Rannsóknir um atvinnuþátttöku fatlaðs fólks á Íslandi

Málstofustjóri: Stefan C. Hardonk

Samkvæmt samningi Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafa fatlaðir einstaklingar rétt á atvinnu á almennum vinnumarkaði til jafns við aðra. Rétturin nær til starfa sem fatlaðir einstaklingar velja sjálf og eru þeim við hæfi. Þá bera yfirvöld skyldu til að tryggja viðeigandi stuðning svo þátttaka fatlaðs fólks í vinnu verði árangursrík. Á Íslandi er stór hluti fatlaðs fólks hins vegar utan vinnumarkaðar, þ.e. í störfum á aðgreindum vinnustöðum, í atvinnuleysi eða annarri stöðu. Þetta á ekki síst við um einstaklinga með þroskahömlun en rannsóknir benda til þess að þeir upplifa margfaldar hindranir sem koma í veg fyrir að þeir fái að njóta réttar til vinnu. Talsvert af rannsóknum hefur átt sér stað erlendis en frekari þekkingu á stöðu mála er þörf á Íslandi. Í þessari málstofu verða kynntar nýjar íslenskar rannsóknir á sviði atvinnuþátttöku fatlaðs fólks almennt og fólks með þroskahömlun sérstaklega. Fjallað verður um ólík sjónarmið svo sem sjónarmið fatlaðra einstaklinga, fagfólks í stuðningsúrræðum á vinnumarkaði, og vinnuveitenda. Rannsóknirnar hafa það sameiginlegt að nálgast tækifæri og hindranir í atvinnuþátttöku fatlaðs fólks út frá gagnrýnni fötlunarfræði. Málstofan beinir sjónum að þáttum sem tengjast atvinnu án aðgreiningar (e. inclusion) með það að markmiði að stuðla að ígrundaðri umræðu um hvernig megi styðja við atvinnuþátttöku fatlaðs fólks á Íslandi.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Fólk með þroskahömlun á íslenskum vinnumarkaði: viðhorf til starfshæfni

Í fyrirlestrinum verður fyrst vikið að rannsóknarverkefni sem er undirstaða málstofunnar. Um samstarfsverkefni milli Háskóla Íslands og fjögurra háskóla í Noregi er að ræða og ber verkefnið heitið „Rethinking work inclusion for people with intellectual disabilities“. Rannsóknin er þríþætt. Hún samanstendur af megindlegri gagnaöflun um sjónarmið vinnuveitenda á atvinnu án aðgreiningar, eigindlegri gagnaöflun um atvinnu með stuðningi, og eigindlegri gagnaöflun um hæfni fólks með þroskahömlun. Hér verður kynntur þriðji þáttur rannsóknarinnar. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig vinnuveitendur á almennum vinnumarkaði meta hæfni fólks með þroskahömlun og hvernig þeir veita fólki með þroska­hömlun tækifæri til þess að efla og/eða öðlast nýja hæfni. Með því viljum við skilja betur hvernig viðhorf vinnuveitenda til hæfni geta stuðlað að eða dregið úr tækifærum fólks með þroska­hömlun á almennum vinnumarkaði. Notast var við eigindlegar rannsóknaraðferðir og gögnum var safnað með hálf opnum viðtölum við 18 vinnu­veitendur. Gögnin voru síðan greind með aðferðafræði grundaðrar kenningar í anda Charmaz. Fyrstu niður­stöður benda til þess að vinnuveitendur gera oft óáþreifanlegar kröfur um hæfni starfsmanna, t.d. út frá viðteknum hugmyndum um sam­skiptahæfni og jákvæðni. Menntunarkröfur eru algengar þegar rætt er um sérhæfð störf og stjórnendastörf en ekki alltaf nauð­synlegar í almennum störfum t.d. framleiðslustörfum innan fyrirtækja. Eðli starfa og viðhorf stjórnenda virðast hafa áhrif á tækifæri sem standa fólki með þroskahömlun til boða.

Bryndís Guðmundsdóttir, Sandra Halldórsdóttir og Stefan C. Hardonk

Lykilorð: fólk með þroskahömlun, atvinnuþátttaka, hæfni

Hvernig stuðlar ‚atvinna með stuðningi‘ að atvinnu án aðgreiningar fyrir fatlað fólk? Rannsókn um sjónarmið ráðgjafa Vinnumálastofnunar

Þó íslensk yfirvöld stefna að aukinni atvinnuþátttöku fatlaðs fólks, sýnir tölfræði að þessi hópur fær ekki tækifæri til jafns við aðra á vinnumarkaðnum. Það vekur spurningar um það hvort stuðningsúrræði á vinnumarkaðnum séu áhrifarík, t.d. ‚Atvinna með stuðningi‘ (AMS) (e. ‚Supported employment‘) sem er helsta úrræði fyrir fatlað fólk á Íslandi til að fá aðstoð við atvinnu­leit. Til þess að skilja ahrif AMS er mikilvægt að fá innsýn í það hvort úrræðið stuðlar að atvinnu án aðgreiningar (e. ‚inclusion‘). Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á sjónarmið ráðgjafa AMS með áherslu á hvernig þau lýsa hlutverki sínu sem og hlut­verkum skjólstæðinga þeirra og vinnuveitenda. Rannsóknin byggir á hálfopnum viðtölum við 10 ráðgjafa AMS þar sem spurt var um reynslu þeirra og sjónarmið á framvæmd stuðnings. Gagnagreining var framkvæmd í anda grundaðrar kenningar. Niðurstöður benda til þess að ólík sjónarmið eru meðal þátt­takenda á þýðingu ‚atvinnu án að­greiningar‘ og hvernig AMS geti stuðlað að því. Flestir gera ráð fyrir að þátttaka í starfi leiði sjálfkrafa til atvinnu án aðgreiningar. Áhersla er lögð á mikilvægi einstaklingsbundins stuðnings þótt það þýði ekki að alltaf sé unnið út frá óskum skjólstæðinga. Þátttakendur töluðu um hversu erfitt þeim finnst að takast á við fordóma vinnuveitenda í garð fatlaðs fólks. Að lokum töldu þeir að tímaskortur til að sinna eftirfylgni skjólstæðinga á vinnustaðnum takmarki áhrif úrræðisins.

