Send í sveit: þetta var í þjóðarsálinni

Málstofustjóri: Jónína Einarsdóttir

Kynntar verða niðurstöður rannsóknarverkefnisins Óháður flutningur íslenskra barna á 20. öldinni, sem hlaut verkefnastyrk frá Rannis 2015-2017. Rannsóknin skoðar siðinn að senda þéttbýlisbörn í sveit yfir sumartímann. Leitast er við að svara spurningum um uppruna siðarins, fyrirkomulagi, arleifð og á hvaða formi honum gæti verið viðhaldið.

Sinn er siður í landi hverju

Siðurinn að senda börn í sveit hófst við þéttbýlismyndun í kjölfar afnáms vistarskyldunnar og fólksekklu í landbúnaði sem sam­tímis missti stöðu sem nánast eini atvinnuvegur þjóðarinnar. Siðurinn var dyggilega studdur af ríkisvaldinu sem leit á sveitadvöl sem leið til að skapa trausta og iðjusama þegna, sam­tímis sem bændur fengju vinnukraft um hábjarg­ræðistímann. Hér verður sagt frá helstu niðurstöðum rannsóknar sem hafði það markmið að skoða siðinn að senda börn í sveit með áherslu á þau sem dvöldu á sveitabæjum. Rýnt er í frásagnir sumar­dvalarbarna, fjölskyldna þeirra og sveitafólks, bókmenntir, sjónræn gögn og spurningakönnun. Siðurinn var hluti af þjóðar­sálinni og rótgróinn íslenskri menningu. Það endur­speglast í að um tveir af hverjum fimm núlifandi Íslendinga fóru í sveit, einn af hverjum fimm ólst upp í sveit og að algengasta ástæða þess að fara ekki í sveit var að ekki fékkst pláss fyrir viðkomandi. Um níu af hverjum tíu voru sáttir við eigin dvöl, þó hún hafi ekki verið einhliða auðveld. Um tíundi hver var ósáttur og átakanlegustu lýsingarnar um illa meðferð er að finna í ævisögum. Mun færri börn fara í sveit á 21. öldinni en áður, þau eru eldri við fyrstu dvöl og taka oftar ákvörðunina sjálf eða í samráði við foreldra. Ástæður sumardvalar reyndust svipaðar og áður og var ýmist lögð áhersla á velferð barnsins, hagsmuni foreldra, stórfjölskyldu, sveitafólks eða samfélagsins.

Jónína Einarsdóttir og Geir Gunnlaugsson

Hvað segja bændur þá?

Siðurinn að senda börn í sveit hefur fylgt þjóðinni allt frá því byggð tók að þéttast á landinu. Fáir hafa þó gefið því gaum hvað sveitafólk hefur um siðinn að segja. Undanfarin ár hefur hópur fræðafólks rannsakað siðinn að senda börn í sveit með fjöl­breyttum hætti og út frá mörgum sjónarhornum. Höfundar erindisins hafa annars vegar einblínt á upplifun þeirra sem tóku á móti börnunum og hins vegar á orðræðu og umfjöllun í fjölmiðlum frá árdögum siðarins.

Í erindinu verður fjallað um viðhorf íbúa í sveitum landsins frá síðari hluta 19. aldar og fram til okkar daga. Sérstök áhersla er lögð á Strandir og upplifum heimafólks þaðan, bænda, húsfreyja og barna. Byggt er á umfjöllun fjölmiðla, aðsendum greinum, viðtölum og rýnihópum. Lögð er áhersla á að ná fram fjöl­breyttum viðhorfum og reynslusögum karla og kvenna, hús­ráðenda sem og barna frá sveitabæjum. Raddir kvenna fá þó sérstakt vægi enda hefur saga þeirra síður verið sögð en karlbænda þrátt fyrir að það álag og ábyrgð sem fylgir því að sinna börnum annarra hafi einkum hvílt á þeim.

Esther Ösp Valdimarsdóttir og Eiríkur Valdimarsson

Bændur, býli og börn

Frá stofnun félagsþjónustu í Reykjavík árið 1967 var foreldrum barna sem bjuggu við félagslega erfiðleika boðin aðstoð við að senda börn sín til sveitardvalar í yfir sumartímann. Bændur um land allt gátu sótt um til félagsmálayfirvalda að taka að sér börn yfir sumartímann gegn gjaldi. Starfsmenn félagsþjónustu sáu um að útvega börnunum sem sóttu um sumardvöl heimili sem talið var við hæfi og sáu svo um eftirlit með þeim börnum sem dvöldu á sveitabæjum víðsvegar um landið. Erindið byggir á eigindlegum viðtölum við sveitafólk sem tók á móti börnum til sumardvalar. Fjallað verður um hvað einkenndi þau börn sem komu til dvalar og þær aðstæður sem sveitafólkið gat boðið upp á. Niðurstöður benda til þess að flest börnin áttu við fjölþættan vanda að etja, aðstæður heimilisfólks voru misjafnar og bændur misjafnlega í stakk búir til að takast á því þetta verkefni. Að lokum verður fjallað um hugmyndir samtímans um uppbyggi­legar aðstæður fyrir börn í vanda og þá hvort sumar­dvöl í sveit standist þær kröfur.

