Samfélög án aðgreiningar? Aðlögun innflytjenda á íslandi

Málstofustjóri: Þorlákur Axel Jónsson

Viðhorf Íslendinga til innflytjenda og fjölmenningar

Á tveimur áratugum hefur hlutfall innflytjenda af mannfjölda á Íslandi vaxið mjög og íslenskt samfélag tekið að þróast í átt til fjöl­menningar. Hefur sú þróun haft áskoranir í för með sér fyrir íslenskt samfélag. Í erindinu eru skoðaðar niðurstöður úr könnun sem var hluti af rannsóknarverkefni undir forystu Háskólans á Akureyri, „Samfélög án aðgreiningar? Aðlögun innflytjenda á Íslandi“. Þar voru Íslendingar spurðir út í viðhorf sitt til innflytjenda og fjölmenningar á Íslandi. Könnunin var gerð haustið 2018 og náði til tólf mismunandi sveitarfélaga. Markmið fyrirlesara er að leiða í ljós hvaða viðhorf til innflytjenda og fjölmenningar eru ríkjandi á Íslandi og hvort fjölgun innflytjenda tengist búsetuánægju fólks. Var skoðað sérstaklega hvort munur sé á viðhorfum íbúa sem koma frá svæðum þar sem íbúa­talan inniheldur hátt eða lágt hlutfall innflytjenda. Unnið var úr gögnum með lýsandi tölfræði og gerð var línuleg aðhvarfs­greining. Fram kom að ekki eru tengsl á milli afstöðu Íslendinga til innflytjenda og svo þess hvort hátt eða lágt hlutfall innflytjenda býr á sama svæði. Er sú niðurstaða ekki í samræmi við eldri rannsóknir á viðhorfum Íslendinga, þar sem að niðurstöður bentu til þess að fjölgun innflytjenda hefði í för með sér neikvæðara viðhorf gagnvart þeim.

Ómar Hjalti Sölvason

Kvennavinna: Erlendar fagkonur í láglaunastörfum

Erfitt er fyrir erlendar fagkonur að fá störf við hæfi og/eða fá menntun og réttindi frá heimalandinu metin á Íslandi. Ófull­nægjandi íslenskukunnátta og íslenskukennsla; tak­mark­aður stuð­­ningur og skortur á sjálfstrausti eru á meðal helstu hind­rana fyrir erlendar konur á íslenskum vinnumarkaði. Markmið þessa for­verkefnis var að skoða sérstaklega hindranir í vegi erlendra fag­kvenna á Akureyri og benda í kjölfarið á mögulegar lausnir. Fimm konur voru valdar með hentug­leikaaðferð og tekin við þær viðtöl. Hverri og einni var síðan fylgt eftir í leit sinni að við­eigandi starfi og veitt aðstoð eftir þörfum. Ferlið, ásamt upplifun þeirra sjálfra, var skrásett nákvæmlega meðan á verkefninu stóð. Helstu niðurstöður voru m.a. að erfiðustu hindranirnar eru tak­mörkuð íslenskukunnátta; að bjóðast einungis störf sem fela í sér að starfa einsömul eða með öðrum útlendingum, og þar af leiðandi skortur á tækifærum til að starfa í íslensku málumhverfi. Nægt framboð af íslensku starfsfólki, í þeim fagstéttum á Akur­eyri sem rannsóknin náði til, fækkar tækifærum innflytjenda enn frekar. Leiðir til bóta gætu verið markviss samvinna sveitafélags, vinnu­markaðarins og stofnana, er starfa í þágu innflytjenda, til að tryggja þeim betra aðgengi að íslensku málumhverfi. Slíkt gæti veitt innflytjendum tækifæri til að æfa sig í íslensku, bætt at­vinnumöguleika þeirra, stuðlað að betri mannauðsnýtingu og dregið úr fordómum. Horfa mætti til fyrirmynda á höfuðborgar­svæðinu á borð við starfsgreinatengd íslenskunámskeið og Íslensku­þorpið.

Sveinbjörg Smáradóttir og Markus Hermann Meckl

Pólitísk þátttaka innflytjenda á Íslandi

Erindið byggir á rannsókn sem er hluti af rannsóknarverkefninu „Samfélög án aðgreiningar? Aðlögun innflytjenda á Íslandi“ við Háskólann á Akureyri. Verkefnið hlaut styrk úr Rannsóknarsjóði árið 2018. Því er stýrt af Háskólanum á Akureyri en að auki koma tíu samstarfsaðilar og sérfræðingar frá öðrum háskólum og stofnunum að því. Stór hluti af verkefninu er spurningakönnun meðal innflytjenda um aðlögun þeirra á Íslandi „How is your life in Iceland?“ Hún var framkvæmd haustið 2018. Þátttakendur í könnuninni voru alls 2211 innflytjendur á aldrinum 18-80 ára, eða rétt um 5% allra innflytjenda sem áætlað er að búsettir séu á Íslandi. Markmið könnunarinnar var að fá innsýn í stöðu inn­flytjenda í íslensku samfélagi og var áhersla lögð á þætti er varða tungumál, atvinnu, menntun, þátttöku, menningu og hamingju.

