Skilvirkni markaða á íslandi?

Málstofustjóri: Sveinn Agnarsson
Samkeppni á smásölumarkaði með lyf á Íslandi

Áður fyrr höfðu sérleyfishafar einkarétt á að starfrækja lyfsölu á tilteknum svæðum. Slík réttindi voru afnumin árið 1996. Sam­hliða þessum breytingum voru innleidd ýmis lög og reglugerðir sem hlúa áttu að eðlilegri samkeppni og bættri þjónustu á lyfja­markaði. Haustið 2018 var Hagfræðistofnun falið að kanna skipan lyfsölu hér á landi með hliðsjón af þessum kerfis­breytingum frá því um miðjan tíunda áratuginn. Í úttektinni er farið yfir verðlagsþróun helstu lyfjaflokka hér­lendis út frá opinberum gögnum en neytendahegðun var einnig rýnd með upplýsingum frá Sjúkratryggingum og Lyfjagreiðslu­nefnd. Ljóst er að lyfjaverð hefur lækkað en lyfjaúrval er mun minna hér en á Norðurlöndunum.

Þrátt fyrir góðan ásetning er enn margt sem hindrar aðgang að lyfjamarkaði. Skilyrði fyrir starfsleyfi eru ströng og verð­lagning lyfja að mestu í höndum hins opinbera. Alþjóðlegt reglu­verk spilar þar einnig stóra rullu. Af því má ráða að enn sé rúm fyrir frekari samkeppnisumbætur. Slík sjónarmið geta þó stangast á við almenn viðmið um heilbrigðisþjónustu, sem lyf­sala er. Þó svo að markmið núverandi fyrirkomulags hafi að hluta til náðst, t.d. lækkun lyfjaverðs, hefur núverandi kerfi margar ótil­ætlaðar afleiðingar.

Ágúst Arnórsson, Sigurður Björnsson og Sigurður Jóhannesson

Útflutningur hráefna: Hagræn áhrif

Ein af meginniðurstöðum hagfræðinnar er að óheft alþjóða­viðskipti bæti nýtingu framleiðsluþátta og auki heimsframleiðslu. Með vísan til hennar hefur verið lögð á það nokkur áhersla í efnahagsskipulagi heimsins að gera milliríkjaviðskipti sem frjálsust.Frjáls milliríkjaviðskipti krefjast þess að þjóðir sem búa yfir verðmætum hráefnum svo sem jarðefnum, orkulindum eða fiskistofnum selji þessi hráefni hæstbjóðanda. Sá er oft staðsettur erlendis þar sem iðnvæðing er háþróuð og markaðir stórir. Heimaríkið verður því iðulega útflutningsland hráefna, en úrvinnsla þeirra fer fram erlendis. Í þessari grein verður reynt að varpa ljósi á ýmsar hagrænar hliðar á útflutningi hráefna. Nánar tiltekið verður leitað svara við eftirtöldum spurningum: Er út­flutningur hráefna til þess fallin að auka landsframleiðslu í útflutningslandinu? Sé svo munu þá allir hagnast? Mun útflutningslandið eflast á aðra mælikvarða, t.d. fólksfjölda? Eykur svona útflutningur heimsframleiðsluna? Til að svara þessum spurningum er beitt klassískum aðferðum hagfræðinnar. Sett er fram einfalt líkan af hagrænum aðalatriðum málsins og niður­stöður þess líkans varðandi landsframleiðslu, ábata mismunandi hópa og þróun fólksfjölda kannaðar annars vegar miðað við frjálsan útflutning hráefna og hins vegar úrvinnslu þeirra innan­lands. Niðurstöðurnar eru í megindráttum að frjáls viðskipti leiði til þess að samanlögð landsframleiðsla útflutningslands og innflutningslands vaxi, en vera kunni að landsframleiðsla í út­flutnings­landi hráefna lækki og fóli fækka. Seljendur hráefna­nna muni á hinn bóginn ávallt hagnast.

Ragnar Árnason

Eiga markaðslausnir erindi á orkumarkað?

Undanfarin ár hefur markaður með rafmagn á Íslandi þokast í átt að samkeppnismarkaði með innleiðingu á orkupökkum Evrópu­sambandsins. Nú eru liðin 14 ár síðan Íslendingar fengu að velja milli rafmagnsframleiðenda. Hér verður fjallað um reynsluna af þessu og fleiri breytingum á markaði með rafmagn á Íslandi og rætt um það sem er í vændum. Hafa neytendur hagnast á breytingunum? Er pláss fyrir frjálsa samkeppni á íslenskum rafmagnsmarkaði? Leiða markaðslausnir til óbæri­legra verðsveiflna í rafmagnsverði? Skoðuð verða dæmi þar sem samkeppnismarkaður hefði brugðist öðruvísi við en íslenskur orkumarkaður gerði á sínum tíma. Í greiningunni eru einföld líkön úr rekstrarhagfræði notuð til þess að bera áhrif markaðs­lausna á velferð saman við lausnir sem kunnar eru af íslenskum orkumarkaði frá fyrri árum og úr umræðu líðandi stundar. Skoðað verður hvort draga má lærdóm af aldagömlu líkani Ricardos af viðskiptum tveggja landa í þessu sambandi. Skoðaðar verða tölur um einstaka þætti rafmagnsverðs hér á landi undanfarna áratugi. Jafnframt verður horft á reynslu Norðmanna af þátttöku í evrópskum rafmagnsmarkaði.

Sigurður Jóhannesson

Er skynsamlegt að takmarka lánstíma fasteignalána?

Stjórnvöld íhuga að breyta lögum um vexti og verðtryggingu þannig að: 1) að setja hámark á lánstíma svokallaðra verð-tryggðra jafngreiðslulána, 2) að hækka lágmarkstíma slíkra lána úr 5 árum í 10 ár, 3) að fjölga vísitölum sem heimilt er að nota sem grundvöll verðtryggingar og lögbinda notkun vísitölu neyslu¬verðs án húsnæðis sem grundvöll útreiknings verðbóta verðtryggðra jafngreiðslulána og 4) að lögbinda skyldu Hag¬stofu Íslands til að reikna og birta vísitölu neysluverðs án hús¬næðis.  Á vef Stjórnarráðsins hafa verið birt drög að frumvarpi til laga um breytingar á vaxtalögum o.fl. lögum. Markmið um¬ræddra draga er að ná fram markmiðum 1) til 4) hér að ofan.
Í erindinu verður textagreiningu beitt til að meta í hvaða mæli ráðstafanir þær sem mælt er fyrir í frumvarpinu séu líklegar til að ná fram þeim markmiðum sem stefnt er að.  Þá verður einnig reynt að leggja mat á hversu margir mögulegir lántakendur muni standa frammi fyrir breyttum kjörum vegna laga¬setningarinnar.  Loks verður rætt hvort þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði séu til góðs fyrir lántakendur fasteignalána.

Þórólfur Matthíasson

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  01/11, 2019 11:00
 • Málstofu lýkur
  01/11, 2019 12:45
Höfundar erinda
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur / Specialist
Háskóli Íslands / University of Iceland
Verkefnisstjóri / Project manager
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Verkefnisstjóri / Project manager
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  01/11, 2019 11:00
 • Málstofu lýkur
  01/11, 2019 12:45