Mikilvægt er að hugmyndafræði félagslegra úrræða sé í sam­ræmi við stefnur í viðeigandi málaflokkum.

Hervör Alma Árnadóttir

Send í sveit – Sælan og skuggahliðarnar

Kaupstaðarbörn hafa verið send í sveit á Íslandi allt frá lokum 19. aldar og tíðkast það að einhverju leyti enn. Hin ýmsu frásagnar­form bókmenntanna hafa gert þennan sið að umfjöllunarefni sínu. Gjarnan er sagt frá aðdraganda dvalarinnar, ferðinni sjálfri, lífinu í sveitinni og síðast heimkomunni.

Markmiðið var að skoða með hvaða hætti hin ýmsu form bókmenntanna hafa fengist við siðinn og hvaða birtingarmyndir eru dregnar upp af honum. Hvernig er reynslu barnanna af sveitadvölinni lýst? Til þess að rannsaka hvernig Íslendingar hafa skrifað um siðinn að senda börn í sveit yfir sumartímann voru gaumgæfðar á annað hundrað bækur af mismunandi tegundum, barnabækur, skáldsögur fyrir fullorðna, ævisögur­/endur­minningabækur og ljóð. Munurinn á birtingarmyndum siðarins reyndist allnokkur eftir bókmenntategundum en hann er einkum áberandi þegar bornar eru saman ævisögur/endur­minningabækur annars vegar og sögur fyrir börn hinsvegar. Fyrrnefnda frásagnarformið dregur gjarnan upp neikvæðar lýsingar á veru barnanna. Sagt er frá erfiðum aðstæðum heima fyrir, þrældómi og ofbeldi í sveitinni og jafnvel heimkomu þar sem ekkert er eins og áður. Barnabækurnar lýsa sveitadvölinni oft sem ævintýri þar sem börnin fást við framandi aðstæður og kynnast nýjum hliðum lífsins. Sumardvalarbörnin lenda þó stundum í erfiðleikum til að byrja með en sigrast á þeim og dvölin markar djúp og jákvæð spor í líf þeirra.

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir

Sjálfboðaliðar í sveit. Um erlend ungmenni sem vinna kauplaust á sveitaheimilum

Aukinn fjöldi sjálfboðaliða starfar á íslenskum vinnumarkaði. Stór hluti þeirra vinnur í sveitum landsins. Aðilar vinnu­mark­að­arins telja að sjálfboðaliðar hér á landi gangi í störf sem um gilda kjara­samningar, en óljóst er hvort kjarasamningar taki yfir sum störf í sveitum, svo sem vinnu í kringum sauðburð eða smala­mennsku. Markmiðið er að greina störf sjálfboðaliða, kjör, vinnu­skyldu og aðstæður í sveitum landsins. Spurt er hvort sjálfboða­liðarnir hafi tekið við af sumardvalarbörnum fyrri tíma. Öllum auglý­singum um sjálfboðaliðastörf var safnað 27. febrúar 2017 og 2018 af heimasíðunum www.workaway.info og www.helpx.net. Þær voru greindar með Atlas forritinu. Viðtöl voru jafnframt tekin við 14 sjálfboðaliða. Niðurstöðurnar sýna að líkt og ungmenni í sveitum landsins hér áður fyrr, ganga sjálf­boða­liðarnir í margvísleg störf til sveita, allt frá hefðbundnum bú- eða garðyrkjustörfum yfir í aðstoð við barnaumönnun og heimilis­­störf. Vinnuálag er oft mikið. Það sem þó greinir sjálf­boða­liðana frá sumardvalarbörnunum er að margir þeirra vinna einnig við rekstur veitingastaða og gistiheimila. Flestir sjálf­boða­liðar fá fæði og húsnæði og láta vel af dvölinni. Í auglýsingum eftir sjálfboðaliðum er oft bent á sérkenni sveitar­innar, nálægðar við hreina og ósnortna náttúru og dýralíf, en sömu atriði voru gjarnan notuð sem rök fyrir ágæti sveitadvalar fyrir kaup­staðar­börn, auk þess sem þau myndu læra að vinna og tileinka sér iðjusemi.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Jónína Einarsdóttir

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 11:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 12:45
Höfundar erinda
Vísindamaður / Researcher
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Dósent / Associate Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Fræðimaður / Research Scholar
Sjálfstætt starfandi / Working independent
Verkefnisstjóri / Project manager
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 11:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 12:45