uppruna nýtist þeim og samfélaginu að fullu.

 

Efnisorð: Frumkvöðlastarf, Innflytjendur, Hindranir, Hvatar, Konur, Útilokun, Skörun


Staða kvenna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði

Höfundar: Berglind Hólm Ragnarsdóttir

 

Ágrip:

Í erindinu verða kynntar niðurstöður byggðar á rannsókn sem framkvæmd var á vor-og sumarmánuðum 2022 á stöðu og líðan kvenna á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar er tvíþætt: Í fyrsta lagi að skoða hvernig ólíkir þættir er tengjast fjölskylduábyrgð og atvinnuþátttöku hafa áhrif á líkamlega og andlega líðan kvenna á Íslandi og hvernig það samband birtist eftir stéttastöðu þeirra. Í öðru lagi að skoða hver reynsla láglaunakvenna er af velferðarkerfinu á Íslandi og hvert hlutverk kerfisins er í að viðhalda félagslegu misrétti. Hringt var í tæplega 3000 konur og 1251 kona svaraði könnuninni. Mikil áhersla var lögð á að ná til fjölbreytts hóps kvenna, meðal annars með því að ráða spyrla sem tala íslensku, pólsku og ensku. Það skilaði sér í því að hlutfall kvenna með erlendan ríkisborgararétt í úrtakinu er í samræmi við hlutfallið í þýði. Í þessu erindi verður lögð áhersla á að greina stöðu kvenna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði og upplifun þeirra af velferðakerfinu. Leitast verður við að svara spurningum eins og í hvernig greinum þær starfa helst, hvert starfshlutfall þeirra er og hverjar tekjur þeirra eru. Einnig verður gerð grein fyrir andlegri og líkamlegri líðan þeirra, heimilisaðstæðum og félagsauði. Niðurstöðurnar verða skoðaðar í samhengi við stöðu allra kvenna á Íslandi.

 

Efnisorð: Uppruni, Vinnumarkaður, Ójöfnuður, Lagskipting, Líðan, Velferðakerfið


Eru störf kvenna minna virði en karla? – Jafnlaunavottun og launamunur kynja

Höfundar: Ragna Kemp Haraldsdóttir, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir and Guðbjörg Linda Rafnsdóttir

 

Ágrip:

Innleiðing jafnlaunastaðalsins ÍST85:2012 var lögfest árið 2017. Fyrirtækjum og stofnunum þar sem minnst 25 einstaklingar starfa að jafnaði var gert að innleiða jafnlaunakerfi og sækja um vottun. Lögunum var ætlað að draga úr launamun kynjanna sem hefur verið viðvarandi á Íslandi þrátt fyrir að lög hafi verið sett árið 1961 sem bönnuðu að konum og körlum væru greidd mismunandi laun fyrir sömu eða sambærileg störf. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að skoða hvaða árangri innleiðing jafnlaunastaðalsins hefur skilað. Tekin voru viðtöl við 20 stjórnendur í vottuðum fyrirtækjum og stofnunum auk fulltrúa fjögurra vottunarstofa. Sjónum var beint að styrkleikum og veikleikum staðalsins sem og vottunarferlisins. Gögn úr launarannsókn Hagstofu Íslands voru greind og bornar saman breytingar á óleiðréttum launamun kvenna og karla innan einstakra fyrirtækja og stofnana á árunum 2012-2020, eftir því hvort þau höfðu innleitt jafnlaunakerfi eða ekki. Greining var einnig gerð á lagskiptingu starfa innan þessara fyrirtækja og stofnana með tilliti til kynjahlutfalls og launasetningar til þess að varpa ljósi á þá spurningu hvort störf kvenna séu álitin minna virði en karla. Niðurstöðurnar sýna að þrátt fyrir að viðmælendur teldu þörf á að bæta ýmislegt í innleiðingarferli og vottun jafnlaunakerfa, þá voru þeir almennt þeirrar skoðunar að með innleiðingu jafnlaunakerfis fylgdi aukið gagnsæi og bættir verkferlar í tengslum við launasetningu og launaafgreiðslu. Niðurstöður tölfræðigreiningarinnar sýna þó ekki merki um að meira hafi dregið úr launamun kynja hjá þeim stofnunum og fyrirtækjum sem fengið hafa vottun en þeim sem ekki hafa hafið þá vegferð.

