Sköpun á starfsferli í heftandi aðstæðum

Málstofustjóri: Soffía Valdimarsdóttir

„Einnota samfélag, viljum við það? Fólk er aðeins farið að pæla, gera við og búa hlutina til sjálft“

Ekkert lát virðist vera á grósku í handverksiðkun Íslendinga sem tók kipp um aldamótin síðustu og náði hæstu hæðum eftir Hrunið 2008. Verslanir sem sérhæfa sig í hráefni til handverks­iðkunar lifa góðu lífi og úti á landi er varla þá þyrpingu að finna að ekki þrífist þar handverksmarkaður eða sex. Í þessu erindi segir af yfirstandandi ferð minni hringinn í kringum landið til þess farin að safna eigindlegum gögnum meðal fólks sem hefur að öllu leyti eða einhverju atvinnu af handverki. Markmið rannsóknar­innar er að greina þann hvata sem liggur að baki hand­verks­iðkun í atvinnuskyni en vitað er að tímalaun í geiranum eru með því lægsta sem þekkist. Nú þegar hafa verið tekin hálfopin viðtöl við 36 einstaklinga og þau frumgreind með aðferðum grundaðrar kenningar. Helstu niðurstöður eru að marg­þættar ástæður liggja að baki iðkuninni. Áhugi, lífsfylling og viðbragð við áföllum eru þættir sem búast mátti við í ljósi fyrri rannsókna. Áður óþekkt tækifæri vegna ferðamanna­flaumsins sömuleiðis. Óvæntari þættir eru hugsjón um sjálf­bærni og vísbendingar um að íslenskur vinnumarkaður sé ekki þróaðri en svo að starfsemi af þessu tagi sé samfélögunum víða um landið lífsnauðsyn.

Soffía Valdimarsdóttir

Alin upp erlendis – rofin náms- og starfsferilssaga

Fólksflutningar milli landa kalla á félagslegar og sálrænar breytingar, ekki síst á náms- og starfsferli. Þeir sem hafa alist upp erlendis og flytja aftur til Íslands eftir tvítugt eiga erfitt með að átta sig á samfélaginu og tungumálið kann að vefjast fyrir mörgum. Þessi rannsókn beinist að náms- og starfsráðgjöf við fullorðna einstaklinga sem hafa alist upp erlendis og gengið þar í grunn- og framhaldsskóla. Ráðgjafaraðferðin Career con­struct­ion interview beinist sérstaklega að sjálfsmynd og lífssögu og hér er rannsakað að hvaða marki hún hentar þessum markhópi. Framfarir eru mældar með KANS mælitækinu og lífsþemu eru greind með bókmenntafræðilegri aðferð. Í erindinu verður sagt frá dæmum af náms- og starfsráðgjöf við konur á aldrinum 30 til 50 ára, þar sem CCI aðferðinni er beitt.

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir

Árangur vinnumarkaðsaðgerða í kjölfar efnahagshruns

Í þeim aðstæðum sem hér sköpuðust haustið 2008 í kjölfar efnahagskreppu, stóð íslensk þjóð frammi fyrir fjölda­atvinnu­leysi sem hafði víðtæk áhrif á mótun starfsferils þeirra sem misstu vinnu.  Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að varpa ljósi á árangur vinnumarkaðsaðgerða sem gripið var til í þeim tilgangi að bregðast við stöðunni. Í rannsókninni er sjónum beint að átaksverkefninu Nám er vinnandi vegur þar sem atvinnu­leitendum gafst tækifæri á að stunda formlegt nám með fram­færslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði.  Ástæða þess að sjónum var beint að Nám er vinnandi vegur er að hér var um að ræða nýja nálgun þar sem gerð er tilraun til að beita ákveðinni fagstétt í baráttunni við fjöldaatvinnuleysi og aukið fjármagn sett í náms- og starfsráðgjöf. Rannsóknin var eigindleg og fólst í að taka viðtöl við sjö náms- og starfsráðgjafa sem komu að framkvæmd verkefnisins. Að auki var unnið úr fyrirliggjandi gögnum og skýrslum um átaksverkefnið. Niðurstöður benda til þess að átaks­verkefnið hafi skilað góðum árangri fyrir langstærstan hluta þátttakenda. Ætla má að þar hafi aukin áhersla á náms- og starfsráðgjöf með auknu fjármagni, ásamt tryggri framfærslu til þátttakenda á meðan á námi stóð skipt mestu máli.

Hrafnhildur Tómasdóttir

Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 15:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 16:45
Höfundar erinda
Aðjúnkt / Adjunct Lecturer
Háskóli Íslands / University of Iceland
Sérfræðingur / Specialist
Háskóli Íslands / University of Iceland
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
  • Málstofa hefst
    01/11, 2019 15:00
  • Málstofu lýkur
    01/11, 2019 16:45