Málstofan um Stefnu og samkeppnishæfni myndar ramma um erindi sem lýsa rannsóknum á stefnumiðaðri stjórnun og á samkeppnishæfni á Íslandi. Í þessari málstofu er áhersla lögð á að greina frá rannsóknum á stefnumiðuðu starfi fyrirtækja, stefnumótun hjá hinu opinbera og hvernig þessi atriði tengjast samkeppnishæfni á Íslandi.

Stefna í reynd í íslensku fjármálafyrirtæki

Stefna í reynd er ný nálgun innan stefnumótunarfræðanna sem miðar að því að brúa bil milli fræðanna og hins stefnumiðaða starfs í fyrirtækjum. Stjórnun breytinga tengist stefnumiðuðu starfi og útfærslu á samkeppnisforskoti. Jafnframt hefur straumlínustjórnun mikla þýðingu fyrir rekstur. Straumlínustjórnun býr yfir ýmsum verkfærum sem geta hjálpað fyrirtækjum að ná betri árangri í rekstri. Markmið rannsóknarinnar var að öðlast betri sýn á stefnu í reynd í íslensku fjármálafyrirtæki, auk þess að skoða hvernig straumlínu- og breytingastjórnun getur birst í starfsháttum og iðkun á stefnu. Litið er á rannsóknina sem eitt skref í átt að dýpri skilningi á því hvernig stefnumiðað starf fer í raun og veru fram. Framkvæmd rannsóknarinnar var eigindleg og tekin voru hálfopin djúpviðtöl við 12 einstaklinga innan fyrirtækisins sem sögðu frá upplifun sinni á viðfangsefninu. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að iðkendur stefnu í reynd geta verið af ýmsum toga. Helstu iðkendur eru forstjóri og æðstu stjórnendur en millistjórnendur, starfsmenn, ráðgjafar og stefnuteymi eru meðal þeirra sem geta haft áhrif á stefnumótunina á beinan eða óbeinan hátt. Niðurstöður bentu jafnframt til þess að nálgun fyrirtækisins í straumlínu- og breytingastjórnun gæti talist til starfshátta og iðkunar stefnu. Stefnu í reynd, þ.m.t. straumlínu- og breytingastjórnunar-aðferðir fyrirtækisins, má sjá sem stöðugt lærdómsferli sem miðar að því að bæta starfsemi og árangur.

Rannveig Gauja Guðbjartsdóttir og Runólfur Smári Steinþórsson

Umbylting á stefnu skipulagsheildar

Hvernig fer stefnumiðuð stjórnun fram í stórum opinberum fyrirtækjum? Til að kanna þetta var gerð eigindleg rannsókn á mótun og framkvæmd stefnumiðaðs starf hjá Landsneti. Markmið rannsóknarinnar var að rýna í ferli stefnumótunar og þær áherslur sem hafa haft áhrif á framvindu stefnumiðaðs starf hjá fyrirtækinu. Varðandi fræðilegt sjónarhorn var litið til stefnu í reynd. Rannsóknarspurning verkefnisins var: „Hver er upplifun stjórnenda og starfsfólks á stefnu í reynd hjá fyrirtækinu?“ Beitt var aðferðafræði raundæmisrannsókna og fyrirbærafræði. Átta viðtöl voru tekin við stjórnendur og starfsfólk fyrirtækisins. Viðtöl voru afrituð, kóðuð og eftirfarandi þemu voru sett fram: Tilefni stefnumótunar, stefna, stefnumiðuð stjórnun og framkvæmd stefnu.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þörf hafi verið fyrir breytingu á stefnu fyrirtækisins á þeim tíma sem rannsóknin náði til. Greina mátti nýjan tón því stefnu fyrirtækisins hafði verið umbylt frá því sem áður var. Niðurstöður rannsóknarinnar benda einnig til þess að hugmyndafræði straumlínustjórnunar hafi verið notuð sem verkfæri í stefnumiðaðri stjórnun hjá fyrir¬tækinu.  Upplifun stjórnenda og starfsfólks var sú að ný stefna fyrirtækisins hafi komið úr grasrót fyrirtækisins, að hún hafi verið mótuð af starfsfólkinu.

