Samtal fræða og grasrótar um ofbeldi karla og karlmennsku

Málstofustjóri: Katrín Ólafsdóttir
samtal_fraeda_ofl

Á málstofunni verða flutt þrjú erindi sem öll fjalla um sjálfsmyndarsköpun karlmanna, en í ólíku samhengi. Karlmennskan verður rædd út frá viðbrögðum karlmanna við grasrótarstarfi Karlmennskunnar annars vegar og í akademísku ljósi út frá viðtölum við karlmenn sem beitt hafa ofbeldi í nánum samböndum hins vegar.

Sjá ágrip erindanna hér fyrir neðan.

Upplifun feðra sem beitt hafa ofbeldi í nánu sambandi: sjálfsvinna, uppeldi og ábyrgð

Í kjölfar rannsókna á erlendum og innlendum vettvangi á upplifun brotaþola hefur áhugi farið vaxandi á að kortleggja einnig upplifanir þeirra sem beitt hafa ofbeldi í nánum samböndum. Það á ekki síst við innan rannsókna um karlmennsku (e. Masculinity studies) þar sem mikil gróska hefur verið undanfarna áratugi. Ofbeldi í nánum samböndum er kynbundið vandamál þó að ljóst sé að öll kyn bæði beita og verða fyrir ofbeldi í nánum samböndum. Enn er þörf á að bæta við þekkingu og rannsóknum og hefur í því samhengi verið bent á að skoða verði upplifun feðra sérstaklega. Í erindinu er gerð grein fyrir fyrstu niðurstöðum úr viðtalshluta doktorsverkefnis sem hefur það að markmiði að fá innsýn í upplifunum feðra sem beitt hafa ofbeldi í nánu sambandi. Niðurstöðurnar byggja á sjö viðtölum, sem tekin voru haustið 2019 og sumarið 2020, við feður sem beitt hafa ofbeldi í nánu sambandi. Upplifun þeirra er sett í samhengi við femínískar kenningar undir áhrifum póst-strúktúralisma og karlmennsku fræða. Frásagnaraðferð (e. Narrative approach) var notuð til að greina reynslu viðmælenda af föðurhlutverkinu, sjálfsmynd og sjálfsvinnu. Niðurstöðurnar benda til þess að nauðsynlegt sé að fá innsýn í upplifun feðra sem beitt hafa ofbeldi til þess að unnt sé að fá heildstæðari mynd af ofbeldi í nánum samböndum og vinna að árangursríkum forvörnum og meðferðarúrræðum.

Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir

Lykilorð: feður, ofbeldi í náum samböndum, karlmennska

„Ég er kannski ekki merkilegur, en ég er allavegana góður gaur“. Um karlmenn sem beita ofbeldi í nánum samböndum og áhrif skammarinnar á mótun sjálfsins.

Skömmin er flókin tilfinning en hún er álitin  grundvallar­tilfinning í öllu ofbeldi. Markmið þessa erindis er að varpa ljósi á þátt skammarinnar í ofbeldi í nánum samböndum út frá sjónarhóli þeirra sem ofbeldinu beita, en mikilvægt er að leggja skömmina til grundvallar ef auka á skilning á ofbeldi í nánum samböndum. Ofbeldi karla í garð kvenna í nánum samböndum stríðir gegn jafnréttishugsjón samfélags okkar sem og viður­kenndri hegðun í samböndum. Karlmenn sem uppvísir verða að slíku ofbeldi verða að einskonar föllnu viðfangi karl­mennskunnar, “vondir gæjar”, sem gerir það erfitt fyrir einstak­linginn að horfast í augu við ofbeldisfulla hegðun sína. Erindið byggir á átta viðtölum við karlmenn sem beitt hafa ofbeldi í nánum samböndum og eru hluti af doktorsverkefni um sama efni. Viðtölin verða rýnd út frá hugmyndafræði hrif­kenninga (e. affect theory) en sjónum verður beint að skömminni eins og hún birtist okkur í frásögnum þessara einstaklinga. Hvaða áhrif hefur skömmin á mótun sjálfs­myndarinnar? Hvernig er skömmin sem félagslegt og menningarlegt fyrirbæri meðtekin og skilin í sam­tímalegu samhengi? Niðurstöður benda til þess að áhrif skammarinnar á mótun sjálfsins tengist eðli ofbeldisins sem framið var og ólíkum tenglsum einstaklingsins við orðræðu jafnréttis. Skömm viðmælenda er djúpstæð og gefur til kynna mikla krísu sjálfsins við úrvinnslu ofbeldisins. Aukinn skilningur á tengslum skammarinnar og ofbeldis karla gegn konum er þannig mikilvægur þáttur í baráttunni gegn ofbeldi í nánum samböndum.

Katrín Ólafsdóttir

Lykilorð: ofbeldi karla gegn konum, karlmennska, skömm

Andspyrna karla og drengja gegn aktívisma á samfélagsmiðlum

Kynferðisofbeldi og áreitni karla gegn konum og stúlkum er algengt í íslensku samfélagi. Instagramsíðan Fávitar var stofnuð árið 2016 með það að markmiði að varpa ljósi á hversu algengt það er að ungar stúlkur á samfélagsmiðlum fái óumbeðnar kynfæramyndir eða kynferðislýsingar sendar til sín frá körlum og drengjum. Slíkt ofbeldi er ekki hægt að einstaklingsgera, heldur er það birtingarmynd á kerfislægu fyrirbæri sem samrýmist fræðikenningum um kynjakerfið. Karlar vörpuðu ljósi á það hvernig sama kynjakerfi takmarkar frelsi og lífsgæði þeirra í frásögnum undir myllumerkinu #karlmennskan á Twitter í mars 2018. Þar var ráðandi íhaldssömum karlmennskuhugmyndum kynjakerfisins mótmælt og í kjölfarið var samfélagsmiðilinn Karlmennskan stofnaður, en miðillinn var hugsaður sem grasrótarátak sem hefði það að markmiði að halda áfram að hreyfa við slíkum hugmyndum. Í erindinu dregur umsjónarfólk samfélagsmiðlanna Fávitar og Karlmennskan saman þá andspyrnu sem þau hafa greint í fjölda athugasemda og skilaboðum sem þeim hafa borist þegar þau hafa gagnrýnt afleiðingar eða birtingarmyndir kynjakerfisins. Í gegnum þá samantekt gefst færi á að draga fram þau umræðuefni sem helst vekja upp sterka andspyrnu en þetta er jafnframt mikilvægt tækifæri til þess að ræða niðurstöður þeirra í samhengi við rannsóknir á karlmennsku og ofbeldi.

Sólborg Guðbrandsdóttir og Þorsteinn V. Einarsson

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 15:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 16:45
  • Zoom meeting id: 654 5674 1294
Höfundar erinda
Annað / Other
Annað / Other
Annað / Other
Annað / Other
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Doktorsnemi / PhD student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    30/10, 2020 15:00
  • Málstofu lýkur
    30/10, 2020 16:45
  • Zoom meeting id: 654 5674 1294