Popúlismi, ójöfnuður, stétt og staða

Málstofustjóri: Jón Gunnar Bernburg

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Þjóðarávarpið – nýþjóðernishyggja eftirstríðsáranna

Í þessu erindi er endurnýjuð framrás þjóðernishyggju á eftirstríðsárunum, sem birst hefur í uppgangi þjóðernispopúlískra stjórnmálaflokka, til skoðunar. Ég held því fram að undanfarna hálfa öld hafi orðið til ný birtingarmynd þjóðernishyggju á Vesturlöndum, sem byggir á popúlískri orðræðuskiptingu á milli þjóðfélagshópa sem eru taldir tilheyra þjóðinni og hinna sem skildir eru frá henni. Þessa popúlísku þjóðernishyggju síðari tíma kalla ég nýþjóðernishyggju.

Fylkingar þjóðernispopúlista hafa yfirleitt sótt í sig veðrið í kjölfar þjóðfélagslegra áfalla eða mikilla samfélagsbreytinga. Í erindinu er tekist á við afleiðingar aðgreindra þjóðfélagsáfalla á eftirstríðsárunum.

Fyrsta bylgja þjóðernispopúlisma eftirstríðsáranna átti upptök sín í andófi gegn hárri skattlagningu og fjölmenningu í kjölfar olíukreppunnar á áttunda áratugnum. Önnur bylgjan skall á vegna gremju Vestur-Evrópubúa í garð verkafólks að austan sem þyrptist vestur á bóginn, yfir gamla járntjaldið, eftir fall Berlínarmúrsins árið 1989. Næstu hvörf komu í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum þann 11. september 2001. Í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar sem hófst árið 2008 reis þjóðernispopúlisminn upp í áður óþekktar hæðir. Næstu kaflaskil urðu með hápunkti flóttamannabylgjunnar árið 2015. Þjóðernishyggja var enn fremur tekin að krauma í kórónuveirufaraldrinum árið 2020.

Eiríkur Bergmann

Lykilorð: þjóðernishyggja, popúlismi, stjórnmálasaga

Félagslegur hreyfanleiki á Íslandi

Félagslegur hreyfanleiki er oft nefndur sem mikilvægur þáttur í vel virku samfélagi þar sem möguleikar fólks á að vinna sig upp samfélagsstigann á eigin verðleikum eru sannarlega fyrir hendi. Vísbendingar eru um að aukinn ójöfnuður innan OECD-ríkja á síðustu árum hafi neikvæð áhrif á félagslegan hreyfanleika og að einstaklingar standi í auknum mæli sem fastast á þeim stað samfélagsstigans sem þeir eru, hvort sem það er við topp hans eða botn. Aukinn ójöfnuður og aðrar samfélagslegar breytingar hér á landi á síðustu árum gerir íslenskt samfélag afar áhugavert í þessu ljósi þegar litið er til félagslegs hreyfanleika. Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvernig Íslendingar meta félagslegan hreyfanleika sinn á milli áranna 2009 og 2019 og hverjar helstu ástæður séu fyrir því að fólk meti sig sem félagslega hreyfanlegt. Stuðst er við spurningalistakönnunina Alþjóðlega viðhorfskönnunin (International Social Survey Programme) um félagslegan ójöfnuð, sem framkvæmd var hér á landi árin 2009 og 2019. Niðurstöður benda til þess að Íslendingar sjái sig í auknum mæli sem félagslega hreyfanleg upp á við í samfélagsstiganum. Hærra menntunarstig Íslendinga, hjúskaparstaða og heimilistekjur hafa þar meðal annars áhrif. Aukinn ójöfnuður virðist því ekki nægja til þess að fólk meti sig síður sem félagslega hreyfanlegt heldur hafa ólíkir samfélagslegir þættir áhrif á mat fólks.

Ómar Jóhannsson

Lykilorð: félagslegur hreyfanleiki, ójöfnuður, Ísland

Breytingar á huglægri stéttarstöðu Íslendinga, 2009-2019

Markmið þessarar rannsóknar er rýna í breytingar á huglægri stéttarstöðu Íslendinga milli áranna 2009 og 2019 og greina hvaða áhrifaþættir ráða mestu um það hvar landsmenn sjá sig í íslenska stéttakerfinu, einkum hvort viðkomandi sjái sig í millistétt eða ofar. Rannsóknir sýna að huglæg stéttarstaða hefur áhrif þætti á borð við kosningahegðun, upplifun af ójöfnuði og heilsufar. Þá er samsvörun huglægrar og hlutlægrar stéttarstöðu meðal annars notuð til þess að slá máli á stéttavitund (e. class awareness). Spurningalistagögnin sem rannsóknin byggir á koma úr alþjóðlegu viðhorfakönnuninni International Social Survey Programme (ISSP). Um er að ræða fyrstu rannsóknina á huglægri stéttastöðu hérlendis sem er með langtímasniði. Gögnin eru greind með aðhvarfsgreiningu og niðurstöðurnar eru túlkaðar út frá klassískum kenningum Karl Marx, Max Weber og Pierre Bourdieu um tengsl hlutlægrar og huglægrar stéttarstöðu. Meðal helstu niðurstaðna eru að eilítið hærra hlutfall Íslendinga sá sig í millistétt eða ofar árið 2019 samanborið við árið 2009. Menntun, heimilistekjur og hlutlæg stéttarstaða hafa mest forspárgildi fyrir hvort einstaklingar sjá sig í millistétt eða ofar í stéttakerfinu.

Guðmundur Oddsson

Lykilorð: huglæg stéttarstaða, millistétt, Ísland

Félagsleg misskipting og siðrof—eru tengsl?

Samkvæmt siðrofskenningunni (e. anomie theory) getur misskipting í nútímasamfélagi grafið undan hollustu einstaklinganna við sameiginleg viðmið (e. social norms) og þannig skapað „siðrof“—með tilheyrandi vantrausti, óreiðu og streitu. Kenningin gefur til kynna að þetta geti einkum gerst verði sú hugmynd ofan á að tækifærin til að komast lengra séu ekki aðeins háð verðleikum einstaklingsins heldur líka bæði áskipuðum eiginlegum (t.d. kyni, kynþætti) og auðmagni (t.d. fjölskylduuppruna, tengslum). Þessi klassíska kenning hefur sjaldan verið skoðuð með því að mæla siðrofsupplifanir fullorðinna einstaklinga. Við prófum ofangreindar tilgátur með mælingum úr viðhorfakönnun sem framkvæmd var hérlendis árin 2009 og 2020. Niðurstöður styðja þær tilgátur sem lagt var upp með. Einstaklingar sem telja að tækifærin mótist af áskipuðum stöðum og auðmagni hafa síður hollustu við sameiginleg viðmið (t.d. þeir segja frekar að það sé réttlætanlegt að fara á svig við reglur til þess að ná árangri). Ekki kemur fram marktækur munur milli tímapunktanna tveggja hvað þetta mynstur varðar.

Jón Gunnar Bernburg, Sigrún Ólafsdóttir og Þóroddur Bjarnason

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    29/10, 2021 15:00
  • Málstofu lýkur
    29/10, 2021 16:45
Höfundar erinda
Prófessor
Háskólinn á Bifröst / Bifröst University
Doktorsnemi
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    29/10, 2021 15:00
  • Málstofu lýkur
    29/10, 2021 16:45