Í þessu erindi verða kynntar niðurstöður greiningar á spurn­ingum um kosningaþátttöku og pólitíska þátttöku innflytjenda á Íslandi. Kom hún út á skýrslu við Háskólann á Akureyri í ágúst­mánuði 2019. Helstu niðurstöður skýrslunnar voru: Að kjörsókn innflytjenda er langt undir heildarkjörsókn í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna og að kjörsókn þeirra er mun meiri til sveitarstjórna en til Alþingis. Að konur meðal innflytjenda kjósa fremur en karlar og að eldri innflytjendur kjósa fremur en þeir yngri. Þá er kjörsókn er mun betri í sveitarfélögum sem staðsett eru utan höfuðborgarsvæðisins.

Grétar Þór Eyþórsson

Tengsl við Ísland: stafræn tengsl innflytjenda og þátttaka þeirra í nærsamfélaginu

Tengsl innflytjenda við staðinn þar sem þeir setjast að myndast í vaxandi mæli fyrir tilverknað notkunar stafrænna miðla, sam­kvæmt nýlegum rannsóknum. Sagt verður frá rannsókn á sam­bandi stafrænna tengsla innflytjenda við upprunalandið, þátt­töku þeirra í nærsamfélaginu og ánægju með lífið á Íslandi. Staf­ræn tengsl voru metin sem tíðni notkunar fjölmiðla uppruna­lands og tíðni stafrænna samskipta við fólk frá upprunalandinu. Greind voru gögn úr spurningakönnun (N 2139) sem árið 2018 var lögð fyrir rafrænt meðal hentugleikaúrtaks innflytjenda á Íslandi. Gerð voru kí-kvaðrat próf og fjölkosta fjölbreytu­aðfalls­greining á tengslum bakgrunnsbreyta við líkur á að mælast með mikil-, miðlungs- eða lítil stafræn tengsl við upp­runa­landið. Fram kom að innflytjendur sem mælast með mikil staf­ræn tengsl við upprunaland sitt taka eins mikinn þátt í nær­sam­félaginu og þeir sem mælast með minni stafræn tengsl við upp­runalandið. Mikil stafræn tengsl við Íslendinga, notkun ís­lenskra fjölmiðla, áform um búsetu til langs tíma og að vera í starfi við hrein­gerningar eða fiskvinnslu tengdust auknum staf­rænum tengsl­um við upprunalandið. Mat innflytjenda á al­mennri ánægju sinni með lífið á Íslandi tengist ekki umfangi staf­rænna tengsla. Niðurstöðurnar gefa til kynna að innflytjendur sem mælast með mikil stafræn tengsl við upprunalandið fylli þann flokk sem fræðikonan Diminescu hefur kallað „tengda inn­flytjendur“, fólk sem rækti tengsl við fleiri en eitt land og taki nánast jafn mikinn þátt í nærsamfélaginu og aðrir.

Þorlákur Axel Jónsson og Lara Hoffmann

Stuðningur vina á unglingsárum eftir þjóðernisuppruna

Börn og unglingar hafa tilhneigingu til að tengjast frekar vinaböndum innan eigin þjóðernishóps heldur en út fyrir hann. Lítið er þó vitað um gæði og inntak vinasambanda eftir því hvort vinir eru af sama uppruna eða ólíkum. Markmið rannsóknarinnar sem kynnt verður í erindinu var að kanna hvers konar félags­legan stuðning unglingar af erlendum uppruna geta sótt annars vegar til íslenskra vina og hins vegar vina sem hafa erlendan bakgrunn eins og þau. Spurningalisti var lagður fyrir 806 unglinga (82% svarhlutfall) í 8.–10. bekk úr níu íslenskum grunn­skólum. Skólarnir voru á höfuðborgarsvæðinu, á Reykjanesi, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Skoðað var hvernig 14–16 ára unglingar mátu tilfinningalegan, ráðgefandi, verk­tengdan og efnislegan stuðning íslenskra vina (ef þeir áttu vini af innlendum uppruna) og vina sem voru af erlendum uppruna (ef þeir áttu slíka vini). Þá var kannað hvort fjöldi vina af hvorum uppruna og tímalengd búsetu á Íslandi skipti máli fyrir stuðninginn. Unglingum af erlendum uppruna fannst þeir ekki geta sótt stuðning til íslenskra vina í sama mæli og innlendum unglingum fannst þeir geta. Þetta átti sérstaklega við um tilfinningalegan stuðning. Í erindinu verða niðurstöður útskýrðar nánar og tekið dæmi um hvernig tímalengd búsetu og fjöldi vina tengist stuðningi frá vinum.

Eyrún María Rúnarsdóttir, Rúnar Vilhjálmsson, Sigrún Aðalbjarnardóttir og Robert Crosnoe

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 15:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 16:45
Höfundar erinda
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Prófessor / Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Doktorsnemi / PhD student
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Prófessor / Professor
Háskólinn á Akureyri / University of Akureyri
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 15:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 16:45