Sandra Halldórsdóttir og Stefan C. Hardonk

Lykilorð: atvinnuþáttaka, fatlað fólk, atvinna með stuðningi

,,Þetta er bara það sem var í boði“ Um aðgreinda vinnustaði fyrir fatlað fólk

Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á hvernig inngilding (e. inclusion) fatlaðs fólks á almennan vinnumarkað birtist á að­greindum vinnustöðum fyrir fatlað fólk á Íslandi. Til viðmiðunar var Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafður til hliðsjónar og þá sérstaklega 27. gr. samningsins um rétt fatlaðs fólks til vinnu og starfs. Áhersla var lögð á stöðu fatlaðs fólks á aðgreindum vinnustöðum til að fá innsýn í þá þætti sem koma í veg fyrir tilfærslu þeirra yfir á almennan vinnu­stað. Rannsóknin var unnin með eigindlegum aðferðum. Tekin voru 7 opin viðtöl, þar af fjögur við fatlaða einstaklinga og þrjá forstöðumenn á aðgreindum vinnustöðum. Niðurstöðurnar sýna að fatlaðir viðmælendur upplifa stöðu sína á aðgreindum vinnustöðum sem ákveðna útilokun (e. exclusion) frá almenna vinnumarkaðnum. Ýmislegt í niðurstöðum gefur enn fremur til kynna að þrátt fyrir að um vinnustaði fatlaðs fólks hafi verið að ræða falli vinnustaðirnir ekki undir almenna skilgreiningu um hvað telst vera atvinna. Frásagnir forstöðu­manna benda til þess að almennt sé búið að flokka þá sem komast á almenna vinnumarkaðinn út frá getu og hæfni. Inngilding fatlaðs fólks á almenna vinnumarkaðinn virðist því eiga að mestu leyti við hjá þeim einstaklingum sem uppfylla fyrirfram ákveðnar kröfur. Af svörum þátttakendanna að dæma þá skortir tækifæri til að þróast og mótast í starfi innan sem utan aðgreindra vinnustaða.

Álfheiður Hafsteinsdóttir

Hafa félagsleg samskipti áhrif á sjálfsmynd döff fólks í fámennu samfélagi heyrnarlausra á Íslandi?

Lítið er vitað um sjálfskilning og félagsleg samskipti döff fólks á Íslandi. Döff einstaklingar eru heyrnarlausir sem nota táknmál sem fyrsta móðurmál til samskipta. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvernig döff einstaklingar á Íslandi upplifa félagsleg samskipti við döff og heyrendur og áhrif slíkra samskipta á sjálfsmynd þeirra. Nauðsynlegt var að skoða samskiptin frá sjónarhóli döff fólks til að kynnast upplifun þess og reynslu. Þátttakendur í rannsókninni voru sex heyrnarlausir, þrír karlar og þrjár konur á svipuðum aldri sem tilheyra öll samfélagi heyrnarlausra og líta á sig sem döff. Við rannsóknina, sem var unnin á árunum 2016–2020, var beitt eigindlegum rannsóknaraðferðum. Gagnasöfnun fór fram með viðtölum þar sem rætt var um reynslu þeirra. Gagnagreining byggir á aðferðum fyrirbærafræði. Niðurstöður hennar benda til þess að döff fólk hér á landi nái ekki að hafa nægjanleg félagsleg samskipti á táknmáli og að það hafi mikil áhrif á sjálfsmynd þeirra. Döff samfélagið er fámennt og táknmálskunnáttu heyrandi er almennt ábótavant, sem setur samskiptum þröngar skorður. Döff fólk og samfélag heyrnarlausra standa líka frammi fyrir miklum breytingum. Með auknum kuðungsígræðslum fækkar þeim sem reiða sig eingöngu á táknmál og döff samfélagið minnkar. Að auki hafa ýmsar aðrar tæknibreytingar áhrif á framtíð þeirra og sjálfsmynd. Bregðast þarf við þessu til að tryggja lífsgæði döff fólks hér á landi til dæmis með stóraukinni táknmálskunnáttu almennings.

Kristinn Diego

Lykilorð: döff fólk, sjálfskilningur, félagsleg tengsl

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  30/10, 2020 13:00
 • Málstofu lýkur
  30/10, 2020 14:45
 • Zoom meeting id: 657 4158 8679
Höfundar erinda
MA/MS nemi / MA/MSc student
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi / MA/MSc student
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi / MA/MSc student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Annað / Other
Háskóli Íslands / University of Iceland
Lektor / Assistant Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  30/10, 2020 13:00
 • Málstofu lýkur
  30/10, 2020 14:45
 • Zoom meeting id: 657 4158 8679