Hjörleifur Þórðarsson og Runólfur Smári Steinþórsson

 

Kvikmyndir, mannauður og samkeppnishæfni

Kvikmyndaiðnaður á Íslandi hefur tekið miklum breytingum hin síðari ár og farið frá því að vera lítil starfsemi yfir í iðngrein þar sem fjölmargir aðilar taka þátt. Þegar iðnaður stækkar getur verið mikilvægt að huga að stefnumótun, þróun klasa og samkeppnishæfni iðngreinarinnar. Rannsókn á kvikmyndaiðnaði á Íslandi tók fyrir mikilvægi mannauðs í tengslum við klasastarf, samkeppnishæfni og heildræna stefnumótun kvikmyndageirans. Viðtöl voru tekin við tíu aðila sem starfa við kvikmyndagerð á Íslandi. Viðtölin voru afrituð og kóðuð. Fram komu tvö megin-þemu, annars vegar maðurinn og kerfið og hins vegar fagmennska.
Niðurstaða var að heildræn stefnumótun og klasastarf gæti gagnast kvikmyndagreininni, ýtt undir samkeppnishæfni og út-rás hennar. Að mati viðmælenda hefur margt gott og jákvætt verið að gerast í íslenskum kvikmyndaiðnaði en margt mætti gera betur, ekki síst varðandi menntun og verndun starfsfólks. Kallað var eftir frumkvæði stjórnvalda og aðkomu sem flestra hlut¬aðeigandi. Einnig var talinn ávinningur af því að leggja áherslu á eflingu klasa innan kvikmyndageirans. Tilgáta höfundar er að mikil verðmæti sé að finna í fórnfúsum og skapandi mannauði sem mikilvægt er að hlúa að og stuðla þannig mögulegu samkeppnisforskoti til framtíðar innan grein-arinnar.

Ester Bíbí Ásgeirsdóttir

Samfélagsábyrgð og samkeppnishæfni

Áhersla hefur verið á ábyrga viðskiptahætti á undanförnum árum. Rannsóknir gefa hins vegar til kynna að skuldbinding að baki innleiðingu fyrirtækja á samfélagsábyrgð geti verið takmörkuð. Bent hefur verið á margvíslegar vísbendingar sem draga úr trúverðugleika og gagnsæi stefnu fyrirtækja í sam-félagsábyrgð. Rannsóknir hafa einnig varpað ljósi á að sam-félagsábyrgð geti haft jákvæð áhrif á samkeppnishæfni og að fyrirtæki hafi hag af því að standa vel að samfélagsábyrgð.
Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig valin íslensk fyrirtæki framfylgja stefnu í samfélagsábyrgð og hvernig það teng¬ist samkeppnishæfni. Tekin voru viðtöl við sjö einstaklinga frá fimm fyrirtækjum, auk öflunar á fyrirliggjandi gögnum.  Helstu niðurstöður voru að fyrirtækin gátu sýnt fram á ástundun gagnvart stefnu í samfélagsábyrgð með dæmum. Ástundun fyrirtækjanna skiptist í tvo flokka, þar sem þrjú voru með innihaldslétta ástundun og tvö innihaldsríka ástundun. Hjá fjórum fyrirtækjum mátti sjá samfélagsábyrgð í kjarnastarfsemi og viðskiptastefnu þar sem ferlar voru endurnýjaðir, kynningar gagnvart viðskiptavinum settu samfélagsábyrgð í forgrunn og nýsköpun og vöruþróun tók mið af samfélagslegum og um-hverfislegum áhrifum. Fjögur fyrirtæki fundu fyrir jákvæðum áhrifum samfélagsábyrgðar á samkeppnishæfni. Helsti ávinningur var bætt ímynd, sýnileiki og greiðara aðgengi að hagsmunaaðilum, verkefnum og viðskiptum. Fjárhagslegur ávinningur virtist helst óbeinn.

Sigfús Jónasson

Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  01/11, 2019 13:00
 • Málstofu lýkur
  01/11, 2019 14:45
Höfundar erinda
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Prófessor / Professor
Háskóli Íslands / University of Iceland
MA/MS nemi / MA, Msc. student
MA/MS nemi / MA, Msc. student
MA/MS nemi / MA, Msc. student
Háskóli Íslands / University of Iceland
Upplýsingar
 • Málstofa hefst
  01/11, 2019 13:00
 • Málstofu lýkur
  01/11, 2019 14:45