 

Efnisorð: Jafnlaunastaðall, Launamunur kynja, Launarannsókn, Gæðavottun


Konur í sjávarútvegi eru eins og súrefni til fjalla, því ofar sem þú ferð því minna er af þeim

Höfundar: Asta Dis Oladottir

 

Ágrip:

Sjávarútvegur hefur löngum þótt karllæg atvinnugrein og fáar rannsóknir liggja fyrir um stöðu kvenna í æðstu stöðum í sjávarútvegi, þrátt fyrir að miklar breytingar séu að eiga sér stað, m.a. með aukinni tækni- og sjálfvirknivæðingu. Vegna staðalímynda og hefða hefur minna borið á konum en körlum í stjórnum, fáar konur gegna æðstu stjórnunarstöðum, nema þær sem eru eigendur tiltekinna félaga eða tengdar fjölskylduböndum. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á stöðu kynjanna í sjávarútvegi og á þá þróun sem orðið hefur á undanförnum árum.
Í rannsókninni er sjónum beint að því hvaða stöðum konur gegna í sjávarútvegi, hvort kynin hafi jöfn tækifæri til að öðlast starfsframa innan atvinnugreinarinnar og hvort markvisst sé unnið að jöfnum tækifærum kynjanna í sjávarútvegi.
Stuðst er við megindlega aðferð, spurningalisti sem innihélt 24 spurningar var sendur á stjórnendur allra fyrirtækja, stofnana eða deilda sem flokkast undir sjávarútveg, 422 vinnustaði og 185 stjórnendur svöruðu. Svarhlutfallið var því 44%. Hér verður gerð grein fyrir niðurstöðum fimm lykilspurninga: Hvaða störfum kynin sinna á vinnustaðnum, hlutfall kvenna og karla meðal æðstu stjórnenda, hlutfall kynjanna meðal eigenda, hvort kynin fái jöfn tækifæri til starfsframa og hvort þau sækist eftir ólíkum tegundum starfa. Að lokum er skoðað hvort markvisst sé unnið að því að jafna stöðu karla og kvenna. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar felst í því að varpa frekara ljósi á stöðu kynjanna í sjávarútvegi og hvort konur sækjast eftir starfsframa til jafns við karla innan atvinnugreinarinnar. Fræðilegt gildi og framlag rannsóknarinnar felst í aukinni þekkingu um stöðu kynjanna í sjávarútvegi.

 

Efnisorð: jöfn tækifæri, konur í sjávarútvegi, staðalímyndir, stjórnunarstörf


„Er þetta ekki bara útlendingur eða?“

Höfundar: Þóra Lind Halldórsdóttir, Erla Sólveig Kristjánsdóttir and Þóra H. Christiansen

Ágrip:

Aukning fólksflutninga og hreyfanleika í heiminum hefur gert það að verkum að fjölgun innflytjenda í Evrópu hefur vaxið hvað mest á heimsvísu á árabilinu 2000-2020. Á síðustu árum hefur fólk af erlendum uppruna orðið stór hluti af íslensku atvinnulífi. Niðurstöður rannsókna sýna að fólk af erlendum uppruna fær síður störf sem hæfir menntun þeirra og að fólk sem ekki er hvítt á hörund er útsett fyrir fordómum, mismunun og útilokun á íslenskum vinnumarkaði og hafa fordómar gagnvart karlkyns innflytjendum af mismunandi kynþætti aukist á Íslandi. Í þessari rannsókn var leitast við að skoða upplifun karlstjórnenda, af mismunandi uppruna, kynþætti og sem ekki eru hvítir, af stöðu sinni á íslenskum vinnumarkaði. Markmið og tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvernig karlstjórnendurnir upplifa tækifæri, hindranir og möguleika á framgangi í starfi. Framkvæmd var eigindleg rannsókn og tekin voru djúpviðtöl við tólf karlstjórnendur af erlendum uppruna og kynþætti. Niðurstöður sýna að viðmælendur upplifa að tungumálið sé hindrun til þátttöku á íslenskum vinnumarkaði og standi í vegi fyrir framgangi í starfi. Þeir upplifa að menntun þeirra sé ekki metin á íslenskum vinnumarkaði og að tækifærin séu ójöfn. Ennfremur upplifa þeir fordóma, mismunun vegna kynþáttar, tungumáls og trúarbragða sem gerir þeim erfitt fyrir að tilheyra íslensku samfélagi. Niðurstöður þessarar rannsóknar auka skilning og þekkingu á stöðu karlstjórnenda af ólíkum uppruna og kynþætti. Vinnuveitendur gegna mikilvægu hlutverki í inngildingu innflytjenda og mikilvægt er að þróa árangursríkar aðferðir, eins og fræðslu um fjölbreytileika, til að stuðla að inngildingu á vinnumarkaði.

 

Efnisorð: Innflytjendur, Kynþáttafordómar, Karlstjórnendur, Inngilding, Hindranir

Upplýsingar
Upplýsingar